Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 8

Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tala þú við Aron og seg við hann: Þá er þú setur upp lampana, skulu lamparnir sjö varpa ljósi sínu fram undan ljósastikunni."

Og Aron gjörði svo. Hann setti lampana upp framan á ljósastikuna, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

Þetta var smíðið á ljósastikunni: Hún var gjör af gulli með drifnu smíði, bæði stétt hennar og blóm var drifið smíði. Hafði hann gjört ljósastikuna eftir fyrirmynd þeirri, er Drottinn hafði sýnt Móse.

Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Skil þú levítana úr Ísraelsmönnum og hreinsa þá.

Og þetta skalt þú við þá gjöra til þess að hreinsa þá: Stökk þú á þá syndhreinsunarvatni, og þeir skulu láta rakhníf ganga yfir allan líkama sinn og þvo klæði sín og hreinsa sig.

Og þeir skulu taka ungneyti og matfórn, er því fylgir, fínt mjöl olíublandað, og annað ungneyti skalt þú taka í syndafórn.

Síðan skalt þú leiða levítana fram fyrir samfundatjaldið og safna saman öllum söfnuði Ísraelsmanna.

10 Og þú skalt leiða levítana fram fyrir Drottin, og Ísraelsmenn skulu leggja hendur sínar yfir þá.

11 Og Aron skal helga levítana sem fórn frammi fyrir Drottni af hendi Ísraelsmanna, og skulu þeir takast á hendur að gegna þjónustu Drottins.

12 En levítarnir skulu leggja hendur sínar á höfuð nautanna. Öðru skal fórna í syndafórn og hinu í brennifórn Drottni til handa til þess að friðþægja fyrir levítana.

13 Og þú skalt leiða þá fram fyrir Aron og fram fyrir sonu hans og helga þá sem fórn Drottni til handa.

14 Og þú skalt greina þá frá Ísraelsmönnum, svo að þeir heyri mér.

15 Því næst skulu levítarnir ganga inn til þess að gegna þjónustu við samfundatjaldið, og þú skalt hreinsa þá og helga þá sem fórn,

16 því að þeir eru gefnir mér til fullkominnar eignar af Ísraelsmönnum. Í stað alls þess er opnar móðurlíf, í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna hefi ég tekið þá mér til eignar,

17 því að ég á alla frumburði meðal Ísraelsmanna, bæði menn og skepnur. Á þeim degi, er ég laust alla frumburði í Egyptalandi, helgaði ég mér þá.

18 Og ég tók levítana í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna.

19 Og ég gaf þá Aroni og sonum hans til eignar af Ísraelsmönnum, til þess að þeir gegni þjónustu fyrir Ísraelsmenn í samfundatjaldinu og til þess að þeir friðþægi fyrir Ísraelsmenn, svo að eigi komi plága yfir Ísraelsmenn, þá er Ísraelsmenn koma nærri helgidóminum."

20 Móse og Aron og allur söfnuður Ísraelsmanna gjörði svo við levítana. Gjörðu Ísraelsmenn að öllu leyti svo við þá sem Drottinn hafði boðið Móse um þá.

21 Levítarnir syndhreinsuðu sig og þvoðu klæði sín, og Aron helgaði þá sem fórn frammi fyrir Drottni, og Aron friðþægði fyrir þá til þess að hreinsa þá.

22 Gengu levítarnir því næst inn til þess að gegna þjónustu sinni í samfundatjaldinu fyrir augliti Arons og fyrir augliti sona hans. Gjörðu þeir svo við levítana sem Drottinn hafði boðið Móse um þá.

23 Drottinn talaði við Móse og sagði:

24 "Þetta gildir um levítana: Frá því þeir eru tuttugu og fimm ára og þaðan af eldri skulu þeir koma til þess að gegna herþjónustu með þjónustu í samfundatjaldinu.

25 En frá því þeir eru fimmtugir skulu þeir láta af þjónustunni og eigi þjóna framar.

26 Þeir mega veita bræðrum sínum aðstoð í samfundatjaldinu og annast það, sem annast ber, en þjónustu skulu þeir eigi gegna. Þannig skalt þú fara með levítana, að því er kemur til sýslunar þeirra."

Sálmarnir 44

44 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga.

Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá.

Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.

Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.

Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.

Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur,

heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar.

Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]

10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum.

11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang.

12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna.

13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann.

14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.

16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt,

17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.

18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn.

19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum,

20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu.

21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða,

22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans?

23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé.

24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!

25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun?

26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.

27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.

