Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Þriðja bók Móse 10

10 Nadab og Abíhú, synir Arons, tóku hvor sína eldpönnu og létu eld í þær og lögðu reykelsi ofan á og báru fram fyrir Drottin óvígðan eld, sem hann eigi hafði boðið þeim.

Gekk þá eldur út frá Drottni og eyddi þeim, og þeir dóu frammi fyrir Drottni.

Þá sagði Móse við Aron: "Nú er það fram komið, sem Drottinn sagði: Heilagleik minn vil ég sýna á þeim, sem nálægjast mig, og birta dýrð mína frammi fyrir öllum lýð." Og Aron þagði.

Móse kallaði á Mísael og Elsafan, sonu Ússíels, föðurbróður Arons, og sagði við þá: "Komið og berið burt úr helgidóminum frændur ykkar út fyrir herbúðirnar."

Og þeir komu og báru þá í kyrtlum þeirra út fyrir herbúðirnar, eins og Móse hafði sagt.

Og Móse sagði við Aron og við Eleasar og Ítamar, sonu hans: "Þér skuluð eigi láta hár yðar flaka, eigi heldur sundur rífa klæði yðar, að þér ekki deyið og hann reiðist ekki öllum söfnuðinum. En bræður yðar, allur Ísraelslýður, gráti yfir þeim eldi, sem Drottinn hefir kveikt.

Og eigi skuluð þér fara út fyrir dyr samfundatjaldsins, ella munuð þér deyja, því að smurningarolía Drottins er á yður." Og þeir gjörðu sem Móse bauð.

Drottinn talaði við Aron og sagði:

"Hvorki skalt þú né synir þínir drekka vín eða áfengan drykk, þegar þér gangið inn í samfundatjaldið, svo að þér deyið ekki. Það er ævarandi lögmál hjá yður frá kyni til kyns.

10 Og þér skuluð gjöra greinarmun á því, sem er heilagt og óheilagt, og á því, sem er hreint og óhreint.

11 Og þér skuluð kenna Ísraelsmönnum öll þau lög, er Drottinn hefir gefið þeim fyrir Móse."

12 Móse sagði við Aron og þá Eleasar og Ítamar, sonu hans, er eftir voru á lífi: "Takið matfórnina, sem eftir er af eldfórnum Drottins, og etið hana ósýrða hjá altarinu, því að hún er háheilög.

13 Og þér skuluð eta hana á helgum stað, því að hún er hinn ákveðni hluti þinn og sona þinna af eldfórnum Drottins. Því að svo er mér boðið.

14 En bringuna, sem veifa skal, og lærið, sem fórna skal, skuluð þér eta á hreinum stað, þú og synir þínir og dætur þínar með þér, því að þetta er sá ákveðni hluti, sem þér er gefinn og sonum þínum af heillafórnum Ísraelsmanna.

15 Lærið, sem fórna skal, og bringuna, sem veifa skal, skulu þeir fram bera ásamt mörstykkja-eldfórnunum til þess að veifa því til veififórnar frammi fyrir Drottni. Síðan skalt þú fá það og synir þínir með þér, sem ævinlega skyldugreiðslu, eins og Drottinn hefir boðið."

16 Og Móse leitaði vandlega að syndafórnarhafrinum, og sjá, hann var upp brenndur. Þá reiddist hann Eleasar og Ítamar, sonum Arons, er eftir voru á lífi, og sagði við þá:

17 "Hvers vegna átuð þið ekki syndafórnina á helgum stað? Því að hún er háheilög og hann hefir gefið ykkur hana til þess að burt taka misgjörð safnaðarins og friðþægja fyrir þá frammi fyrir Drottni.

18 Sjá, blóð hennar hefir ekki verið borið inn í helgidóminn. Þið áttuð þó að eta hana á helgum stað, eins og ég hafði boðið."

19 En Aron sagði við Móse: "Sjá, í dag hafa þeir fram borið syndafórn sína og brennifórn fyrir Drottin, og mér hefir slíkt að höndum borið. Hefði ég nú etið syndafórnina í dag, mundi Drottni hafa þóknast það?" Og er Móse heyrði þetta, lét hann sér það vel líka.

Sálmarnir 11-12

11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"

Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.

Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?

Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.

Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.

Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.

Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.

12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.

Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.

Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,

þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"

"Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."

Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.

Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.

Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.

Orðskviðirnir 25

25 Þetta eru líka orðskviðir Salómons, er menn Hiskía Júdakonungs hafa safnað.

Guði er það heiður að dylja mál, en konungum heiður að rannsaka mál.

Eins og hæð himins og dýpt jarðar, svo eru konungahjörtun órannsakanleg.

Sé sorinn tekinn úr silfrinu, þá fær smiðurinn ker úr því.

Séu hinir óguðlegu teknir burt frá augliti konungsins, þá mun hásæti hans staðfestast fyrir réttlæti.

