Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 4

Heyr þú nú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég kenni yður, til þess að þér haldið þau, svo að þér megið lifa og komast inn í það land, sem Drottinn, Guð feðra yðar, gefur yður, og fá það til eignar.

Þér skuluð engu auka við þau boðorð, sem ég legg fyrir yður, né heldur draga nokkuð frá, svo að þér varðveitið skipanir Drottins Guðs yðar, sem ég legg fyrir yður.

Þér hafið séð með eigin augum, hvað Drottinn gjörði sakir Baal Peór, því að öllum þeim mönnum, sem fylgdu Baal Peór, eyddi Drottinn Guð þinn úr samfélagi yðar.

En þér, sem hélduð yður fast við Drottin Guð yðar, lifið allir fram á þennan dag.

Sjá, ég hefi kennt yður lög og ákvæði, eins og Drottinn Guð minn lagði fyrir mig, til þess að þér breytið eftir þeim í því landi, sem þér haldið nú inn í til þess að taka það til eignar.

Varðveitið þau því og haldið þau, því að það mun koma á yður orði hjá öðrum þjóðum fyrir visku og skynsemi. Þegar þær heyra öll þessi lög, munu þær segja: "Það er vissulega viturt og skynsamt fólk, þessi mikla þjóð."

Því að hvaða stórþjóð er til, sem hafi guð, er henni sé eins nálægur eins og Drottinn Guð vor er oss, hvenær sem vér áköllum hann?

Og hver er sú stórþjóð, er hafi svo réttlát lög og ákvæði, eins og allt þetta lögmál er, sem ég legg fyrir yður í dag?

En vara þig og gæt vandlega sálar þinnar, að eigi gleymir þú þeim hlutum, sem þú hefir séð með eigin augum, og að það ekki líði þér úr minni alla ævidaga þína, og þú skalt gjöra þá kunna börnum þínum og barnabörnum.

10 Gleym þú eigi deginum, þegar þú stóðst frammi fyrir Drottni Guði þínum hjá Hóreb, og Drottinn sagði við mig: "Safna þú lýðnum saman fyrir mig. Ég ætla að láta þá heyra orð mín, svo að þeir læri að óttast mig alla þá daga, sem þeir lifa á jörðinni, og kenni það einnig börnum sínum."

11 Þér komuð þá fram og námuð staðar undir fjallinu, en fjallið logaði allt í eldi upp í háan himin. Fylgdi því myrkur, ský og sorti.

12 Og Drottinn talaði við yður út úr eldinum. Hljóm orðanna heyrðuð þér, en mynd sáuð þér enga, þér heyrðuð aðeins hljóminn.

13 Þá birti hann yður sáttmála sinn, sem hann bauð yður að halda, tíu boðorðin, og hann reit þau á tvær steintöflur.

14 Þá bauð Drottinn mér að kenna yður lög og ákvæði, svo að þér gætuð breytt eftir þeim í því landi, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar.

15 Gætið yðar því vandlega, líf yðar liggur við _ því að þér sáuð enga mynd á þeim degi, þegar Drottinn talaði við yður hjá Hóreb út úr eldinum, _

16 að þér ekki mannspillið yður á því að búa yður til skurðgoð í mynd einhvers líkneskis, hvort heldur er í líki karls eða konu,

17 í líki einhvers ferfætlings, sem til er á jörðinni, í líki einhvers fleygs fugls, er flýgur í loftinu,

18 í líki einhvers dýrs, sem skríður á jörðinni, eða í líki einhvers fisks, sem til er í vötnunum undir jörðinni,

19 og að þú eigi, þegar þú lyftir augum þínum til himins og sér sólina, tunglið og stjörnurnar, allan himinsins her, látir tælast til þess að falla fram fyrir þeim og dýrka þau. Því að Drottinn Guð þinn hefir skipt þeim meðal allra þjóða undir himninum.

20 Yður hefir Drottinn tekið að sér og leitt yður út úr járnbræðsluofninum, út úr Egyptalandi, svo að þér skylduð verða eignarþjóð hans, sem og hefir verið til þessa.

