Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 2

Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:

"Sérhver Ísraelsmanna skal tjalda hjá merki sínu, við einkenni ættar sinnar. Skulu þeir tjalda gegnt samfundatjaldinu hringinn í kring.

Að austanverðu, gegnt upprás sólar, skulu þeir tjalda undir merki Júda herbúða, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður Júda sona sé Nakson Ammínadabsson.

Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 74.600.

Næst honum skal tjalda ættkvísl Íssakars, og höfuðsmaður Íssakars sona sé Netanel Súarsson.

Hersveit hans og taldir liðsmenn hans voru 54.400.

Enn fremur ættkvísl Sebúlons, og höfuðsmaður Sebúlons sona sé Elíab Helónsson.

Hersveit hans og taldir liðsmenn hans voru 57.400.

Allir taldir liðsmenn í Júda herbúðum voru 186.400, eftir hersveitum þeirra. Skulu þeir taka sig upp fyrstir.

10 Að sunnanverðu skal merki Rúbens herbúða vera, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður Rúbens sona sé Elísúr Sedeúrsson.

11 Hersveit hans og taldir liðsmenn hans voru 46.500.

12 Næst honum skal tjalda ættkvísl Símeons, og höfuðsmaður Símeons sona sé Selúmíel Súrísaddaíson.

13 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 59.300.

14 Enn fremur ættkvísl Gaðs, og höfuðsmaður Gaðs sona sé Eljasaf Degúelsson.

15 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 45.650.

16 Allir taldir liðsmenn í Rúbens herbúðum voru 151.450, eftir hersveitum þeirra. Skulu þeir taka sig upp næstir hinum fyrstu.

17 Þá skal samfundatjaldið taka sig upp ásamt búðum levítanna, í miðjum hernum. Eins og þeir tjalda, svo skulu þeir taka sig upp, hver á sínum stað, eftir merkjum sínum.

18 Að vestanverðu skal merki Efraíms herbúða vera, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður yfir Efraíms sonum sé Elísama Ammíhúdsson.

19 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 40.500.

20 Næst honum ættkvísl Manasse, og höfuðsmaður yfir Manasse sonum sé Gamlíel Pedasúrsson.

21 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 32.200.

22 Enn fremur ættkvísl Benjamíns, og höfuðsmaður yfir Benjamíns sonum sé Abídan Gídeóníson.

23 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 35.400.

24 Allir taldir liðsmenn í Efraíms herbúðum voru 108.100, eftir hersveitum þeirra. Og þeir skulu hefja ferð sína hinir þriðju.

25 Að norðanverðu skal merki Dans herbúða vera, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður yfir Dans sonum sé Akíeser Ammísaddaíson.

26 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 62.700.

27 Næst honum tjaldi ættkvísl Assers, og höfuðsmaður yfir Assers sonum sé Pagíel Ókransson.

28 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 41.500.

29 Enn fremur ættkvísl Naftalí, og höfuðsmaður yfir Naftalí sonum sé Akíra Enansson.

30 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 53.400.

31 Allir taldir liðsmenn í Dans herbúðum voru 157.600. Skulu þeir hefja ferð sína síðastir, eftir merkjum sínum."

32 Þessir eru taldir liðsmenn Ísraelsmanna eftir ættum þeirra. Allir taldir liðsmenn í herbúðunum eftir hersveitum þeirra voru 603.550.

33 En levítarnir voru ekki taldir meðal Ísraelsmanna, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

34 Og Ísraelsmenn gjörðu svo. Að öllu svo sem Drottinn hafði boðið Móse tjölduðu þeir eftir merkjum sínum og hófu ferð, hver eftir kynkvísl sinni, hjá sinni ætt.

Sálmarnir 36

36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.

Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.

Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.

Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.

Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.

Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.

Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.

Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.

Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.

10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.

11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.

12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.

13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.

