Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Þriðja bók Móse 21

21 Drottinn sagði við Móse: "Mæl þú til prestanna, sona Arons, og seg við þá: Prestur skal eigi saurga sig á líki meðal fólks síns,

nema það sé skyldmenni hans, honum mjög náið: móðir hans, faðir hans, sonur hans, dóttir hans, bróðir hans

eða systir hans, sem er mey og honum nákomin, og eigi er manni gefin, vegna hennar má hann saurga sig.

Eigi skal hann saurga sig, þar eð hann er höfðingi meðal fólks síns, svo að hann vanhelgi sig.

Eigi skulu þeir gjöra skalla á höfði sér, eigi raka skeggrönd sína, né heldur skera skurði í hold sitt.

Þeir skulu vera heilagir fyrir Guði sínum og ekki vanhelga nafn Guðs síns, því að þeir bera fram eldfórnir Drottins, mat Guðs síns. Fyrir því skulu þeir vera heilagir.

Eigi skulu þeir ganga að eiga skækju eða mey spjallaða, né heldur skulu þeir ganga að eiga konu, er maður hennar hefir rekið frá sér, því að prestur er heilagur fyrir Guði sínum.

Fyrir því skalt þú halda hann heilagan, því að hann ber fram mat Guðs þíns. Hann skal vera þér heilagur, því að ég er heilagur, Drottinn, sá er yður helgar.

Og ef prestsdóttir vanhelgar sig með saurlifnaði, þá vanhelgar hún föður sinn. Hana skal brenna í eldi.

10 Sá sem er æðsti prestur meðal bræðra sinna, og smurningarolíu hefir verið hellt yfir höfuð honum og hönd hans fyllt, að hann klæðist hinum helgu klæðum, hann skal eigi láta hár sitt flaka og eigi rífa sundur klæði sín.

11 Eigi skal hann koma nærri nokkru líki. Vegna föður síns og vegna móður sinnar skal hann eigi saurga sig.

12 Og eigi skal hann ganga út úr helgidóminum, svo að hann vanhelgi ekki helgidóm Guðs síns, því að vígsla smurningarolíu Guðs hans er á honum. Ég er Drottinn.

13 Hann skal ganga að eiga konu í meydómi hennar.

14 Ekkju eða konu brott rekna eða mey spjallaða, skækju, eigi skal hann slíkum kvænast, heldur skal hann taka sér fyrir konu mey af þjóð sinni.

15 Eigi skal hann vanhelga afkvæmi sitt meðal fólks síns, því að ég er Drottinn, sá er helgar hann."

16 Drottinn talaði við Móse og sagði:

17 "Mæl þú til Arons og seg: Hafi einhver niðja þinna, nú eða í komandi kynslóðum, lýti á sér, þá skal hann eigi ganga fram til þess að bera fram mat Guðs síns.

18 Því að enginn sá, er lýti hefir á sér, skal ganga fram, sé hann blindur eða haltur eða örkumlaður í andliti eða hafi ofskapaðan útlim,

19 eða sé hann fótbrotinn eða handleggsbrotinn,

20 eða hafi hann herðakistil eða sé tærður eða hafi vagl á auga eða kláða eða útbrot eða eistnamar.

21 Enginn af niðjum Arons prests, sem lýti hefir á sér, skal koma fram til þess að bera fram eldfórnir Drottins. Lýti er á honum; eigi skal hann koma fram til þess að bera fram mat Guðs síns.

22 Mat Guðs síns, bæði af því, sem háheilagt er og heilagt, má hann eta.

23 En þó skal hann hvorki ganga inn að fortjaldinu né koma nærri altarinu, því að lýti er á honum, að hann eigi vanhelgi helga dóma mína; því að ég er Drottinn, sá er helgar þá."

24 Þannig talaði Móse við Aron og sonu hans og við alla Ísraelsmenn.

Sálmarnir 26-27

26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.

Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.

Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.

Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.

Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.

Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,

til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.

Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,

10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.

11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.

12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.

27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?

Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.

Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.

Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.

Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.

Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.

Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!

Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.

Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.

10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.

12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.

13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!

14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.

Prédikarinn 4

Og enn sá ég alla þá kúgun, sem viðgengst undir sólinni: Þarna streyma tár hinna undirokuðu, en enginn huggar þá. Af hendi kúgara sinna sæta þeir ofbeldi, en enginn huggar þá.

