Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 28

28 Þú skalt taka Aron bróður þinn og sonu hans með honum til þín úr sveit Ísraelsmanna, að hann þjóni mér í prestsembætti, þá Aron, Nadab og Abíhú, Eleasar og Ítamar, sonu Arons.

Þú skalt gjöra Aroni bróður þínum helg klæði til vegs og prýði.

Og þú skalt tala við alla hugvitsmenn, sem ég hefi fyllt hugvitsanda, og skulu þeir gjöra Aroni klæði, svo að hann verði vígður til að þjóna mér í prestsembætti.

Þessi eru klæðin, sem þeir skulu gjöra: Brjóstskjöldur, hökull, möttull, tiglofinn kyrtill, vefjarhöttur og belti. Þeir skulu gjöra Aroni bróður þínum og sonum hans helg klæði, að hann þjóni mér í prestsembætti,

og skulu þeir til þess taka gull, bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og baðmull.

Þeir skulu gjöra hökulinn af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull með forkunnarlegu hagvirki.

Á honum skulu vera tveir axlarhlýrar, festir við báða enda hans, svo að hann verði festur saman.

Og hökullindinn, sem á honum er til að gyrða hann að sér, skal vera með sömu gerð og áfastur honum: af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull.

Því næst skalt þú taka tvo sjóamsteina og grafa á þá nöfn Ísraels sona:

10 Sex af nöfnum þeirra á annan steininn og nöfn hinna sex, er eftir verða, á hinn steininn, eftir aldri þeirra.

11 Þú skalt grafa nöfn Ísraels sona á báða steinana með steinskurði, innsiglisgrefti, og greypa þá inn í umgjarðir af gulli.

12 Og þú skalt festa báða steinana á axlarhlýra hökulsins, að þeir séu minnissteinar Ísraelsmönnum, og skal Aron bera nöfn þeirra frammi fyrir Drottni á báðum öxlum sér, til minningar.

13 Og þú skalt gjöra umgjarðir af gulli

14 og tvær festar af skíru gulli. Þú skalt gjöra þær snúnar sem fléttur, og þú skalt festa þessar fléttuðu festar við umgjarðirnar.

15 Þú skalt og búa til dómskjöld, gjörðan með listasmíði. Skalt þú búa hann til með sömu gerð og hökulinn; af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull skalt þú gjöra hann.

16 Hann skal vera ferhyrndur og tvöfaldur, spannarlangur og spannarbreiður.

17 Þú skalt alsetja hann steinum í fjórum röðum: eina röð af karneól, tópas og smaragði, er það fyrsta röðin;

18 önnur röðin: karbunkull, safír og jaspis;

19 þriðja röðin: hýasint, agat og ametýst;

20 og fjórða röðin: krýsolít, sjóam og ónýx. Þeir skulu greyptir vera í gull, hver á sínum stað.

21 Steinarnir skulu vera tólf, eftir nöfnum Ísraels sona, og vera með nöfnum þeirra. Þeir skulu vera grafnir með innsiglisgrefti, og skal sitt nafn vera á hverjum þeirra, eftir þeim tólf kynkvíslum.

22 Þú skalt gjöra festar til brjóstskjaldarins, snúnar eins og fléttur, af skíru gulli.

23 Þú skalt og gjöra til brjóstskjaldarins tvo hringa af gulli og festa þessa tvo hringa á tvö horn brjóstskjaldarins.

24 Síðan skalt þú festa báðar gullflétturnar í þessa tvo hringa á hornum brjóstskjaldarins.

25 En tvo enda beggja snúnu festanna skalt þú festa við umgjarðirnar tvær og festa þær við axlarhlýra hökulsins, á hann framanverðan.

26 Þá skalt þú enn gjöra tvo hringa af gulli og festa þá í tvö horn brjóstskjaldarins, innanvert í þá brúnina, sem að höklinum veit.

27 Og enn skalt þú gjöra tvo hringa af gulli og festa þá á báða axlarhlýra hökulsins, neðan til á hann framanverðan, þar sem hann er tengdur saman, fyrir ofan hökullindann.

28 Nú skal knýta brjóstskjöldinn með hringum hans við hökulhringana með snúru af bláum purpura, svo að hann liggi fyrir ofan hökullindann, og mun þá eigi brjóstskjöldurinn losna við hökulinn.

29 Aron skal bera nöfn Ísraels sona í dómskildinum á brjósti sér, þegar hann gengur inn í helgidóminn, til stöðugrar minningar frammi fyrir Drottni.

30 Og þú skalt leggja inn í dómskjöldinn úrím og túmmím, svo að það sé á brjósti Arons, þegar hann gengur inn fyrir Drottin, og Aron skal ávallt bera dóm Ísraelsmanna á brjósti sér frammi fyrir Drottni.

