Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 12:22-51

22 Takið ísópsvönd og drepið honum í blóðið, sem er í troginu, og ríðið blóði úr troginu á dyratréð og báða dyrastafina. Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni.

23 Því að Drottinn mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá Drottinn ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koma í hús yðar til að ljósta yður.

24 Gætið þessa sem ævinlegrar skipunar fyrir þig og börn þín.

25 Og þegar þér komið í landið, sem Drottinn mun gefa yður, eins og hann hefir heitið, þá skuluð þér halda þennan sið.

26 Og þegar börn yðar segja við yður: ,Hvaða siður er þetta, sem þér haldið?`

27 þá skuluð þér svara: ,Þetta er páskafórn Drottins, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum."` Þá féll lýðurinn fram og tilbað.

28 Og Ísraelsmenn fóru og gjörðu þetta. Þeir gjörðu eins og Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni.

29 Um miðnæturskeið laust Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, frá frumgetnum syni Faraós, sem sat í hásæti sínu, allt til frumgetnings bandingjans, sem í myrkvastofu sat, og alla frumburði fénaðarins.

30 Þá reis Faraó upp um nóttina, hann og allir þjónar hans, og allir Egyptar. Gjörðist þá mikið harmakvein í Egyptalandi, því að ekki var það hús, að eigi væri lík inni.

31 Lét hann kalla þá Móse og Aron um nóttina og sagði: "Takið yður upp og farið burt frá minni þjóð, bæði þið og Ísraelsmenn. Farið og þjónið Drottni, eins og þið hafið um talað.

32 Takið með yður bæði sauðfé yðar og nautgripi, eins og þið hafið um talað, farið því næst af stað og biðjið einnig mér blessunar."

33 Og Egyptar ráku hart eftir fólkinu til þess að koma þeim sem fyrst burt úr landinu, því að þeir sögðu: "Vér munum allir deyja."

34 Fólkið tók þá deigið, sem það hafði, áður en það sýrðist, batt deigtrogin innan í klæði sín og bar þau á öxlum sér.

35 En Ísraelsmenn höfðu gjört eftir fyrirmælum Móse og beðið Egypta um gullgripi og silfurgripi og klæði,

36 og hafði Drottinn látið fólkið öðlast hylli Egypta, svo að þeir urðu við bæn þeirra, og þannig rændu þeir Egypta.

37 Tóku Ísraelsmenn sig nú upp frá Ramses og fóru til Súkkót, hér um bil sex hundruð þúsund fótgangandi manna, auk barna.

38 Þar að auki fór með þeim mikill fjöldi af alls konar lýð, svo og stórar hjarðir sauða og nauta.

39 Og þeir bökuðu ósýrðar kökur af deiginu, sem þeir höfðu með sér úr Egyptalandi, því að deigið hafði ekki sýrst, þar eð þeir voru reknir burt úr Egyptalandi og máttu engar viðtafir hafa og höfðu því ekkert búið sér til veganestis.

40 Ísraelsmenn höfðu þá búið í Egyptalandi fjögur hundruð og þrjátíu ár.

41 Og að liðnum þeim fjögur hundruð og þrjátíu árum, einmitt á þeim degi, fóru allar hersveitir Drottins út af Egyptalandi.

42 Þetta er vökunótt Drottins, með því að hann leiddi þá út af Egyptalandi. Þessa sömu nótt halda allir Ísraelsmenn helga sem vökunótt Drottins frá kyni til kyns.

43 Drottinn sagði við þá Móse og Aron: "Þetta eru ákvæðin um páskalambið: Enginn útlendur maður má af því eta.

44 Sérhver þræll, sem er verði keyptur, má eta af því, er þú hefir umskorið hann.

45 Enginn útlendur búandi eða daglaunamaður má eta af því.

46 Menn skulu eta það í einu húsi. Ekkert af kjötinu mátt þú bera út úr húsinu. Ekkert bein í því megið þér brjóta.

47 Allur söfnuður Ísraels skal svo gjöra.

48 Ef nokkur útlendingur býr hjá þér og vill halda Drottni páska, þá skal umskera allt karlkyn hjá honum, og má hann þá koma og halda hátíðina, og skal hann vera sem innborinn maður. En enginn óumskorinn skal þess neyta.

