Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Þriðja bók Móse 19

19 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tala þú til alls safnaðar Ísraelsmanna og seg við þá: Þér skuluð vera heilagir, því að ég, Drottinn, Guð yðar, er heilagur.

Sérhver óttist móður sína og föður sinn og haldi hvíldardaga mína. Ég er Drottinn, Guð yðar.

Snúið yður eigi til falsguða og gjörið yður eigi steypta guði. Ég er Drottinn, Guð yðar.

Er þér slátrið heillafórn Drottni til handa, þá slátrið henni þannig, að hún afli yður velþóknunar.

Skal eta hana daginn, sem þér fórnið henni, og daginn eftir, en það, sem leift er til þriðja dags, skal brenna í eldi.

En sé þó etið af því á þriðja degi, þá skal það talið skemmt kjöt. Það mun eigi verða velþóknanlegt.

Og hver, sem etur það, bakar sér sekt, því að hann hefir vanhelgað það sem helgað er Drottni, og sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni.

Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar.

10 Og eigi skalt þú gjörtína víngarð þinn, né heldur tína upp niður fallin ber í víngarði þínum. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar.

11 Þér skuluð eigi stela, eigi svíkja, né heldur ljúga hver að öðrum.

12 Þér skuluð eigi sverja ranglega við nafn mitt, svo að þú vanhelgir nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn.

13 Þú skalt eigi beita náunga þinn ofríki, né ræna hann, og kaup daglaunamanns skal eigi vera hjá þér náttlangt til morguns.

14 Þú skalt ekki bölva daufum manni, né leggja fótakefli fyrir blindan mann, heldur skalt þú óttast Guð þinn. Ég er Drottinn.

15 Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi. Þú skalt eigi draga taum lítilmagnans, né heldur vera hliðdrægur hinum volduga. Með réttvísi skalt þú dæma náunga þinn.

16 Þú skalt eigi ganga um sem rógberi meðal fólks þíns og eigi krefjast blóðs náunga þíns. Ég er Drottinn.

17 Þú skalt ekki hata bróður þinn í hjarta þínu. Einarðlega skalt þú ávíta náunga þinn, að þú eigi bakir þér synd hans vegna.

18 Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.

19 Þér skuluð varðveita setningar mínar. Þú skalt eigi láta tvær tegundir fénaðar þíns eiga samlag, þú skalt eigi sá akur þinn tvenns konar sæði og eigi skalt þú bera klæði, sem ofin eru af tvenns konar efni.

20 Nú hefir einhver holdlegt samræði við konu, og sé hún ambátt manni föstnuð, en hvorki leysingi né frelsingi, þá liggur refsing við. Eigi skal lífláta þau, fyrir því að hún var eigi frelsingi.

21 En hann skal færa Drottni sektarfórn sína að dyrum samfundatjaldsins, hrút í sektarfórn.

22 Og presturinn skal friðþægja fyrir hann með sektarfórnarhrútnum frammi fyrir Drottni vegna syndar hans, sem hann hefir drýgt. Og honum mun fyrirgefin verða synd hans, sem hann hefir drýgt.

23 Er þér komið inn í landið og gróðursetjið alls konar aldintré, þá skuluð þér telja aldinin á þeim sem yfirhúð þeirra. Þrjú ár skuluð þér halda þau fyrir óumskorin; eigi skal neyta þeirra.

24 Fjórða árið skulu öll aldin þeirra vera helguð Drottni til lofgjörðar,

25 en fimmta árið skuluð þér eta aldin þeirra, svo að þau veiti yður því meiri arð. Ég er Drottinn, Guð yðar.

26 Þér skuluð ekkert með blóði eta. Þér skuluð eigi fara með spár né fjölkynngi.

27 Þér skuluð eigi kringluskera höfuð yðar, né heldur skalt þú skerða skeggrönd þína.

28 Og þér skuluð eigi skera skurði í hold yðar fyrir sakir dauðs manns, né heldur gjöra hörundsflúr á yður. Ég er Drottinn.

29 Vanhelga eigi dóttur þína með því að halda henni til saurlifnaðar, að eigi drýgi landið hór og landið fyllist óhæfu.

30 Þér skuluð halda hvíldardaga mína og bera lotningu fyrir helgidómi mínum. Ég er Drottinn.

31 Leitið eigi til særingaranda né spásagnaranda, farið eigi til frétta við þá, svo að þér saurgist ekki af þeim. Ég er Drottinn, Guð yðar.

32 Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið, og þú skalt óttast Guð þinn. Ég er Drottinn.

33 Ef útlendur maður býr hjá þér í landi yðar, þá skuluð þér eigi sýna honum ójöfnuð.

34 Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar.

35 Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi, stiku, vigt og mæli.

36 Þér skuluð hafa réttar vogir, rétta vogarsteina, rétta efu og rétta hín. Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi.

37 Og þér skuluð varðveita allar setningar mínar og öll lög mín og halda þau. Ég er Drottinn."

Sálmarnir 23-24

23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

24 Davíðssálmur. Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa.

Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum.

_ Hver fær að stíga upp á fjall Drottins, hver fær að dveljast á hans helga stað?

_ Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið.

Hann mun blessun hljóta frá Drottni og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns.

_ Þessi er sú kynslóð er leitar Drottins, stundar eftir augliti þínu, þú Jakobs Guð. [Sela] _________

_ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.

_ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan.

_ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.