21 Drottinn reiddist mér yðar vegna, svo að hann sór, að ég skyldi ekki komast yfir Jórdan og ekki komast inn í góða landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar,

22 heldur hlýt ég að deyja í þessu landi og fæ ekki að komast yfir Jórdan. En þér munuð komast yfir um og fá þetta góða land til eignar.

23 Gætið yðar, að þér gleymið ekki sáttmálanum, er Drottinn Guð yðar hefir við yður gjört, og búið yður ekki til skurðgoð í mynd einhvers þess, er Drottinn Guð þinn hefir bannað þér.

24 Því að Drottinn Guð þinn er eyðandi eldur, vandlátur Guð.

25 Þegar þér hafið getið börn og barnabörn, og hafið ílengst í landinu, _ ef þér þá mannspillið yður á því að búa til skurðgoð í einhverri mynd og gjörið það, sem illt er í augum Drottins Guðs yðar, svo að þér egnið hann til reiði,

26 þá kveð ég í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að þá munuð þér brátt eyðast úr því landi, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að fá það til eignar. Þér munuð þá eigi lifa þar mörg árin, heldur verða gjöreyddir.

27 Og Drottinn mun þá dreifa yður meðal þjóðanna, svo að af yður skal einungis eftir verða lítill hópur meðal heiðingja þeirra, er Drottinn leiðir yður burt til.

28 Þar munuð þér þjóna þeim guðum, sem eru handaverk manna, stokkar og steinar, sem eigi sjá og eigi heyra og eigi eta og eigi finna lykt.

29 Þar munt þú leita Drottins Guðs þíns, og þú munt finna hann, ef þú leitar hans af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.

30 Þegar þú ert í nauðum staddur og allt þetta kemur yfir þig, þá munt þú, á komandi tímum, snúa þér til Drottins Guðs þíns og hlýða hans röddu.

31 Því að Drottinn Guð þinn er miskunnsamur Guð. Hann mun eigi yfirgefa þig né afmá þig, og hann mun eigi gleyma sáttmálanum, er hann sór feðrum þínum.

32 Spyr þig fyrir um fyrri tíma, sem verið hafa á undan þér, allt frá þeim tíma, er Guð skóp mennina á jörðinni, og frá einu heimsskauti til annars, hvort nokkurn tíma hafi orðið svo miklir hlutir eða nokkuð slíkt heyrst,

33 hvort nokkur þjóð hafi heyrt raust Guðs út úr eldinum, eins og þú hefir heyrt, og þó haldið lífi.

34 Eða hvort Guð hefir til reynt nokkurn tíma að koma sjálfur til þess að ná þjóð af annarri þjóð með máttarverkum, táknum og undrum, með styrjöld, sterkri hendi, útréttum armlegg og miklum skelfingum, eins og Drottinn Guð þinn gjörði við yður í Egyptalandi í augsýn þinni.

35 Þetta hefir þú fengið að sjá, svo að þú mættir vita, að Drottinn, hann er Guð, og enginn nema hann einn.

36 Af himni hefir hann látið þig heyra sína raust til þess að kenna þér, og á jörðu hefir hann látið þig sjá hinn mikla eld sinn, og þú hefir heyrt orð hans út úr eldinum.

37 Og fyrir því að hann elskaði feður þína og útvaldi niðja þeirra eftir þá og leiddi þig sjálfur af Egyptalandi með hinum mikla mætti sínum

38 til þess að stökkva burt undan þér þjóðum, sem eru stærri og sterkari en þú ert, en leiða þig þangað og gefa þér land þeirra til eignar, eins og nú er fram komið,

39 þá ber þér í dag að kannast við það og hugfesta það, að Drottinn, hann er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri og enginn annar.

40 Þú skalt varðveita boð hans og skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig, og til þess að þú alla daga megir dvelja langa ævi í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

41 Þá skildi Móse frá þrjár borgir hinumegin Jórdanar, austanmegin,

42 til þess að þangað mætti flýja hver sá vegandi, er óviljandi hefði vegið náunga sinn og eigi verið óvinur hans áður _ að hann mætti flýja í einhverja af borgum þessum og halda lífi:

43 Beser í eyðimörkinni á sléttlendinu handa Rúbenítum, Ramót í Gíleað handa Gaðítum og Gólan í Basan handa Manassítum.

44 Þetta er lögmálið, sem Móse lagði fyrir Ísraelsmenn.