Prédikarinn 12

12 Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: "Mér líka þau ekki" _

áður en sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar, og áður en skýin koma aftur eftir regnið _

þá er þeir skjálfa, sem hússins geyma, og sterku mennirnir verða bognir og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að, af því að þær eru orðnar fáar, og dimmt er orðið hjá þeim, sem líta út um gluggana,

og dyrunum út að götunni er lokað, og hávaðinn í kvörninni minnkar, og menn fara á fætur við fuglskvak, en allir söngvarnir verða lágværir,

þá menn eru hræddir við hæðir og sjá skelfingar á veginum, og þegar möndlutréð stendur í blóma og engispretturnar dragast áfram og kaper-ber hrífa ekki lengur, því að maðurinn fer burt til síns eilífðar-húss og grátendurnir ganga um strætið _

áður en silfurþráðurinn slitnar og gullskálin brotnar og skjólan mölvast við lindina og hjólið brotnar við brunninn

og moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs, sem gaf hann.

Aumasti hégómi, segir prédikarinn, allt er hégómi!

En auk þess sem prédikarinn var spekingur, miðlaði hann og mönnum þekkingu og rannsakaði og kynnti sér og samdi mörg spakmæli.

10 Prédikarinn leitaðist við að finna fögur orð, og það sem hann hefir skrifað í einlægni, eru sannleiksorð.

11 Orð spekinganna eru eins og broddar og kjarnyrðin eins og fastreknir naglar _ þau eru gefin af einum hirði.

12 Og enn fremur, sonur minn, þýðstu viðvaranir. Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir, og mikil bókiðn þreytir líkamann.

13 Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.

Bréf Páls til Fílemons

Páll, bandingi Krists Jesú, og Tímóteus bróðir vor, heilsa elskuðum vini okkar og samverkamanni Fílemon,

svo og Appíu systur okkar og Arkippusi samherja okkar og söfnuðinum, sem kemur saman í húsi þínu.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ég þakka Guði mínum ávallt, er ég minnist þín í bænum mínum.

Því að ég heyri um trúna, sem þú hefur á Drottni Jesú, og um kærleika þinn til hinna heilögu.

Ég bið þess, að trú þín, sem þú átt með oss, verði mikilvirk í þekkingunni á öllu því góða, sem tilheyrir Kristi.

Ég hlaut mikla gleði og huggun af kærleika þínum, þar eð þú, bróðir, hefur endurnært hjörtu hinna heilögu.

Því er það, að þótt ég gæti með fullri djörfung í Kristi boðið þér að gera það, sem skylt er,

þá fer ég þó heldur bónarveg vegna kærleika þíns, þar sem ég er eins og ég er, hann Páll gamli, og nú líka bandingi Krists Jesú.

10 Ég bið þig þá fyrir barnið mitt, sem ég hef getið í fjötrum mínum, hann Onesímus.

11 Hann var þér áður óþarfur, en er nú þarfur bæði þér og mér.

12 Ég sendi hann til þín aftur, og er hann þó sem hjartað í brjósti mér.

13 Feginn vildi ég hafa haldið honum hjá mér, til þess að hann í þinn stað veitti mér þjónustu í fjötrum mínum vegna fagnaðarerindisins.

14 En án þíns samþykkis vildi ég ekkert gjöra, til þess að velgjörð þín skyldi ekki koma eins og af nauðung, heldur af fúsum vilja.

15 Vísast hefur hann þess vegna orðið viðskila við þig um stundarsakir, að þú síðan skyldir fá að halda honum eilíflega,

16 ekki lengur eins og þræli, heldur þræli fremri, eins og elskuðum bróður. Mér er hann kær bróðir. Hve miklu fremur þó þér, bæði sem maður og kristinn.

17 Ef þú því telur mig félaga þinn, þá tak þú á móti honum, eins og væri það ég sjálfur.

18 En hafi hann eitthvað gjört á hluta þinn, eða sé hann í skuld við þig, þá fær þú það mér til reiknings.

19 Ég, Páll, rita með eigin hendi: Ég mun gjalda. Að ég ekki nefni við þig, að þú ert jafnvel í skuld við mig um sjálfan þig.

20 Já, bróðir, unn mér gagns af þér vegna Drottins, endurnær hjarta mitt sakir Krists.

21 Í fullu trausti til hlýðni þinnar rita ég til þín og veit, að þú munt gjöra jafnvel fram yfir það, sem ég mælist til.

22 En hafðu líka til gestaherbergi handa mér, því að ég vona, að ég vegna bæna yðar muni verða gefinn yður.

23 Epafras, sambandingi minn vegna Krists Jesú, biður að heilsa þér. Sömuleiðis

24 Markús, Aristarkus, Demas og Lúkas, samverkamenn mínir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society