M’Cheyne Bible Reading Plan
17 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Tala þú við Ísraelsmenn og fá hjá þeim tólf stafi, einn staf hjá ættkvísl hverri, hjá öllum höfuðsmönnum ættkvísla þeirra. Rita þú nafn hvers eins á staf hans.
3 En nafn Arons skalt þú rita á staf Leví, því að einn stafur skal vera fyrir höfuð ættkvíslar þeirra.
4 Og þú skalt leggja þá niður í samfundatjaldinu, fyrir framan sáttmálið, þar sem ég á samfundi við yður.
5 Og það skal verða, að stafur þess manns, sem ég kýs, skal laufgast, að ég megi hefta kurr Ísraelsmanna, er þeir mögla í gegn yður."
6 Móse talaði við Ísraelsmenn, og allir höfuðsmenn þeirra fengu honum stafi, hver höfðingi einn staf eftir ættkvíslum þeirra, tólf stafi alls, og var stafur Arons meðal stafa þeirra.
7 Og Móse lagði stafina fram fyrir Drottin í sáttmálstjaldinu.
8 Er Móse gekk inn í sáttmálstjaldið daginn eftir, sjá, þá var stafur Arons, stafur Levíættar, laufgaður. Voru blöð sprottin á honum, blóm sprungin út og bar hann fullvaxnar möndlur.
9 Bar Móse nú alla stafina út frá augliti Drottins til allra Ísraelsmanna, svo að þeir sæju þá, og tóku þeir hver sinn staf.
10 Þá sagði Drottinn við Móse: "Ber staf Arons inn aftur fram fyrir sáttmálið, að hann sé þar geymdur til tákns fyrir þá, sem óhlýðnir eru, og kurr þeirra gegn mér taki enda, ella munu þeir deyja."
11 Og Móse gjörði svo, hann gjörði svo sem Drottinn bauð honum.
12 En Ísraelsmenn sögðu við Móse: "Sjá, vér förumst, það er úti um oss, það er úti um oss alla!
13 Hver sem kemur nærri, hver sem kemur nærri búð Drottins, týnir lífi. Munum vér þá allir farast?"
18 Drottinn sagði við Aron: "Þú og synir þínir og ættleggur feðra þinna með þér skulu sæta hegningu fyrir það, sem brotið er á móti helgidóminum, og þú og synir þínir með þér skuluð sæta hegningu fyrir það, sem yður verður á í prestsembætti yðar.
2 Þú skalt taka með þér bræður þína, kynkvísl Leví, ættkvísl föður þíns. Þeir skulu vera þér við hönd og þjóna þér, þegar þú og synir þínir með þér eruð frammi fyrir sáttmálstjaldinu.
3 Og þeir skulu gegna því, er við þarf við þína þjónustu og við þjónustu alls tjaldsins. Þó skulu þeir eigi koma nærri hinum helgu áhöldum né altarinu, ella munu þeir deyja, bæði þeir og þér.
4 Og þeir skulu vera þér við hönd og annast það, sem annast þarf við samfundatjaldið, alla þjónustu við tjaldið, en eigi skal óvígður maður koma til yðar.
5 En þér skuluð annast það, sem annast þarf í helgidóminum og við altarið, svo að eigi komi reiði framar yfir Ísraelsmenn.
6 Og sjá, ég hefi tekið bræður yðar, levítana, úr Ísraelsmönnum sem gjöf yður til handa, sem þá, er gefnir hafa verið Drottni, til þess að gegna þjónustu við samfundatjaldið.
7 En þú og synir þínir með þér skuluð annast prestsembætti yðar í öllum þeim hlutum, er varða altarið og þjónustuna fyrir innan fortjaldið, þar skuluð þér gegna þjónustu. Ég fel yður prestdóminn og veiti yður þá þjónustu að gjöf. Komi nokkur annar þar nærri, skal hann lífi týna."
8 Drottinn sagði við Aron: "Sjá, ég gef þér það, sem varðveitast á af fórnargjöfum mínum. Af öllum helgigjöfum Ísraelsmanna gef ég þér og sonum þínum þær í þeirra hlut. Er það ævinleg skyldugreiðsla.
9 Þetta skal heyra þér af hinum háhelgu gjöfum, að því fráteknu, sem brenna skal: Allar fórnargjafir þeirra, bæði matfórnir, syndafórnir og sektarfórnir, er þeir færa mér í bætur. Eru þær háhelgar, og skulu heyra þér og sonum þínum.
10 Þú skalt eta þær á háhelgum stað. Allt karlkyn skal eta þær. Skulu þær vera þér heilagar.
11 Og þetta skal heyra þér sem fórnargjöf af öðrum gjöfum þeirra, af öllum veififórnum Ísraelsmanna: Ég gef þér þær, og sonum þínum og dætrum með þér. Er það ævinleg skyldugreiðsla. Allir hreinir menn í húsi þínu skulu eta þær.
12 Allt hið besta af olíunni og allt hið besta af aldinleginum og korninu, frumgróðann af því _ það er þeir gefa Drottni _ það hefi ég gefið þér.
