M’Cheyne Bible Reading Plan
29 Þannig skalt þú að fara, er þú vígir þá til þess að þjóna mér í prestsembætti: Tak eitt ungneyti og tvo hrúta gallalausa,
2 ósýrt brauð og ósýrðar kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð. Skalt þú gjöra þau af fínu hveitimjöli.
3 Því næst skalt þú láta þau í eina körfu og koma með þau í körfunni, ásamt uxanum og báðum hrútunum.
4 Þú skalt koma með Aron og sonu hans að dyrum samfundatjaldsins og lauga þá í vatni.
5 Síðan skalt þú taka klæðin og skrýða Aron kyrtlinum, hökulmöttlinum, höklinum og brjóstskildinum, og gyrða hann hökullindanum.
6 Þá skalt þú setja vefjarhöttinn á höfuð honum og festa hið heilaga ennishlað á vefjarhöttinn.
7 Þá skalt þú taka smurningarolíuna og hella henni yfir höfuð honum og smyrja hann.
8 Síðan skalt þú leiða fram sonu hans og færa þá í kyrtla,
9 gyrða þá beltum, bæði Aron og sonu hans, og binda á þá höfuðdúka, að þeir hafi prestdóm eftir ævarandi lögmáli, og þú skalt fylla hönd Arons og hönd sona hans.
10 Síðan skalt þú leiða uxann fram fyrir samfundatjaldið, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð uxanum.
11 En þú skalt slátra uxanum frammi fyrir Drottni, fyrir dyrum samfundatjaldsins.
12 Síðan skalt þú taka nokkuð af blóði uxans og ríða því á altarishornin með fingri þínum, en öllu hinu blóðinu skalt þú hella niður við altarið.
13 Og þú skalt taka alla netjuna, er hylur iðrin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og brenna á altarinu.
14 En kjöt uxans, húðina og gorið skalt þú brenna í eldi fyrir utan herbúðirnar. Það er syndafórn.
15 Því næst skalt þú taka annan hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins.
16 Síðan skalt þú slátra hrútnum, taka blóð hans og stökkva því allt um kring á altarið.
17 En hrútinn skalt þú hluta í sundur, þvo innýfli hans og fætur og leggja það ofan á hin stykkin og höfuðið.
18 Skalt þú síðan brenna allan hrútinn á altarinu. Það er brennifórn Drottni til handa, þægilegur ilmur; það er eldfórn Drottni til handa.
19 Þessu næst skalt þú taka hinn hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins.
20 En þú skalt slátra hrútnum og taka nokkuð af blóði hans og ríða því á hægri eyrnasnepil Arons og hægri eyrnasnepil sona hans og á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra og stökkva blóðinu allt um kring á altarið.
21 Þú skalt taka nokkuð af blóði því, sem er á altarinu, og nokkuð af smurningarolíunni og stökkva því á Aron og klæði hans, og á sonu hans og klæði sona hans ásamt honum, og verður hann þá helgaður og klæði hans, og synir hans og klæði sona hans ásamt honum.
22 Síðan skalt þú taka feitina af hrútnum: rófuna, netjuna, er hylur iðrin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið _ því að þetta er vígsluhrútur _,
23 einn brauðhleif, eina olíuköku og eitt flatbrauð úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stendur frammi fyrir Drottni.
24 Allt þetta skalt þú leggja í hendur Aroni og í hendur sonum hans og veifa því sem veififórn frammi fyrir Drottni.
25 Síðan skalt þú taka það af höndum þeirra og brenna það á altarinu ofan á brennifórninni til þægilegs ilms frammi fyrir Drottni. Það er eldfórn Drottni til handa.
26 Því næst skalt þú taka bringuna af vígsluhrút Arons og veifa henni sem veififórn frammi fyrir Drottni. Hún skal koma í þinn hlut.
27 Þú skalt helga veififórnarbringuna og lyftifórnarlærið, sem veifað og lyft hefir verið, af vígsluhrútnum, bæði Arons og sona hans.
28 Og skal Aron og synir hans fá það hjá Ísraelsmönnum eftir ævarandi lögmáli, því að það er fórnargjöf, og sem fórnargjöf skulu Ísraelsmenn fram bera það af þakkarfórnum sínum, sem fórnargjöf þeirra til Drottins.
29 Hin helgu klæði Arons skulu synir hans fá eftir hann, svo að þeir verði smurðir í þeim og hendur þeirra verði fylltar í þeim.
