M’Cheyne Bible Reading Plan
4 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Nú syndgar einhver af vangá í einhverju því, sem Drottinn hefir bannað að gjöra, og gjörir eitthvað af því.
3 Ef smurði presturinn syndgar og bakar fólkinu sekt, þá skal hann fyrir synd sína, er hann hefir drýgt, færa Drottni ungneyti gallalaust til syndafórnar.
4 Skal hann leiða uxann að dyrum samfundatjaldsins fram fyrir Drottin og leggja hönd sína á höfuð uxans og slátra uxanum frammi fyrir Drottni.
5 Skal smurði presturinn taka nokkuð af blóði uxans og bera það inn í samfundatjaldið.
6 Skal presturinn drepa fingri sínum í blóðið og stökkva sjö sinnum nokkru af blóðinu frammi fyrir Drottni, fyrir framan fortjald helgidómsins.
7 Því næst skal presturinn ríða nokkru af blóðinu á horn ilmreykelsisaltarisins, er stendur í samfundatjaldinu frammi fyrir Drottni, en öllu hinu blóði uxans skal hella niður við brennifórnaraltarið, er stendur við dyr samfundatjaldsins.
8 Síðan skal hann taka allan mörinn úr syndafórnaruxanum, _ netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn,
9 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið; við nýrun skal hann taka það frá _,
10 eins og hann er tekinn úr heillafórnarnautinu, og skal presturinn brenna þetta á brennifórnaraltarinu.
11 En húð uxans og allt kjötið, ásamt höfðinu og fótunum, innýflunum og gorinu,
12 allan uxann skal hann færa út fyrir herbúðirnar á hreinan stað, þangað sem öskunni er hellt út, leggja hann á við og brenna í eldi. Þar sem öskunni er hellt út skal hann brenndur.
13 Ef allur Ísraels lýður misgjörir af vangá og það er söfnuðinum hulið og þeir gjöra eitthvað, sem Drottinn hefir bannað, og falla í sekt,
14 þá skal söfnuðurinn, þegar syndin, sem þeir hafa drýgt, er vitanleg orðin, færa ungneyti til syndafórnar og leiða það fram fyrir samfundatjaldið.
15 Og skulu öldungar safnaðarins leggja hendur sínar á höfuð uxans frammi fyrir Drottni og slátra uxanum frammi fyrir Drottni.
16 Og smurði presturinn skal bera nokkuð af blóði uxans inn í samfundatjaldið.
17 Og skal presturinn drepa fingri sínum í blóðið og stökkva því sjö sinnum frammi fyrir Drottni, fyrir framan fortjaldið.
18 Og nokkru af blóðinu skal hann ríða á horn altarisins, sem er frammi fyrir Drottni, inni í samfundatjaldinu, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við brennifórnaraltarið, sem er við dyr samfundatjaldsins.
19 Og hann skal taka allan mörinn úr honum og brenna á altarinu.
20 Þannig skal hann fara með uxann. Eins og hann fór með syndafórnaruxann, svo skal hann með hann fara. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir þá, og þeim mun fyrirgefið verða.
21 Skal hann síðan færa uxann út fyrir herbúðirnar og brenna hann, eins og hann brenndi hinn fyrri uxann. Er það syndafórn safnaðarins.
22 Þegar leiðtogi syndgar og gjörir af vangá eitthvað, sem Drottinn Guð hans hefir bannað, og verður fyrir það sekur,
23 og honum er gjörð vitanleg synd sú, er hann hefir drýgt, þá skal hann færa að fórnargjöf geithafur gallalausan.
24 Skal hann leggja hönd sína á höfuð hafursins og slátra honum þar sem brennifórnunum er slátrað, frammi fyrir Drottni. Það er syndafórn.
25 Skal presturinn þá taka nokkuð af blóði syndafórnarinnar með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en hinu blóðinu skal hann hella niður við brennifórnaraltarið.
26 En allan mörinn úr honum skal hann brenna á altarinu, eins og mörinn úr heillafórninni. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann vegna syndar hans, og honum mun fyrirgefið verða.