13 Frumgróðinn af öllu því, er vex í landi þeirra og þeir færa Drottni, skal heyra þér. Allir hreinir menn í húsi þínu skulu eta hann.
14 Sérhver hlutur bannfærður í Ísrael skal heyra þér.
15 Allt það sem opnar móðurlíf, af öllu holdi, er menn færa Drottni, hvort heldur er menn eða skepnur, skal heyra þér. Þó skalt þú leysa láta frumburði manna, og frumburði óhreinna dýra skalt þú og leysa láta.
16 Og að því er snertir lausnargjald þeirra, þá skalt þú láta leysa þá, úr því þeir eru mánaðargamlir, eftir mati þínu, með fimm siklum, eftir helgidómssikli, tuttugu gerur í sikli.
17 En frumburði af nautum, sauðum eða geitum skalt þú ekki leysa láta. Þeir eru heilagir. Blóði þeirra skalt þú stökkva á altarið, og mörinn úr þeim skalt þú brenna sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.
18 En kjötið af þeim skal heyra þér. Það skal heyra þér, eins og veifibringan og hægra lærið.
19 Allar fórnargjafir af helgigjöfunum, sem Ísraelsmenn færa Drottni, hefi ég gefið þér og sonum þínum og dætrum með þér. Er það ævinleg skyldugreiðsla. Það er ævinlegur sáttmáli, helgaður með salti, fyrir augliti Drottins fyrir þig og niðja þína ásamt þér."
20 Drottinn sagði við Aron: "Þú skalt ekkert óðal eignast í landi þeirra og ekki eiga hlutskipti meðal þeirra. Ég er hlutskipti þitt og óðal þitt meðal Ísraelsmanna.
21 Og sjá, ég gef levítunum alla tíund í Ísrael til eignar fyrir þjónustuna, er þeir inna af hendi, þjónustuna við samfundatjaldið.
22 Og Ísraelsmenn skulu eigi framar koma nærri samfundatjaldinu, svo að þeir baki sér ekki synd og deyi.
23 Heldur skulu levítarnir gegna þjónustu við samfundatjaldið, og skulu sæta hegningu fyrir það, sem þeim verður á. Skal það vera ævarandi lögmál hjá yður frá kyni til kyns, en þeir skulu ekki eiga óðul meðal Ísraelsmanna.
24 Því að tíund Ísraelsmanna, er þeir færa Drottni að fórnargjöf, hefi ég gefið levítunum til eignar, þess vegna hefi ég sagt þeim, að þeir skuli ekki eiga óðul meðal Ísraelsmanna."
25 Drottinn talaði við Móse og sagði:
26 "Þú skalt tala við levítana og segja við þá: Þegar þér meðtakið tíundina frá Ísraelsmönnum, er ég hefi gefið yður til eignar og þeir skulu greiða yður, þá skuluð þér færa Drottni fórnargjöf af henni, tíund af tíundinni.
27 Og þessi fórnargjöf yðar skal reiknast yður sem væri það korn af láfanum eða gnótt úr vínþrönginni.
28 Þannig skuluð og þér færa Drottni fórnargjöf af allri þeirri tíund, er þér meðtakið frá Ísraelsmönnum, og af henni skuluð þér fá Aroni presti fórnargjöf Drottins.
29 Af öllu því, sem yður gefst, skuluð þér færa Drottni fórnargjöf, af öllu hinu besta af því, helgigjöfina, sem af því skal fram bera.
30 Og þú skalt segja við þá: Þegar þér hafið fram borið hið besta af því, þá skal hitt reiknast levítunum sem afurðir úr láfanum eða afurðir úr vínþrönginni.
31 Þér megið eta það hvar sem þér viljið, bæði þér og skyldulið yðar, því að það eru laun yðar fyrir þjónustu yðar við samfundatjaldið.
32 Og þér munuð ekki baka yður synd vegna þess, ef þér fram berið hið besta af því, og þá munuð þér eigi vanhelga helgigjafir Ísraelsmanna og eigi deyja."
55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.
2 Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.
3 Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn
4 sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.
5 Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,
6 ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,
7 svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,
8 já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]
9 Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."
10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.
11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.
12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.
13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,
14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,
15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.
16 Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.
17 En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér.
18 Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína.
19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir.
20 Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð.
21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt.
22 Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.
23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.
24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.
7 Svo bar til á dögum Akasar, konungs í Júda, Jótamssonar, Ússíasonar, að Resín Sýrlandskonungur og Peka Remaljason, konungur í Ísrael, fóru upp til Jerúsalem til að herja á hana, en fengu ekki unnið hana.
2 Þá kom húsi Davíðs þessi fregn: Sýrland hefir gjört bandalag við Efraím. Skalf þá hjarta konungs og hjarta þjóðar hans, eins og skógartré skjálfa fyrir vindi.