30 Sá af sonum hans, sem prestur verður í hans stað, skal sjö daga skrýðast þeim, er hann gengur inn í samfundatjaldið til að embætta í helgidóminum.
31 Þú skalt taka vígsluhrútinn og sjóða kjöt hans á helgum stað,
32 og skulu þeir Aron og synir hans eta kjöt hrútsins og brauðið, sem er í körfunni, fyrir dyrum samfundatjaldsins.
33 Og þeir skulu eta þetta, sem friðþægt var með, er hendur þeirra voru fylltar og þeir helgaðir. En óvígður maður má eigi neyta þess, því að það er helgað.
34 En verði nokkrar leifar af vígslukjötinu og brauðinu til næsta morguns, þá skalt þú brenna þær leifar í eldi. Það má ekki eta, því að það er helgað.
35 Þú skalt svo gjöra við Aron og sonu hans í alla staði, eins og ég hefi boðið þér. Í sjö daga skalt þú fylla hendur þeirra,
36 og á hverjum degi skalt þú slátra uxa í syndafórn til friðþægingar og syndhreinsa altarið, er þú friðþægir fyrir það, og skalt þú þá smyrja það til þess að helga það.
37 Í sjö daga skalt þú friðþægja fyrir altarið og helga það, og skal þá altarið verða háheilagt. Hver sá, er snertir altarið, skal vera helgaður.
38 Þetta er það, sem þú skalt fórna á altarinu: tvö lömb veturgömul dag hvern stöðuglega.
39 Öðru lambinu skalt þú fórna að morgni dags, en hinu lambinu skalt þú fórna um sólsetur.
40 Með öðru lambinu skal hafa tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við fjórðung úr hín af olíu úr steyttum olífuberjum, og til dreypifórnar fjórðung úr hín af víni.
41 Hinu lambinu skalt þú fórna um sólsetur, og hafa við sömu matfórn og dreypifórn sem um morguninn, til þægilegs ilms, til eldfórnar fyrir Drottin.
42 Skal það vera stöðug brennifórn hjá yður frá kyni til kyns fyrir dyrum samfundatjaldsins í augsýn Drottins. Þar vil ég eiga samfundi við yður til að tala þar við þig,
43 og þar vil ég eiga samfundi við Ísraelsmenn, og það skal helgast af minni dýrð.
44 Ég vil helga samfundatjaldið og altarið; Aron og sonu hans vil ég og helga, að þeir þjóni mér í prestsembætti.
45 Ég vil búa á meðal Ísraelsmanna og vera þeirra Guð.
46 Og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð þeirra, sem leiddi þá út af Egyptalandi, til þess að ég mætti búa meðal þeirra. Ég er Drottinn, Guð þeirra.
8 En Jesús fór til Olíufjallsins.
2 Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim.
3 Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra
4 og sögðu við hann: "Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór.
5 Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?"
6 Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.
7 Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: "Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana."
8 Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina.
9 Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum.
10 Hann rétti sig upp og sagði við hana: "Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?"
11 En hún sagði: "Enginn, herra." Jesús mælti: "Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar."]
12 Nú talaði Jesús aftur til þeirra og sagði: "Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins."
13 Þá sögðu farísear við hann: "Þú vitnar um sjálfan þig. Vitnisburður þinn er ekki gildur."
14 Jesús svaraði þeim: "Enda þótt ég vitni um sjálfan mig, er vitnisburður minn gildur, því ég veit hvaðan ég kom og hvert ég fer. En þér vitið ekki, hvaðan ég kem né hvert ég fer.
15 Þér dæmið að hætti manna. Ég dæmi engan.
16 En ef ég dæmi, er dómur minn réttur, því ég er ekki einn, með mér er faðirinn, sem sendi mig.
17 Og í lögmáli yðar er ritað, að vitnisburður tveggja manna sé gildur.
18 Ég er sá, sem vitna um sjálfan mig, og faðirinn, sem sendi mig, vitnar um mig."
19 Þeir sögðu við hann: "Hvar er faðir þinn?" Jesús svaraði: "Hvorki þekkið þér mig né föður minn. Ef þér þekktuð mig, þá þekktuð þér líka föður minn."
20 Þessi orð mælti Jesús hjá fjárhirslunni, þegar hann var að kenna í helgidóminum. Enginn lagði hendur á hann, því stund hans var ekki enn komin.