31 Hökulmöttulinn skalt þú allan gjöra af bláum purpura.

32 Á honum skal vera hálsmál faldað með ofnum borða, eins og á brynju, svo að ekki rifni út úr.

33 Á faldi hans skalt þú búa til granatepli af bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, á faldi hans allt í kring, og bjöllur af gulli í milli eplanna allt í kring,

34 svo að fyrst komi gullbjalla og granatepli, og þá aftur gullbjalla og granatepli, allt í kring á möttulfaldinum.

35 Í honum skal Aron vera, þegar hann embættar, svo að heyra megi til hans, þegar hann gengur inn í helgidóminn fram fyrir Drottin og þá er hann gengur út, svo að hann deyi ekki.

36 Þú skalt gjöra spöng af skíru gulli og grafa á hana með innsiglisgrefti: ,Helgaður Drottni.`

37 Og þú skalt festa hana á snúru af bláum purpura, og skal hún vera á vefjarhettinum. Framan á vefjarhettinum skal hún vera.

38 Og hún skal vera á enni Arons, svo að Aron taki á sig galla þá, er verða kunna á hinum helgu fórnum, er Ísraelsmenn fram bera, hverjar svo sem helgigjafir þeirra eru. Hún skal ætíð vera á enni hans til þess að gjöra þær velþóknanlegar fyrir Drottni.

39 Þú skalt tiglvefa kyrtilinn af baðmull og gjöra vefjarhött af baðmull og búa til glitofið belti.

40 Þú skalt og gjöra kyrtla handa sonum Arons og búa þeim til belti. Einnig skalt þú gjöra þeim höfuðdúka til vegs og prýði.

41 Þú skalt færa Aron bróður þinn og sonu hans með honum í það, og þú skalt smyrja þá og fylla hendur þeirra og helga þá til að þjóna mér í prestsembætti.

42 Þú skalt og gjöra þeim línbrækur til að hylja með blygðun þeirra. Þær skulu ná frá mjöðmum niður á læri.

43 Í þeim skal Aron og synir hans vera, er þeir ganga inn í samfundatjaldið eða nálgast altarið til að embætta í helgidóminum, að þeir eigi baki sér sekt og deyi. Þetta skal vera ævinlegt lögmál fyrir hann og niðja hans eftir hann.

Jóhannesarguðspjall 7

Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu, sökum þess að Gyðingar sátu um líf hans.

Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin.

Þá sögðu bræður hans við hann: "Flyt þig héðan og farðu til Júdeu, til þess að lærisveinar þínir sjái líka verkin þín, sem þú gjörir.

Því enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur. Fyrst þú vinnur slík verk, þá opinbera sjálfan þig heiminum."

Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann.

Jesús sagði við þá: "Minn tími er ekki enn kominn, en yður hentar allur tími.

Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond.

Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn."

Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu.

10 Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun.

11 Gyðingar voru að leita að honum á hátíðinni og spurðu, hvar hann væri.

12 Manna á meðal var margt um hann talað. Sumir sögðu: "Hann er góður," en aðrir sögðu: "Nei, hann leiðir fjöldann í villu."

13 Þó talaði enginn opinskátt um hann af ótta við Gyðinga.

14 Er hátíðin var þegar hálfnuð, fór Jesús upp í helgidóminn og tók að kenna.

15 Gyðingar urðu forviða og sögðu: "Hvernig hefur þessi maður orðið lærður og hefur þó ekki fræðslu notið?"

16 Jesús svaraði þeim: "Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.

17 Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.

18 Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður og í honum ekkert ranglæti.

19 Gaf Móse yður ekki lögmálið? Samt heldur enginn yðar lögmálið. Hví sitjið þér um líf mitt?"

20 Fólkið ansaði: "Þú ert haldinn illum anda. Hver situr um líf þitt?"

21 Jesús svaraði þeim: "Eitt verk gjörði ég, og þér undrist það allir.

22 Móse gaf yður umskurnina _ hún er að vísu ekki frá Móse, heldur feðrunum _ og þér umskerið mann jafnvel á hvíldardegi.

23 Fyrst maður er umskorinn á hvíldardegi, til þess að lögmál Móse verði ekki brotið, hví reiðist þér mér, að ég gjörði manninn allan heilan á hvíldardegi?

24 Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm."

25 Þá sögðu nokkrir Jerúsalembúar: "Er þetta ekki sá, sem þeir sitja um að lífláta?

26 Og nú er hann að tala á almannafæri, og þeir segja ekkert við hann. Skyldu nú höfðingjarnir hafa komist að raun um, að hann sé Kristur?

27 Nei, vér vitum, hvaðan þessi maður er. Þegar Kristur kemur, veit enginn, hvaðan hann er."

28 Jesús var að kenna í helgidóminum, og nú kallaði hann: "Bæði þekkið þér mig og vitið hvaðan ég er. Þó er ég ekki kominn af sjálfum mér. En sá er sannur, sem sendi mig, og hann þekkið þér ekki.