10 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar. [Sela]

Prédikarinn 2

Ég sagði við sjálfan mig: Jæja þá, reyndu gleðina og njóttu gæða lífsins! En sjá, einnig það er hégómi.

Um hláturinn sagði ég: hann er vitlaus! og um gleðina: hverju fær hún til vegar komið?

Mér kom til hugar að gæða líkama mínum á víni _ en hjarta mitt skyldi stjórna öllu viturlega _ og að halda fast við heimskuna, uns ég sæi, hvað gott væri fyrir mennina að gjöra undir himninum alla ævidaga þeirra.

Ég gjörði stórvirki: Ég reisti mér hús, ég plantaði mér víngarða,

ég gjörði mér jurtagarða og aldingarða og gróðursetti þar alls konar aldintré,

ég bjó mér til vatnstjarnir til þess að vökva með vaxandi viðarskóg,

ég keypti þræla og ambáttir, og ég átti heimafædd hjú. Ég átti og meiri hjarðir nauta og sauða en allir þeir, sem verið höfðu á undan mér í Jerúsalem.

Ég safnaði mér og silfri og gulli og fjársjóðum frá konungum og löndum, ég fékk mér söngmenn og söngkonur og það sem er yndi karlmannanna: fjölda kvenna.

Og ég varð mikill og meiri öllum þeim, er verið höfðu í Jerúsalem á undan mér. Einnig speki mín var kyrr hjá mér.

10 Og allt það sem augu mín girntust, það lét ég eftir þeim. Ég neitaði ekki hjarta mínu um nokkra gleði, því að hjarta mitt hafði ánægju af allri fyrirhöfn minni, og þetta var hlutdeild mín af allri fyrirhöfn minni.

11 En er ég leit á öll verk mín, þau er hendur mínar höfðu unnið, og á þá fyrirhöfn, er ég hafði haft fyrir að gjöra þau, þá sá ég, að allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi, og að enginn ávinningur er til undir sólinni.

12 Ég sneri mér að því að virða fyrir mér speki og flónsku og heimsku, _ því að hvað mun sá maður gjöra, er kemur eftir konunginn? Hann gjörir það sem menn hafa gjört fyrir löngu. _

13 Þá sá ég, að spekin hefir yfirburði yfir heimskuna eins og ljósið hefir yfirburði yfir myrkrið.

14 Vitur maður hefir augun í höfðinu, en heimskinginn gengur í myrkri. Jafnframt tók ég eftir því, að eitt og hið sama kemur fram við alla.

15 Og ég sagði við sjálfan mig: Hið sama sem kemur fram við heimskingjann, það kemur og fram við mig, og til hvers hefi ég þá orðið svo frábærlega vitur? Þá hugsaði ég í hjarta mínu, að einnig það væri hégómi.

16 Því að menn minnast ekki hins vitra að eilífu, frekar en heimskingjans, því að allir verða þeir löngu gleymdir á komandi tímum, og deyr ekki jafnt vitur sem heimskur?

17 Þá varð mér illa við lífið, því að mér mislíkaði það, er gjörist undir sólinni, því að allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

18 Og mér varð illa við allt mitt strit, er ég streittist við undir sólinni, með því að ég verð að eftirskilja það þeim manni, er kemur eftir mig.

19 Og hver veit, hvort hann verður spekingur eða heimskingi? Og þó á hann að ráða yfir öllu striti mínu, er ég hefi streitst við og viturlega með farið undir sólinni _ einnig það er hégómi.

20 Þá hvarf ég að því að láta hjarta mitt örvænta yfir allri þeirri mæðu, er ég hafði átt í undir sólinni.

21 Því að hafi einhver unnið starf sitt með hyggindum, þekking og dugnaði, verður hann að selja það öðrum í hendur til eignar, sem ekkert hefir fyrir því haft. Einnig það er hégómi og mikið böl.

22 Hvað fær þá maðurinn fyrir allt strit sitt og ástundun hjarta síns, er hann mæðist í undir sólinni?

23 Því að allir dagar hans eru kvöl, og starf hans er armæða. Jafnvel á næturnar fær hjarta hans eigi hvíld. Einnig þetta er hégómi.

24 Það er ekkert betra til með mönnum en að eta og drekka og láta sálu sína njóta fagnaðar af striti sínu. En það hefi ég séð, að einnig þetta kemur af Guðs hendi.

25 Því að hver má eta eða neyta nokkurs án hans?

26 Því að þeim manni, sem honum geðjast, gefur hann visku, þekking og gleði, en syndaranum fær hann það starf að safna og hrúga saman til þess að selja það þeim í hendur, er Guði geðjast. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

Fyrra bréf Páls til Tímót 4

Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.

Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni.

Það eru þeir, sem meina hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann.

Allt sem Guð hefur skapað er gott, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð.

Það helgast af orði Guðs og bæn.

Með því að brýna þetta fyrir bræðrunum, munt þú verða góður þjónn Krists Jesú, nærður af orði trúarinnar og góðu kenningarinnar, sem þú hefur fylgt.

En hafna þú vanheilögum kerlingaævintýrum, og æf sjálfan þig í guðhræðslu.

Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.

Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið.

10 Þess vegna leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð, því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra.

11 Bjóð þú þetta og kenn það.

12 Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika.

13 Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna.

14 Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér að tilvísan spámanna og með handayfirlagningu öldunganna.

15 Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.

16 Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society