3 Þá sagði Drottinn við Jesaja: "Gakk þú og Sear Jasúb, sonur þinn, til móts við Akas, að enda vatnstokksins úr efri tjörninni, við veginn út á bleikivöllinn,
4 og seg við hann: Gæt þín og haf kyrrt um þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast fyrir þessum tveimur rjúkandi brandabrotum, fyrir brennandi reiði þeirra Resíns, Sýrlendinga og Remaljasonar.
5 Sökum þess að Sýrland, Efraím og Remaljasonur hafa haft ill ráð með höndum gegn þér og sagt:
6 ,Vér skulum fara herferð á hendur Júda og skjóta mönnum skelk í bringu, taka landið herskildi og setja Tabelsson þar til konungs,` _
7 sökum þess segir hinn alvaldi Drottinn: Það skal eigi takast og það skal eigi verða.
8 Damaskus er höfuð Sýrlands og Resín höfuð Damaskus. Og áður en liðin eru sextíu og fimm ár skal Efraím gjöreytt verða og eigi verða þjóð upp frá því. _
9 Og Samaría er höfuð Efraíms og Remaljasonur höfuð Samaríu. Ef þér trúið eigi, munuð þér eigi fá staðist."
10 Og enn talaði Drottinn við Akas og sagði:
11 "Bið þér tákns af Drottni, Guði þínum, hvort sem þú vilt heldur beiðast þess neðan úr undirheimum eða ofan að frá hæðum."
12 En Akas sagði: "Ég vil einskis biðja og eigi freista Drottins."
13 Þá sagði Jesaja: "Heyrið, þér niðjar Davíðs, nægir yður það eigi að þreyta menn, úr því að þér þreytið einnig Guð minn?
14 Fyrir því mun Drottinn gefa yður tákn sjálfur: Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.
15 Við súrmjólk og hunang skal hann alast, þá er hann fer að hafa vit á að hafna hinu illa og velja hið góða.
16 Áður en sveinninn hefir vit á að hafna hinu illa og velja hið góða, skal mannauðn verða í landi þeirra tveggja konunga, sem nú skelfa þig.
17 Drottinn mun láta yfir þig og yfir þjóð þína og yfir hús föður þíns þá daga koma, að ekki hafa slíkir yfir liðið síðan Efraím skildist frá Júda _ Assýríukonung."
18 Á þeim degi mun Drottinn blístra á flugurnar, sem eru við mynnið á Níl-kvíslunum á Egyptalandi, og á býflugurnar, sem eru í Assýríu,
19 og þær munu allar koma og setjast í dalverpin og bergskorurnar, í alla þyrnirunna og í öll vatnsból.
20 Á þeim degi mun Drottinn með rakhnífi, leigðum fyrir handan fljót _ með Assýríukonungi _ raka höfuðið og kviðhárin, og skeggið mun hann einnig nema burt.
21 Á þeim degi mun maður hafa kvígu og tvær ær,
22 og vegna þess, hve vel þær mjólka, mun hann hafa súrmjólk til matar. Á súrmjólk og hunangi skal hver maður lifa, sem eftir verður í landinu.
23 Og á þeim degi mun svo fara, að alls staðar þar sem áður stóðu þúsund vínviðir, þúsund sikla virði, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar.
24 Menn skulu ekki fara þar um, nema þeir hafi með sér örvar og boga, því að landið skal ekki annað vera en þyrnar og þistlar.
25 Og öll fellin, sem nú eru stungin upp með skóflu _ þangað skal enginn maður koma af hræðslu við þyrna og þistla. Nautpeningi verður hleypt þangað og sauðfénaður látinn traðka þau niður.
1 Jakob, þjónn Guðs og Drottins Jesú Krists, heilsar þeim tólf kynkvíslum í dreifingunni.
2 Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir.
3 Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði,
4 en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.
5 Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.
6 En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.
7 Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla,
8 að hann fái nokkuð hjá Drottni.
9 Lágt settur bróðir hrósi sér af upphefð sinni,
10 en auðugur af lægingu sinni, því hann mun líða undir lok eins og blóm á engi.
11 Sólin kemur upp með steikjandi hita og brennir grasið, og blóm þess dettur af og fegurð þess verður að engu. Þannig mun og hinn auðugi maður visna upp á vegum sínum.
12 Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins, sem Guð hefur heitið þeim er elska hann.
13 Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: "Guð freistar mín." Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.
14 Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.
15 Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.
16 Villist ekki, bræður mínir elskaðir!
17 Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.
18 Eftir ráðsályktun sinni fæddi hann oss með orði sannleikans, til þess að vér skyldum vera frumgróði sköpunar hans.
19 Vitið, bræður mínir elskaðir: Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.
20 Því að reiði manns ávinnur ekki það, sem rétt er fyrir Guði.
21 Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar.
22 Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður.
23 Því að ef einhver er heyrandi orðsins og ekki gjörandi, þá er hann líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli.
24 Hann skoðar sjálfan sig, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var.
25 En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.
26 Sá sem þykist vera guðrækinn, en hefur ekki taumhald á tungu sinni, blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt.
27 Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.
by Icelandic Bible Society