21 Enn sagði hann við þá: "Ég fer burt, og þér munuð leita mín, en þér munuð deyja í synd yðar. Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist."
22 Nú sögðu Gyðingar: "Mun hann ætla að fyrirfara sér, fyrst hann segir: ,Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist`?"
23 En hann sagði við þá: "Þér eruð neðan að, ég er ofan að. Þér eruð af þessum heimi, ég er ekki af þessum heimi.
24 Þess vegna sagði ég yður, að þér munduð deyja í syndum yðar. Því ef þér trúið ekki, að ég sé sá sem ég er, munuð þér deyja í syndum yðar."
25 Þeir spurðu hann þá: "Hver ert þú?" Jesús svaraði þeim: "Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi.
26 Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig, er sannur, og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins."
27 Þeir skildu ekki, að hann var að tala við þá um föðurinn.
28 Því sagði Jesús: "Þegar þér hefjið upp Mannssoninn, munuð þér skilja, að ég er sá sem ég er, og að ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.
29 Og sá sem sendi mig, er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan, því ég gjöri ætíð það sem honum þóknast."
30 Þegar hann mælti þetta, fóru margir að trúa á hann.
31 Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: "Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir
32 og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa."
33 Þeir svöruðu honum: "Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: ,Þér munuð verða frjálsir`?"
34 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar.
35 En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi.
36 Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir.
37 Ég veit, að þér eruð niðjar Abrahams. Þó leitist þér við að lífláta mig, því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður.
38 Ég tala það, sem ég hef séð hjá föður mínum, og þér gjörið það, sem þér hafið heyrt hjá föður yðar."
39 Þeir svöruðu honum: "Faðir vor er Abraham." Jesús segir við þá: "Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams.
40 En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei.
41 Þér vinnið verk föður yðar." Þeir sögðu við hann: "Vér erum ekki hórgetnir. Einn föður eigum vér, Guð."
42 Jesús svaraði: "Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig.
43 Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt.
44 Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.
45 En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki.
46 Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki?
47 Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði."
48 Gyðingar svöruðu honum: "Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?"
49 Jesús ansaði: "Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig.
50 Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til, sem leitar hans og dæmir.
51 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja."
52 Þá sögðu Gyðingar við hann: "Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja.
53 Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?"
54 Jesús svaraði: "Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar.
55 Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans.
56 Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist."
57 Nú sögðu Gyðingar við hann: "Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!"
58 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég."
59 Þá tóku þeir upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum.
5 Son minn, gef gaum að speki minni, hneig eyra þitt að hyggindum mínum,
2 til þess að þú megir varðveita mannvit og varir þínar geymi þekkingu.
3 Því að hunangsseimur drýpur af vörum lauslátrar konu, og gómur hennar er hálli en olía.
4 En að síðustu er hún beiskari en malurt, beitt eins og tvíeggjað sverð.
5 Fætur hennar ganga niður til dauðans, spor hennar liggja til Heljar.
6 Til þess að hún hitti ekki leið lífsins, eru brautir hennar á reiki, og hún veit ekki hvert hún fer.
7 Heyrið mig því, synir, og víkið eigi frá orðum munns míns.
8 Legg leið þína langt frá henni og kom þú ekki nálægt húsdyrum hennar,
9 svo að þú gefir ekki öðrum æskublóma þinn og ár þín grimmum manni,
10 svo að útlendir menn mettist ekki af eigum þínum og aflafé þitt lendi ekki í annarlegu húsi,
11 og þú andvarpir að lokum, þá er líkami þinn og hold veslast upp,
12 og segir: "Hversu hefi ég hatað aga og hjarta mitt fyrirlitið umvöndun!
13 að ég skyldi ekki hlýða raustu kennara minna og hneigja eyra mitt til þeirra, er fræddu mig!
14 Við sjálft lá, að ég hefði ratað í mestu ógæfu á miðju dómþingi safnaðarins."
15 Drekk þú vatn úr vatnsþró þinni og rennandi vatn úr brunni þínum.
16 Eiga lindir þínar að flóa út á götuna, lækir þínir út á torgin?
17 Þér einum skulu þær tilheyra og engum óviðkomandi með þér.
18 Uppspretta þín sé blessuð, og gleð þig yfir festarmey æsku þinnar,
19 elsku-hindinni, yndis-gemsunni. Brjóst hennar gjöri þig ætíð drukkinn, og ást hennar fjötri þig ævinlega.