29 Ég þekki hann, því ég er frá honum og hann sendi mig."

30 Nú ætluðu þeir að grípa hann, en enginn lagði hendur á hann, því stund hans var enn ekki komin.

31 En af alþýðu manna tóku margir að trúa á hann og sögðu: "Mun Kristur gjöra fleiri tákn, þegar hann kemur, en þessi maður hefur gjört?"

32 Farísear heyrðu, að fólk var að skrafa þetta um hann, og æðstu prestar og farísear sendu þjóna að taka hann höndum.

33 Þá sagði Jesús: "Enn verð ég hjá yður skamma stund, og þá fer ég aftur til þess, sem sendi mig.

34 Þér munuð leita mín og eigi finna. Þér getið ekki komist þangað sem ég er."

35 Þá sögðu Gyðingar sín á milli: "Hvert skyldi hann ætla að fara, svo að vér finnum hann ekki? Hann ætlar þó ekki að fara til Gyðinga, sem dreifðir eru meðal Grikkja og kenna Grikkjum?

36 Hvað var hann að segja: ,Þér munuð leita mín og eigi finna, og þér getið ekki komist þangað sem ég er`?"

37 Síðasta daginn, hátíðardaginn mikla, stóð Jesús þar og kallaði: "Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki.

38 Sá sem trúir á mig, _ frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir."

39 Þarna átti hann við andann, er þeir skyldu hljóta, sem á hann trúa. Því enn var andinn ekki gefinn, þar eð Jesús var ekki enn dýrlegur orðinn.

40 Þá sögðu nokkrir úr mannfjöldanum, sem hlýddu á þessi orð: "Þessi er sannarlega spámaðurinn."

41 Aðrir mæltu: "Hann er Kristur." En sumir sögðu: "Mundi Kristur þá koma frá Galíleu?

42 Hefur ekki ritningin sagt, að Kristur komi af kyni Davíðs og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var?"

43 Þannig greindi menn á um hann.

44 Nokkrir þeirra vildu grípa hann, en þó lagði enginn hendur á hann.

45 Nú komu þjónarnir til æðstu prestanna og faríseanna, sem sögðu við þá: "Hvers vegna komuð þér ekki með hann?"

46 Þjónarnir svöruðu: "Aldrei hefur nokkur maður talað þannig."

47 Þá sögðu farísearnir: "Létuð þér þá einnig leiðast afvega?

48 Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum?

49 Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!"

50 Nikódemus, sem kom til hans fyrrum og var einn af þeim, segir við þá:

51 "Mundi lögmál vort dæma mann, nema hann sé yfirheyrður áður og að því komist, hvað hann hefur aðhafst?"

52 Þeir svöruðu honum: "Ert þú nú líka frá Galíleu? Gáðu að og sjáðu, að enginn spámaður kemur úr Galíleu."

53 [Nú fór hver heim til sín.

Orðskviðirnir 4

Heyrið, synir, áminning föður yðar og hlýðið til, svo að þér lærið hyggindi!

Því að góðan lærdóm gef ég yður, hafnið eigi kenning minni!

Þegar ég var sonur í föðurhúsum, viðkvæmt einkabarn heima hjá móður minni,

þá kenndi faðir minn mér og sagði við mig: "Hjarta þitt haldi fast orðum mínum, varðveit þú boðorð mín, og muntu lifa!

Afla þér visku, afla þér hygginda! Gleym eigi og vík eigi frá orðum munns míns!

Hafna henni eigi, þá mun hún varðveita þig, elska hana, þá mun hún vernda þig.

Upphaf viskunnar er: afla þér visku, afla þér hygginda fyrir allar eigur þínar!

Haf hana í hávegum, þá mun hún hefja þig, hún mun koma þér til vegs, ef þú umfaðmar hana.

Hún mun setja yndislegan sveig á höfuð þér, sæma þig prýðilegri kórónu."

10 Heyr þú, son minn, og veit viðtöku orðum mínum, þá munu æviár þín mörg verða.

11 Ég vísa þér veg spekinnar, leiði þig á brautir ráðvendninnar.

12 Gangir þú þær, skal leið þín ekki verða þröng, og hlaupir þú, skalt þú ekki hrasa.

13 Haltu fast í agann, slepptu honum ekki, varðveittu hann, því að hann er líf þitt.

14 Kom þú eigi á götu óguðlegra og gakk eigi á vegi vondra manna.

15 Sneið hjá honum, farðu hann ekki, snú þú frá honum og farðu fram hjá.

16 Því að þeir geta ekki sofið, nema þeir hafi gjört illt, og þeim kemur ekki dúr á auga, nema þeir hafi fellt einhvern.