45 Þetta eru fyrirmæli þau, lög og ákvæði, sem Móse birti Ísraelsmönnum, þá er þeir fóru af Egyptalandi,

46 hinumegin Jórdanar, í dalnum gegnt Bet Peór í landi Síhons Amorítakonungs, sem hafði aðsetur í Hesbon og Móse og Ísraelsmenn felldu, er þeir fóru af Egyptalandi.

47 Þeir lögðu undir sig land hans, svo og land Ógs, konungs í Basan, land Amorítakonunganna beggja, hinumegin Jórdanar, austanmegin,

48 frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, allt til Síón, það er Hermon,

49 og allt sléttlendið hinumegin Jórdanar, austanmegin, allt að vatninu á sléttlendinu undir Pisgahlíðum.

Sálmarnir 86-87

86 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.

Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.

Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.

Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.

Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.

Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.

Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.

Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.

Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.

10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.

12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu,

13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.

14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.

15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.

16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.

17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.

87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.

Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.

Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]

Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.

En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.

Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]

Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."

Jesaja 32

32 Þegar konungurinn ríkir með réttlæti og höfðingjarnir stjórna með réttvísi,

þá verður hver þeirra sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.

Þá eru augu hinna sjáandi eigi afturlukt, og þá hlusta eyru þeirra, sem heyrandi eru.

Hjörtu hinna gálausu munu læra hyggindi og tunga hinna mállausu tala liðugt og skýrt.

Þá verður heimskinginn eigi framar kallaður göfugmenni og hinn undirföruli eigi sagður veglyndur.

Heimskinginn talar heimsku og hjarta hans býr mönnum ógæfu, með því að hann breytir óguðlega og talar villu gegn Drottni, lætur hinn hungraða vera svangan og gefur eigi þyrstum manni vatnsdrykk.

Vopn hins undirförula eru skaðvænleg. Hann hugsar upp pretti til þess að koma hinum umkomulausa á kné með lygaræðum, og það jafnvel þótt hinn fátæki sanni rétt sinn.

En göfugmennið hefir göfugleg áform og stendur stöðugur í því, sem göfuglegt er.

Þér áhyggjulausu konur, standið upp og heyrið raust mína! Þér ugglausu dætur, gefið gaum að ræðu minni:

10 Eftir ár og daga skuluð þér hinar ugglausu skelfast, því að vínberjatekjan bregst og aldintekja verður engin.

11 Hræðist, þér hinar áhyggjulausu! Skelfist, þér hinar ugglausu! Farið af klæðum og verið naktar, gyrðið hærusekk um lendar yðar,

12 berið yður hörmulega vegna akranna, vegna hinna yndislegu akra, vegna hins frjósama vínviðar,

13 vegna akurlendis þjóðar minnar þar sem vaxa munu þyrnar og þistlar, já vegna allra glaðværðarhúsanna í hinni glaummiklu borg!

14 Því að hallirnar munu verða mannauðar og hávaði borgarinnar hverfa. Borgarhæðin og varðturninn verða hellar um aldur og ævi, skógarösnum til skemmtunar og hjörðum til hagbeitar _

15 uns úthellt verður yfir oss anda af hæðum. Þá skal eyðimörkin verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur,

16 réttvísin festa byggð í eyðimörkinni og réttlætið taka sér bólfestu í aldingarðinum.

17 Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu.

18 Þá skal þjóð mín búa í heimkynni friðarins, í híbýlum öruggleikans og í rósömum bústöðum.