27 Ef einhver alþýðumaður syndgar af vangá með því að gjöra eitthvað það, sem Drottinn hefir bannað, og verður sekur,
28 og honum er gjörð vitanleg synd sú, sem hann hefir drýgt, þá skal hann færa að fórnargjöf geit gallalausa, fyrir synd þá, sem hann hefir drýgt.
29 Skal hann leggja hönd sína á höfuð syndafórnarinnar og slátra syndafórninni þar sem brennifórnum er slátrað.
30 Síðan skal presturinn taka nokkuð af blóðinu með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við altarið.
31 En allan mörinn skal hann taka frá, eins og mörinn úr heillafórninni var tekinn frá, og skal presturinn brenna hann á altarinu til þægilegs ilms fyrir Drottin. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann, og honum mun fyrirgefið verða.
32 Fram beri hann sauðkind að fórnargjöf til syndafórnar, þá skal það, er hann fram ber, vera ásauður gallalaus.
33 Skal hann leggja hönd sína á höfuð syndafórnarinnar og slátra henni til syndafórnar þar sem brennifórnum er slátrað.
34 Skal þá presturinn taka nokkuð af blóði syndafórnarinnar með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við altarið.
35 En allan mörinn skal hann taka frá, eins og sauðamörinn er tekinn úr heillafórninni, og skal presturinn brenna hann á altarinu ofan á eldfórnum Drottins. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann vegna syndar þeirrar, er hann hefir drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.
1 Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4 Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
2 Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?
2 Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:
3 "Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."
4 Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.
5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:
6 "Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."
7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.
8 Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.
9 Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."
10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.
11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.
12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,
13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.
19 Betri er fátækur maður, sem framgengur í ráðvendni sinni, heldur en lævís lygari og heimskur að auki.
2 Kapp er best með forsjá, og sá sem hraðar sér, misstígur sig.
3 Flónska mannsins steypir fyrirtækjum hans, en hjarta hans illskast við Drottin.
4 Auður fjölgar vinum, en fátækur maður verður vinum horfinn.
5 Falsvottur sleppur ekki óhegndur, og sá sem fer með lygar, kemst ekki undan.
6 Margir reyna að koma sér í mjúkinn hjá tignarmanninum, og allir eru vinir þess, sem gjafir gefur.
7 Allir bræður hins snauða hata hann, hversu miklu fremur firrast þá vinir hans hann.
8 Sá sem aflar sér hygginda, elskar líf sitt, sá sem varðveitir skynsemi, mun gæfu hljóta.
9 Falsvottur sleppur ekki óhegndur, og sá sem fer með lygar, tortímist.
10 Sællífi hæfir eigi heimskum manni, hvað þá þræli að drottna yfir höfðingjum.
11 Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði, og það er honum til frægðar að ganga fram hjá mótgjörðum.
12 Konungsreiði er eins og ljónsöskur, en hylli hans sem dögg á grasi.
13 Heimskur sonur er föður sínum sönn óhamingja, og konuþras er sífelldur þakleki.
14 Hús og auður er arfur frá feðrunum, en skynsöm kona er gjöf frá Drottni.
15 Letin svæfir þungum svefni, og iðjulaus maður mun hungur þola.
16 Sá sem varðveitir boðorðið, varðveitir líf sitt, en sá deyr, sem ekki hefir gát á vegum sínum.
17 Sá lánar Drottni, er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans.
18 Aga þú son þinn, því að enn er von, en farðu eigi svo langt, að þú deyðir hann.
19 Sá sem illa reiðist, verður að greiða sekt, því að ætlir þú að bjarga, gjörir þú illt verra.
20 Hlýð þú ráðum og tak umvöndun, til þess að þú verðir vitur eftirleiðis.
21 Mörg eru áformin í mannshjartanu, en ráðsályktun Drottins stendur.
22 Unun mannsins er kærleiksverk hans, og betri er fátækur maður en lygari.
23 Ótti Drottins leiðir til lífs, þá hvílist maðurinn mettur, verður ekki fyrir neinni ógæfu.