Ljóðaljóðin 6

Hvert er unnusti þinn genginn, þú hin fegursta meðal kvenna? Hvert hefir unnusti þinn farið, að vér megum leita hans með þér?

Unnusti minn gekk ofan í garð sinn, að balsambeðunum, til þess að skemmta sér í görðunum og til að tína liljur.

Ég heyri unnusta mínum, og unnusti minn heyrir mér, hann sem skemmtir sér meðal liljanna.

Fögur ertu, vina mín, eins og Tirsa, yndisleg eins og Jerúsalem, ægileg sem herflokkar.

Snú frá mér augum þínum, því að þau hræða mig. Hár þitt er eins og geitahjörð, sem rennur niður Gíleaðfjall.

Tennur þínar eru eins og hópur af ám, sem koma af sundi, sem allar eru tvílembdar og engin lamblaus meðal þeirra.

Vangi þinn er eins og kinn á granatepli út um skýluraufina.

Sextíu eru drottningarnar og áttatíu hjákonurnar og óteljandi ungfrúr.

En ein er dúfan mín, ljúfan mín, einkabarn móður sinnar, augasteinn þeirrar er ól hana. Meyjarnar sáu hana og sögðu hana sæla, og drottningar og hjákonur víðfrægðu hana.

10 Hver er sú sem horfir niður eins og morgunroðinn, fögur sem máninn, hrein sem sólin, ægileg sem herflokkar?

11 Ég hafði gengið ofan í hnotgarðinn til þess að skoða gróðurinn í dalnum, til þess að skoða, hvort vínviðurinn væri farinn að bruma, hvort granateplatrén væru farin að blómgast.

12 Áður en ég vissi af, hafði löngun mín leitt mig að vögnum manna höfðingja nokkurs.

13 Snú þér við, snú þér við, Súlamít, snú þér við, snú þér við, svo að vér fáum séð þig! Hvað viljið þér sjá á Súlamít? Er það dansinn í tvíflokknum?

Bréfið til Hebrea 6

Þess vegna skulum vér sleppa byrjunar-kenningunum um Krist og sækja fram til fullkomleikans.

Vér förum ekki að byrja aftur á undirstöðuatriðum eins og afturhvarfi frá dauðum verkum og trú á Guð, kenningunni um skírnir og handayfirlagningar, upprisu dauðra og eilífan dóm.

Og þetta munum vér gjöra, ef Guð lofar.

Ef menn eru eitt sinn orðnir upplýstir og hafa smakkað hina himnesku gjöf, fengið hlutdeild í heilögum anda

og reynt Guðs góða orð og krafta komandi aldar,

en hafa síðan fallið frá, þá er ógerlegt að endurnýja þá til afturhvarfs. Þeir eru að krossfesta Guðs son að nýju og smána hann.

Jörð sú, er drukkið hefur í sig regnið, sem á hana fellur hvað eftir annað, og ber gróður til gagns fyrir þá, sem yrkja hana, fær blessun frá Guði.

En beri hún þyrna og þistla, er hún ónýt. Yfir henni vofir bölvun og hennar bíður að lokum að verða brennd.

En hvað yður snertir, þér elskaðir, þá erum vér sannfærðir um að yður er betur farið og þér nær hjálpræðinu, þó að vér mælum svo.

10 Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.

11 Vér óskum, að sérhver yðar sýni sömu ástundan allt til enda, þar til von yðar fullkomnast.

12 Gjörist ekki sljóir. Breytið heldur eftir þeim, sem vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin.

13 Þegar Guð gaf Abraham fyrirheitið, þá "sór hann við sjálfan sig," þar sem hann hafði við engan æðri að sverja, og sagði:

14 "Sannlega mun ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt."

15 Og Abraham öðlaðist það, sem Guð hafði heitið honum er hann hafði beðið þess með stöðuglyndi.

16 Menn sverja eið við þann, sem æðri er, eiðurinn er þeim staðfesting og bindur enda á öll andmæli.

17 Með því nú að Guð vildi sýna erfingjum fyrirheitsins enn skýrar, hve ráð sitt væri óraskanlegt, þá ábyrgðist hann heit sitt með eiði.

18 Í þessum tveim óraskanlegu athöfnum Guðs, þar sem óhugsandi er að hann fari með lygi, eigum vér sterka uppörvun, vér sem höfum leitað hælis í þeirri sælu von, sem vér eigum.

19 Hún er eins og akkeri sálarinnar, traust og öruggt, og nær alla leið inn fyrir fortjaldið,

20 þangað sem Jesús gekk inn, fyrirrennari vor vegna, þegar hann varð æðsti prestur að eilífu að hætti Melkísedeks.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society