19 En hegla mun þegar skógurinn hrynur og borgin steypist.

20 Sælir eruð þér, sem alls staðar sáið við vötn og látið uxa og asna ganga sjálfala.

Opinberun Jóhannesar 2

Engli safnaðarins í Efesus skalt þú rita: Þetta segir sá sem heldur á stjörnunum sjö í hægri hendi sér, sá sem gengur á milli gullstikanna sjö:

Ég þekki verkin þín og erfiðið og þolgæði þitt og veit, að eigi getur þú sætt þig við vonda menn. Þú hefur reynt þá, sem segja sjálfa sig vera postula, en eru það ekki, og þú hefur komist að því, að þeir eru lygarar.

Þú ert þolgóður og byrðar hefur þú borið fyrir sakir nafns míns og ekki þreytst.

En það hef ég á móti þér, að þú hefur afrækt þinn fyrri kærleika.

Minnst þú því, úr hvaða hæð þú hefur hrapað, og gjör iðrun og breyttu eins og fyrrum. Að öðrum kosti kem ég til þín og færi ljósastiku þína úr stað, ef þú gjörir ekki iðrun.

En það mátt þú eiga, að þú hatar verk Nikólaítanna, sem ég sjálfur hata.

Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar, honum mun ég gefa að eta af lífsins tré, sem er í Paradís Guðs.

Og engli safnaðarins í Smýrnu skalt þú rita: Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi:

Ég þekki þrengingu þína og fátækt _ en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim, sem segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur samkunda Satans.

10 Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.

11 Hver sem eyra hefur, hann heyri, hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda.

12 Og engli safnaðarins í Pergamos skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og bitra:

13 Ég veit hvar þú býrð, þar sem hásæti Satans er. Þú heldur stöðugt við nafn mitt og afneitar ekki trúnni á mig, jafnvel ekki á dögum Antípasar, míns trúa vottar, sem deyddur var hjá yður, þar sem Satan býr.

14 En þó hef ég nokkuð á móti þér. Þú hefur hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Bíleams, þess er kenndi Balak að tæla Ísraelsmenn, svo að þeir neyttu kjöts, sem helgað var skurðgoðum, og drýgðu hór.

15 Þannig hefur þú líka hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Nikólaíta.

16 Gjör því iðrun! Að öðrum kosti kem ég skjótt til þín og mun berjast við þá með sverði munns míns.

17 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun ég gefa af hinu hulda "manna", og ég mun gefa honum hvítan stein, og á steininn ritað nýtt nafn, sem enginn þekkir nema sá, er við tekur.

18 Og engli safnaðarins í Þýatíru skalt þú rita: Þetta segir sonur Guðs, sem augun hefur eins og eldsloga og fætur hans eru líkir glómálmi:

19 Ég þekki verkin þín og kærleikann, trúna, þjónustuna og þolgæði þitt og veit, að verk þín hin síðari eru meiri en hin fyrri.

20 En það hef ég á móti þér, að þú líður Jessabel, konuna, sem segir sjálfa sig vera spákonu og kennir þjónum mínum og afvegaleiðir þá til að drýgja hór og eta kjöt helgað skurðgoðum.

21 Ég hef gefið henni frest til þess að hún gjöri iðrun, en hún vill ekki gjöra iðrun og láta af hórdómi sínum.

22 Nú mun ég varpa henni á sjúkrabeð og þeim í mikla þrengingu, sem hórast með henni, ef þeir gjöra ekki iðrun og láta af verkum hennar.

23 Og börn hennar mun ég deyða og allir söfnuðirnir skulu vita, að ég er sá, sem rannsakar nýrun og hjörtun, og ég mun gjalda yður, hverjum og einum, eftir verkum yðar.

24 En yður segi ég, hinum sem eruð í Þýatíru, öllum þeim sem hafa ekki kenningu þessa, þar sem þeir hafa ekki kannað djúp Satans, sem þeir svo kalla: Aðra byrði legg ég eigi á yður,

25 nema það að þér haldið því, sem þér hafið, þangað til ég kem.

26 Þeim er sigrar og varðveitir allt til enda verk mín mun ég gefa vald yfir heiðingjunum.

27 Og hann mun stjórna þeim með járnsprota, eins og leirker eru moluð. Það vald hef ég fengið frá föður mínum.

28 Og ég mun gefa honum morgunstjörnuna.

29 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society