24 Latur maður dýfir hendinni ofan í skálina, en ekki nennir hann að bera hana aftur upp að munninum.
25 Sláir þú spottarann, verður hinn einfaldi hygginn, og sé vandað um við skynsaman mann, lærir hann hyggindi.
26 Sá sem misþyrmir föður sínum og rekur burt móður sína, slíkur sonur fremur smán og svívirðing.
27 Hættu, son minn, að hlýða á umvöndun, ef það er til þess eins, að þú brjótir á móti skynsamlegum orðum.
28 Samviskulaus vottur gjörir gys að réttinum, og munnur óguðlegra gleypir rangindi.
29 Refsidómar eru búnir spotturunum og högg baki heimskingjanna.
2 Ég vil að þér vitið, hversu hörð er barátta mín vegna yðar og þeirra í Laódíkeu og allra þeirra, sem ekki hafa séð mig sjálfan.
2 Mig langar, að þeir uppörvist í hjörtum sínum, sameinist í kærleika og öðlist gjörvalla auðlegð þeirrar sannfæringar og skilnings, sem veitir þekkinguna á leyndardómi Guðs, Kristi.
3 En í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.
4 Þetta segi ég til þess að enginn tæli yður með áróðurstali,
5 því að ég er hjá yður í andanum, þótt ég sé líkamlega fjarlægur, og ég horfi með fögnuði á góða skipan hjá yður og festu yðar í trúnni á Krist.
6 Þér hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum.
7 Verið rótfestir í honum og byggðir á honum, staðfastir í trúnni, eins og yður hefur verið kennt, og auðugir að þakklátsemi.
8 Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.
9 Því að í honum býr öll fylling guðdómsins líkamlega.
10 Og í honum, sem er höfuð hvers konar tignar og valds, hafið þér öðlast hlutdeild í þessari fyllingu.
11 Í honum eruð þér einnig umskornir þeirri umskurn, sem ekki er með höndum gjörð, heldur með umskurn Krists, við að afklæðast hinum synduga líkama,
12 þegar þér voruð greftraðir með Kristi í skírninni. Í skírninni voruð þér einnig með honum uppvaktir fyrir trúna á mátt Guðs, er vakti hann upp frá dauðum.
13 Þér voruð dauðir sökum afbrota yðar og umskurnarleysis. En Guð lífgaði yður ásamt honum, þegar hann fyrirgaf oss öll afbrotin.
14 Hann afmáði skuldabréfið, sem þjakaði oss með ákvæðum sínum. Hann tók það burt með því að negla það á krossinn.
15 Hann fletti vopnum tignirnar og völdin, leiddi þau opinberlega fram til háðungar og hrósaði sigri yfir þeim í Kristi.
16 Enginn skyldi því dæma yður fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga.
17 Þetta er aðeins skuggi þess, sem koma átti, en líkaminn er Krists.
18 Látið þá ekki taka af yður hnossið, sem þykjast af auðmýkt sinni og engladýrkun og státa af sýnum sínum. Þeir hrokast upp af engu í hyggju holds síns
19 og halda sér ekki við hann, sem er höfuðið og styrkir allan líkamann og samantengir taugum og böndum, svo að hann þróast guðlegum þroska.
20 Ef þér eruð dánir með Kristi undan valdi heimsvættanna, hvers vegna hagið þér yður þá eins og þér lifðuð í heiminum og látið leggja fyrir yður boð eins og þessi:
21 "Snertu ekki, bragðaðu ekki, taktu ekki á"? _
22 Allt þetta er þó ætlað til að eyðast við notkunina! _ mannaboðorð og mannalærdómar!
23 Þetta hefur að sönnu orð á sér um speki, slík sjálfvalin dýrkun og auðmýking og harðneskja við líkamann, en hefur ekkert gildi, heldur er til þess eins að fullnægja holdinu.
by Icelandic Bible Society