49 Sömu lög skulu vera fyrir innborna menn sem fyrir þá útlendinga, er meðal yðar búa."

50 Allir Ísraelsmenn gjörðu svo, þeir gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni.

51 Einmitt á þessum degi leiddi Drottinn Ísraelsmenn út af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra.

Lúkasarguðspjall 15

15 Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann,

en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: "Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim."

En hann sagði þeim þessa dæmisögu:

"Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann?

Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann.

Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.`

Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.

Eða kona, sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega, uns hún finnur hana?

Og er hún hefur fundið hana, kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið drökmuna, sem ég týndi.`

10 Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun."

11 Enn sagði hann: "Maður nokkur átti tvo sonu.

12 Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: ,Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber.` Og hann skipti með þeim eigum sínum.

13 Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði.

14 En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort.

15 Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína.

16 Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

17 En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: ,Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri!

18 Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér.

19 Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.`

20 Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.

21 En sonurinn sagði við hann: ,Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn.`

22 Þá sagði faðir hans við þjóna sína: ,Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum.

23 Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag.

24 Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.` Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

25 En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans.

26 Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera.

27 Hann svaraði: ,Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.`

28 Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma.

29 En hann svaraði föður sínum: ,Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum.

30 En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.`

31 Hann sagði þá við hann: ,Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt.

32 En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn."`

Jobsbók 30

30 En nú hlæja þeir að mér, sem yngri eru en ég, mundi ég þó ekki hafa virt feður þeirra þess að setja þá hjá fjárhundum mínum.

Hvað hefði og kraftur handa þeirra stoðað mig, þar sem þeir aldrei verða fullþroska?

Þeir eru örmagna af skorti og hungri, naga þurrt landið, sem í gær var auðn og eyðimörk.

Þeir reyta hrímblöðku hjá runnunum, og gýfilrætur er fæða þeirra.

Þeir eru flæmdir úr félagi manna, menn æpa að þeim eins og að þjóf,

svo að þeir verða að hafast við í hræðilegum gjám, í jarðholum og berghellum.

Milli runnanna rymja þeir, og undir netlunum safnast þeir saman,

guðlaust og ærulaust kyn, útreknir úr landinu.

Og nú er ég orðinn þeim að háðkvæði og orðinn umtalsefni þeirra.

10 Þeir hafa andstyggð á mér, koma ekki nærri mér og hlífast jafnvel ekki við að hrækja framan í mig.

11 Þar sem Guð hefir leyst streng sinn og beygt mig, þá sleppa þeir og beislinu fram af sér gagnvart mér.

12 Mér til hægri handar vex hyski þeirra upp, fótum mínum hrinda þeir frá sér og leggja glötunarbrautir sínar gegn mér.

13 Þeir hafa rifið upp stig minn, að falli mínu styðja þeir, sem engan hjálparmann eiga.

14 Þeir koma sem inn um vítt múrskarð, velta sér áfram innan um rústir.

15 Skelfingar hafa snúist móti mér, tign mín er ofsótt eins og af stormi, og gæfa mín er horfin eins og ský.

16 Og nú rennur sála mín sundur í tárum, eymdardagar halda mér föstum.

17 Nóttin nístir bein mín, svo að þau losna frá mér, og hinar nagandi kvalir mínar hvílast ekki.

18 Fyrir mikilleik máttar hans er klæðnaður minn aflagaður, hann lykur fast um mig, eins og hálsmál kyrtils míns.

19 Guð hefir kastað mér ofan í saurinn, svo að ég er orðinn eins og mold og aska.

20 Ég hrópa til þín, en þú svarar ekki, ég stend þarna, en þú starir á mig.

21 Þú ert orðinn grimmur við mig, með krafti handar þinnar ofsækir þú mig.

22 Þú lyftir mér upp á vindinn, lætur mig þeytast áfram, og þú lætur mig farast í stormgný.