Þá taldi ég hina framliðnu sæla, þá er fyrir löngu eru dánir, í samanburði við hina lifandi, þá er enn eru á lífi,

en sælli en þessa hvora tveggja þann, sem enn er ekki til orðinn og ekki hefir séð þau vondu verk, sem framin eru undir sólinni.

Og ég sá, að allt strit og dugnaður í framkvæmdum er ekki annað en öfund eins við annan. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

Heimskinginn spennir greipar og etur sitt eigið hold.

Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.

Og enn sá ég hégóma undir sólinni:

Maður stendur einn og enginn annar með honum, hann á hvorki son né bróður, og þó er enginn endir á öllu striti hans, og augu hans mettast ekki á auðlegð. En fyrir hvern er ég þá að stritast og fyrir hvern læt ég þá sál mína fara góðs á mis? Einnig þetta er hégómi og leið þraut.

Betri eru tveir en einn, með því að þeir hafa góð laun fyrir strit sitt.

10 Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur, en vei einstæðingnum, sem fellur og enginn annar er til að reisa á fætur.

11 Sömuleiðis ef tveir sofa saman, þá er þeim heitt, en sá sem er einn, hvernig getur honum hitnað?

12 Og ef einhver ræðst á þann sem er einn, þá munu tveir geta veitt honum mótstöðu, og þrefaldan þráð er eigi auðvelt að slíta.

13 Betri er fátækur unglingur, sé hann vitur, heldur en gamall konungur, sé hann heimskur og þýðist eigi framar viðvaranir.

14 Því að hann gekk út úr dýflissunni og varð konungur, þótt hann hefði fæðst snauður í ríki annars.

15 Ég sá alla lifandi menn, þá er gengu undir sólinni, vera á bandi unglingsins, hins annars, þess er koma átti í hins stað.

16 Enginn endir var á öllu því fólki, á öllum þeim, er hann var fyrir. Þó glöddust eftirkomendurnir ekki yfir honum. Því að einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

17 Haf gát á fæti þínum þegar þú gengur í Guðs hús, því að það er betra að koma þangað til þess að heyra, heldur en að heimskingjar færi sláturfórn; því að þeir vita ekkert og gjöra það sem illt er.

Fyrra bréf Páls til Tímót 6

Allir þeir, sem eru ánauðugir þrælar, skulu sýna húsbændum sínum allan skyldugan heiður, til þess að ekki verði lastmælt nafni Guðs og kenningunni.

En þeir, sem trúaða húsbændur eiga, skulu ekki lítilsvirða þá, vegna þess að þeir eru bræður, heldur þjóni þeim því betur sem þeir eru trúaðir og elskaðir og kappkosta að gjöra góðverk. Kenn þú þetta og áminn um það.

Ef einhver fer með annarlegar kenningar og fylgir ekki hinum heilnæmu orðum Drottins vors Jesú Krists og því, sem guðrækni vor kennir, þá hefur hann ofmetnast og veit ekki neitt.

Hann er sótttekinn af þrætum og orðastælum. Af þessu fæðist öfund, deilur, lastmæli, vondar hugsanir,

þjark og þras hugspilltra manna, sem eru sneyddir sannleikanum, en skoða guðhræðsluna sem gróðaveg.

Já, guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur.

Því að ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan.

Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.

En þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.

10 Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.

11 En þú, Guðs maður, forðast þú þetta, en stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.

12 Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta.

13 Ég býð þér fyrir augliti Guðs, sem veitir öllu líf, og fyrir augliti Krists Jesú, er gjörði góðu játninguna frammi fyrir Pontíusi Pílatusi:

14 Gæt þú boðorðsins lýtalaust, óaðfinnanlega allt til endurkomu Drottins vors Jesú Krists,

15 sem hinn blessaði og eini alvaldur mun á sínum tíma birtast láta, konungur konunganna og Drottinn drottnanna.

16 Hann einn hefur ódauðleika, hann býr í ljósi, sem enginn fær til komist, hann sem enginn maður leit né litið getur. Honum sé heiður og eilífur máttur. Amen.

17 Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar.

18 Bjóð þeim að gjöra gott, vera ríkir af góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum,

19 með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.

20 Þú Tímóteus, varðveit það, sem þér er trúað fyrir, og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar,

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society