17 Því að þeir eta glæpabrauð og drekka ofbeldisvín.

18 Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.

19 Vegur óguðlegra er eins og niðamyrkur, þeir vita ekki, um hvað þeir hrasa.

20 Son minn, gef gaum að ræðu minni, hneig eyra þitt að orðum mínum.

21 Lát þau eigi víkja frá augum þínum, varðveit þau innst í hjarta þínu.

22 Því að þau eru líf þeirra, er öðlast þau, og lækning fyrir allan líkama þeirra.

23 Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.

24 Haltu fláræði munnsins burt frá þér og lát fals varanna vera fjarri þér.

25 Augu þín líti beint fram og augnalok þín horfi beint fram undan þér.

26 Gjör braut fóta þinna slétta, og allir vegir þínir séu staðfastir.

27 Vík hvorki til hægri né vinstri, haltu fæti þínum burt frá illu.

Bréf Páls til Galatamanna 3

Þér óskynsömu Galatar! Hver hefur töfrað yður? Þér hafið þó fengið skýra mynd af Jesú Kristi á krossinum, málaða fyrir augum yðar.

Um þetta eitt vil ég fræðast af yður: Öðluðust þér andann fyrir lögmálsverk eða við að hlýða á fagnaðarerindið og trúa?

Eruð þér svo óskynsamir? Þér sem byrjuðuð í anda, ætlið þér nú að enda í holdi?

Hafið þér til einskis reynt svo mikið? _ ef það þá er til einskis!

Hvað um það, _ sá sem veitir yður andann og framkvæmir máttarverk meðal yðar, gjörir hann það vegna lögmálsverka yðar eða vegna þess að þér heyrið og trúið?

Svo var og um Abraham, "hann trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað."

Þér sjáið þá, að þeir sem byggja á trúnni, þeir eru einmitt synir Abrahams.

Ritningin sá það fyrir, að Guð mundi réttlæta heiðingjana fyrir trú, og því boðaði hún Abraham fyrirfram þann fagnaðarboðskap: "Af þér skulu allar þjóðir blessun hljóta."

Þannig hljóta þeir, sem byggja á trúnni, blessun ásamt hinum trúaða Abraham.

10 En bölvun hvílir á öllum þeim, sem byggja á lögmálsverkum, því að ritað er: "Bölvaður er sá, sem ekki heldur fast við allt það, sem í lögmálsbókinni er ritað, og breytir eftir því."

11 En það er augljóst að fyrir Guði réttlætist enginn með lögmáli, því að "hinn réttláti mun lifa fyrir trú."

12 En lögmálið spyr ekki um trú. Það segir: "Sá, sem breytir eftir boðum þess, mun lifa fyrir þau."

13 Kristur keypti oss undan bölvun lögmálsins með því að verða bölvun fyrir oss, því að ritað er: "Bölvaður er hver sá, sem á tré hangir."

14 Þannig skyldi heiðingjunum hlotnast blessun Abrahams í Kristi Jesú, og vér öðlast fyrir trúna andann, sem fyrirheitið var.

15 Bræður, ég tek dæmi úr mannlegu lífi: Enginn ónýtir eða eykur við staðfesta arfleiðsluskrá, enda þótt hún sé aðeins af manni gjörð.

16 Nú voru fyrirheitin gefin Abraham og afkvæmi hans, _ þar stendur ekki "og afkvæmum", eins og margir ættu í hlut, heldur "og afkvæmi þínu", eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur.

17 Með þessu vildi ég sagt hafa: Sáttmála, sem áður var staðfestur af Guði, getur lögmálið, sem kom fjögur hundruð og þrjátíu árum síðar, ekki ónýtt, svo að það felli fyrirheitið úr gildi.

18 Sé því þá svo farið, að arfurinn fáist með lögmáli, þá fæst hann ekki framar með fyrirheiti, en Guð veitti Abraham náð sína með fyrirheiti.

19 Hvað er þá lögmálið? Vegna afbrotanna var því bætt við, þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um. Fyrir umsýslan engla er það til orðið, fyrir tilstilli meðalgangara.

20 En meðalgangara gjörist ekki þörf þar sem einn á í hlut, en Guð er einn.

21 Er þá lögmálið gegn fyrirheitum Guðs? Fjarri fer því. Ef vér hefðum fengið lögmál, sem veitt gæti líf, þá fengist réttlætið vissulega með lögmáli.

22 En ritningin segir, að allt sé hneppt undir vald syndarinnar, til þess að fyrirheitið veitist þeim, sem trúa, fyrir trú á Jesú Krist.

23 Áður en trúin kom, vorum vér í gæslu lögmálsins innilokaðir, þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist.

24 Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú.

25 En nú, eftir að trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara.

26 Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú.

27 Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi.

28 Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.

29 En ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society