23 Því að ég veit, að þú vilt leiða mig til Heljar, í samkomustað allra þeirra er lifa.

24 En _ rétta menn ekki út höndina, þegar allt hrynur? eða hrópa menn ekki á hjálp, þegar þeir eru að farast?

25 Eða grét ég ekki yfir þeim, sem átti illa daga, og hryggðist ekki sál mín vegna fátæklingsins?

26 Já, ég bjóst við góðu, en þá kom illt, vænti ljóss, en þá kom myrkur.

27 Það sýður í innýflum mínum án afláts, eymdardagar eru yfir mig komnir.

28 Svartur geng ég um, þó ekki af sólarhita, ég stend upp, í söfnuðinum hrópa ég á hjálp.

29 Ég er orðinn bróðir sjakalanna og félagi strútsfuglanna.

30 Hörund mitt er orðið svart og flagnar af mér, og bein mín eru brunnin af hita.

31 Og fyrir því varð gígja mín að gráti og hjarðpípa mín að harmakveini.

Fyrra bréf Páls til Korin 16

16 En hvað snertir samskotin til hinna heilögu, þá skuluð einnig þér fara með þau eins og ég hef fyrirskipað söfnuðunum í Galatíu.

Hvern fyrsta dag vikunnar skal hver yðar leggja í sjóð heima hjá sér það, sem efni leyfa, til þess að ekki verði fyrst farið að efna til samskota, þegar ég kem.

En þegar ég svo kem, mun ég senda þá, sem þér teljið hæfa, með líknargjöf yðar til Jerúsalem, og skrifa með þeim.

En ef betra þykir að ég fari líka, þá geta þeir orðið mér samferða.

Ég mun koma til yðar, er ég hef farið um Makedóníu, því að um Makedóníu legg ég leið mína.

Ég mun ef til vill staldra við hjá yður, eða jafnvel dveljast vetrarlangt, til þess að þér getið búið ferð mína, hvert sem ég þá kann að fara.

Því að nú vil ég ekki sjá yður rétt í svip. Ég vona sem sé, ef Drottinn lofar, að standa við hjá yður nokkra stund.

Ég stend við í Efesus allt til hvítasunnu,

því að mér hafa opnast þar víðar dyr og verkmiklar og andstæðingarnir eru margir.

10 Ef Tímóteus kemur, þá sjáið til þess, að hann geti óttalaust hjá yður verið, því að hann starfar að verki Drottins eins og ég.

11 Þess vegna lítilsvirði enginn hann, greiðið heldur ferð hans í friði, til þess að hann geti komist til mín. Því að ég vænti hans með bræðrunum.

12 En hvað snertir bróður Apollós, þá hef ég mikillega hvatt hann til að verða bræðrunum samferða til yðar. En hann var alls ófáanlegur til að fara nú, en koma mun hann, er hentugleikar hans leyfa.

13 Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir og styrkir.

14 Allt sé hjá yður í kærleika gjört.

15 Um eitt bið ég yður, bræður. Þér vitið að Stefanas og heimili hans er frumgróði Akkeu og að þeir hafa helgað sig þjónustu heilagra.

16 Sýnið slíkum mönnum undirgefni og hverjum þeim er starfar með og leggur á sig erfiði.

17 Ég gleðst yfir návist þeirra Stefanasar, Fortúnatusar og Akkaíkusar, af því að þeir hafa bætt mér upp fjarvist yðar.

18 Þeir hafa bæði glatt mig og yður. Hafið mætur á slíkum mönnum.

19 Söfnuðirnir í Asíu biðja að heilsa yður. Akvílas og Priska ásamt söfnuðinum í húsi þeirra biðja kærlega að heilsa yður í Drottins nafni.

20 Allir bræðurnir biðja að heilsa yður. Heilsið hver öðrum með heilögum kossi.

21 Kveðjan er með eigin hendi minni, Páls.

22 Ef einhver elskar ekki Drottin, hann sé bölvaður. Marana ta!

23 Náðin Drottins Jesú sé með yður.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society