Stær þig eigi frammi fyrir konunginum og ryðst eigi í rúm stórmenna,

því að betra er að menn segi við þig: "Fær þig hingað upp!" heldur en að menn gjöri þér læging frammi fyrir tignarmanni. Hvað sem augu þín kunna að hafa séð,

þá ver eigi skjótur til málsóknar, því að hvað ætlar þú síðan að gjöra, þá er náungi þinn gjörir þér sneypu?

Rek þú mál þitt gegn náunga þínum, en ljósta eigi upp leyndarmáli annars manns,

10 til þess að sá sem heyrir það, smáni þig ekki og þú losnir aldrei við illan orðróm.

11 Gullepli í skrautlegum silfurskálum _ svo eru orð í tíma töluð.

12 Eins og gullhringur og skartgripur af skíru gulli, svo er vitur áminnandi heyranda eyra.

13 Eins og snjósvali um uppskerutímann, svo er áreiðanlegur sendimaður þeim er sendir hann, því að hann hressir sál húsbónda síns.

14 Ský og vindur, og þó engin rigning _ svo er sá, sem hrósar sér af gjafmildi, en gefur þó ekkert.

15 Með þolinmæði verður höfðingja talið hughvarf, og mjúk tunga mylur bein.

16 Finnir þú hunang, þá et sem þér nægir, svo að þú verðir ekki ofsaddur af því og ælir því upp aftur.

17 Stíg sjaldan fæti þínum í hús náunga þíns, svo að hann verði ekki leiður á þér og hati þig.

18 Hamar og sverð og hvöss ör _ svo er maður, sem ber falsvitni gegn náunga sínum.

19 Molnandi tönn og hrasandi fótur _ svo er traust á svikara á neyðarinnar degi.

20 Að fara úr fötum í kalsaveðri _ að hella ediki út í saltpétur _ eins er að syngja skapvondum ljóð.

21 Ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, og ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka,

22 því að þú safnar glóðum elds yfir höfuð honum, og Drottinn mun endurgjalda þér það.

23 Norðanvindurinn leiðir fram regn og launskraf reiðileg andlit.

24 Betri er vist í horni á húsþaki en sambúð við þrasgjarna konu.

25 Eins og kalt vatn er dauðþyrstum manni, svo er góð fregn af fjarlægu landi.

26 Eins og grugguð lind og skemmdur brunnur, svo er réttlátur maður, sem titrar frammi fyrir óguðlegum manni.

27 Það er ekki gott að eta of mikið hunang, ver því spar á hólið.

28 Eins og borg, sem múrarnir hafa verið brotnir utan af, eins er sá maður, sem eigi hefir stjórn á skapsmunum sínum.

Fyrra bréf Páls til Þessa 4

Að endingu biðjum vér yður, bræður, og áminnum í Drottni Jesú. Þér hafið numið af oss, hvernig yður ber að breyta og þóknast Guði, og þannig breytið þér líka. En takið enn meiri framförum.

Þér vitið, hver boðorð vér gáfum yður frá Drottni Jesú.

Það er vilji Guðs, að þér verðið heilagir. Hann vill, að þér haldið yður frá frillulífi,

að sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri,

en ekki í losta, eins og heiðingjarnir, er ekki þekkja Guð.

Og enginn skyldi gjöra bróður sínum rangt til né blekkja hann í slíkum sökum. Því að Drottinn hegnir fyrir allt þvílíkt, eins og vér höfum áður sagt yður og brýnt fyrir yður.

Ekki kallaði Guð oss til saurlifnaðar, heldur helgunar.

Sá, sem fyrirlítur þetta, fyrirlítur þess vegna ekki mann, heldur Guð, sem hefur gefið yður sinn heilaga anda.

En ekki hafið þér þess þörf, að ég skrifi yður um bróðurkærleikann, því Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan.

10 Það gjörið þér einnig öllum bræðrum í allri Makedóníu. En vér áminnum yður, bræður, að taka enn meiri framförum.

11 Leitið sæmdar í því að lifa kyrrlátu lífi og stunda hver sitt starf og vinna með höndum yðar, eins og vér höfum boðið yður.

12 Þannig hegðið þér yður með sóma gagnvart þeim, sem fyrir utan eru, og eruð upp á engan komnir.

13 Ekki viljum vér, bræður, láta yður vera ókunnugt um þá, sem sofnaðir eru, til þess að þér séuð ekki hryggir eins og hinir, sem ekki hafa von.

14 Því að ef vér trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þá, sem sofnaðir eru.

15 Því að það segjum vér yður, og það er orð Drottins, að vér, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en hinir sofnuðu.

16 Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa.

17 Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum vér vera með Drottni alla tíma.

18 Uppörvið því hver annan með þessum orðum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society