20 En hví skyldir þú, son minn, láta léttúðarkonu töfra þig, og faðma barm lauslátrar konu?
21 Því að vegir sérhvers manns blasa við Drottni, og allar brautir hans gjörir hann sléttar.
22 Misgjörðir hins óguðlega fanga hann, og hann verður veiddur í snörur synda sinna.
23 Hann mun deyja vegna skorts á aga og kollsteypast vegna sinnar miklu heimsku.
4 Með öðrum orðum: Alla þá stund, sem erfinginn er ófullveðja, er enginn munur á honum og þræli, þótt hann eigi allt.
2 Hann er undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum til þess tíma, er faðirinn hefur ákveðið.
3 Þannig vorum vér einnig, er vér vorum ófullveðja, þrælbundnir undir heimsvættirnar.
4 En þegar fylling tímans kom, sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli, _
5 til þess að hann keypti lausa þá, sem voru undir lögmáli, _ og vér fengjum barnaréttinn.
6 En þar eð þér eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu vor, sem hrópar: "Abba, faðir!"
7 Þú ert þá ekki framar þræll, heldur sonur. En ef þú ert sonur, þá ert þú líka erfingi að ráði Guðs.
8 Forðum, er þér þekktuð ekki Guð, þá voruð þér þrælar þeirra, sem í eðli sínu eru ekki guðir.
9 En nú, eftir að þér þekkið Guð, eða réttara sagt, eftir að Guð þekkir yður, hvernig getið þér snúið aftur til hinna veiku og fátæklegu vætta? Viljið þér þræla undir þeim að nýju?
10 Þér hafið gætur á dögum og mánuðum, vissum tíðum og árum.
11 Ég er hræddur um yður, að ég kunni að hafa haft erfiði fyrir yður til ónýtis.
12 Ég bið yður, bræður: Verðið eins og ég, því að ég er orðinn eins og þér. Í engu hafið þér gjört á hluta minn.
13 Þér vitið, að sjúkleiki minn varð tilefni til þess, að ég fyrst boðaði yður fagnaðarerindið.
14 En þér létuð ekki líkamsásigkomulag mitt verða yður til ásteytingar og óvirtuð mig ekki né sýnduð mér óbeit, heldur tókuð þér á móti mér eins og engli Guðs, eins og Kristi Jesú sjálfum.
15 Hvað er nú orðið úr blessunarbænum yðar? Það vitni ber ég yður, að augun hefðuð þér stungið úr yður og gefið mér, ef auðið hefði verið.
16 Er ég þá orðinn óvinur yðar, vegna þess að ég segi yður sannleikann?
17 Þeir láta sér annt um yður, en það er eigi af góðu, heldur vilja þeir einangra yður, til þess að þér látið yður annt um þá.
18 Það er ávallt gott að láta sér annt um það, sem gott er, og ekki aðeins meðan ég er hjá yður,
19 börn mín, sem ég að nýju el með harmkvælum, þangað til Kristur er myndaður í yður!
20 Ég vildi ég væri nú hjá yður og gæti talað nýjum rómi, því að ég er ráðalaus með yður.
21 Segið mér, þér sem viljið vera undir lögmáli, heyrið þér ekki hvað lögmálið segir?
22 Ritað er, að Abraham átti tvo sonu, annan við ambáttinni, en hinn við frjálsu konunni.
23 Sonurinn við ambáttinni var fæddur á náttúrlegan hátt, en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur samkvæmt fyrirheiti.
24 Þetta hefur óeiginlega merkingu: Konurnar merkja tvo sáttmála: Annar er sá frá Sínaífjalli og elur börn til ánauðar, það er Hagar;
25 en Hagar merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem, því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum.
26 En Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor,
27 því að ritað er: Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefur átt! Hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefur jóðsjúk orðið! Því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri en hinnar, sem manninn á.
28 En þér, bræður, eruð fyrirheits börn eins og Ísak.
29 En eins og sá, sem fæddur var á náttúrlegan hátt, ofsótti forðum þann, sem fæddur var á undursamlegan hátt, svo er það og nú.
30 En hvað segir ritningin? "Rek burt ambáttina og son hennar, því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar."
31 Þess vegna, bræður, erum vér ekki ambáttar börn, heldur börn frjálsu konunnar.
by Icelandic Bible Society