M’Cheyne Bible Reading Plan
25 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Seg Ísraelsmönnum að þeir færi mér gjafir. Af hverjum þeim manni skuluð þér gjöf taka mér til handa, sem gefur hana af fúsum huga.
3 Og þessar eru gjafir þær, sem þér skuluð af þeim taka: gull, silfur og eir;
4 blár purpuri, rauður purpuri, skarlat, baðmull og geitahár;
5 rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuviður;
6 olía til ljósastikunnar, kryddjurtir til ilmsmyrsla og ilmreykelsis;
7 sjóamsteinar og steinar til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn.
8 Og þeir skulu gjöra mér helgidóm, að ég búi mitt á meðal þeirra.
9 Þér skuluð gjöra hann í öllum greinum eftir þeirri fyrirmynd af tjaldbúðinni og eftir þeirri fyrirmynd af öllum áhöldum hennar, sem ég mun sýna þér.
10 Þeir skulu gjöra örk af akasíuviði. Hún skal vera hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð.
11 Hana skaltu leggja skíru gulli, innan og utan skaltu gullleggja hana, og umhverfis á henni skaltu gjöra brún af gulli.
12 Þú skalt steypa til arkarinnar fjóra hringa af gulli og festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin.
13 Þú skalt gjöra stengur af akasíuviði og gullleggja þær.
14 Síðan skalt þú smeygja stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera megi örkina á þeim.
15 Skulu stengurnar vera kyrrar í hringum arkarinnar, eigi má taka þær þaðan.
16 Og þú skalt leggja niður í örkina sáttmálið, er ég mun fá þér í hendur.
17 Þú skalt og gjöra lok af skíru gulli. Skal það vera hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd.
18 Og þú skalt gjöra tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði skalt þú gjöra þá á hvorum tveggja loksendanum.
19 Og lát annan kerúbinn vera á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Þú skalt gjöra kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess.
20 En kerúbarnir skulu breiða út vængina uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa.
21 Þú skalt setja lokið ofan yfir örkina, og niður í örkina skalt þú leggja sáttmálið, sem ég mun fá þér.
22 Og þar vil ég eiga samfundi við þig og birta þér ofan af arkarlokinu millum beggja kerúbanna, sem standa á sáttmálsörkinni, allt það, er ég býð þér að flytja Ísraelsmönnum.
23 Þú skalt og gjöra borð af akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og hálfa aðra alin á hæð.
24 Þú skalt leggja það skíru gulli og gjöra umhverfis á því brún af gulli.
25 Umhverfis það skalt þú gjöra lista þverhandar breiðan og búa til brún af gulli umhverfis á listanum.
26 Þá skalt þú gjöra til borðsins fjóra hringa af gulli og setja hringana í fjögur hornin, sem eru á fjórum fótum borðsins.
27 Skulu hringarnir vera fast upp við listann, svo að í þá verði smeygt stöngum til þess að bera borðið.
28 Stengurnar skalt þú gjöra af akasíuviði og gullleggja þær. Á þeim skal borðið bera.
29 Og þú skalt gjöra föt þau, sem borðinu tilheyra, skálar og bolla, og ker þau, sem til dreypifórnar eru höfð. Af skíru gulli skalt þú gjöra þau.
30 En á borðið skalt þú ætíð leggja skoðunarbrauð frammi fyrir mér.
31 Enn fremur skalt þú ljósastiku gjöra af skíru gulli. Með drifnu smíði skal ljósastikan gjör, stétt hennar og leggur. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, skulu vera samfastir henni.
32 Og sex álmur skulu liggja út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar.
33 Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo skal vera á öllum sex álmunum, sem út ganga frá ljósastikunni.
34 Og á sjálfri ljósastikunni skulu vera fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm:
35 einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo undir sex álmunum, er út ganga frá ljósastikunni.
36 Knapparnir og álmurnar skulu vera samfastar henni. Allt skal það gjört með drifnu smíði af skíru gulli.
37 Þú skalt gjöra lampa hennar sjö og skalt svo upp setja lampana, að þeir beri birtu yfir svæðið fyrir framan hana.
38 Ljósasöx og skarpönnur, sem ljósastikunni fylgja, skulu vera af skíru gulli.
39 Af einni talentu skíragulls skal hana gjöra með öllum þessum áhöldum.
40 Og sjá svo til, að þú gjörir þessa hluti eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu.
4 Er Jesús varð þess vís, að farísear hefðu heyrt, að hann fengi fleiri lærisveina og skírði fleiri en Jóhannes,
2 _ reyndar skírði Jesús ekki sjálfur, heldur lærisveinar hans _
3 þá hvarf hann brott úr Júdeu og hélt aftur til Galíleu.
4 Hann varð að fara um Samaríu.
5 Nú kemur hann til borgar í Samaríu, er Síkar heitir, nálægt þeirri landspildu, sem Jakob gaf Jósef syni sínum.
6 Þar var Jakobsbrunnur. Jesús var vegmóður, og settist hann þarna við brunninn. Þetta var um hádegisbil.
7 Samversk kona kemur að sækja vatn. Jesús segir við hana: "Gef mér að drekka."
8 En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina að kaupa vistir.
9 Þá segir samverska konan við hann: "Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?" [En Gyðingar hafa ekki samneyti við Samverja.]
10 Jesús svaraði henni: "Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir, hver sá er, sem segir við þig: ,Gef mér að drekka,` þá mundir þú biðja hann, og hann gæfi þér lifandi vatn."
11 Hún segir við hann: "Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með, og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn?
12 Ertu meiri en Jakob forfaðir vor, sem gaf oss brunninn og drakk sjálfur úr honum og synir hans og fénaður?"
13 Jesús svaraði: "Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta,
14 en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs."
15 Þá segir konan við hann: "Herra, gef mér þetta vatn, svo að mig þyrsti ekki og ég þurfi ekki að fara hingað að ausa."
16 Hann segir við hana: "Farðu, kallaðu á manninn þinn, og komdu hingað."
17 Konan svaraði: "Ég á engan mann." Jesús segir við hana: "Rétt er það, að þú eigir engan mann,
18 því þú hefur átt fimm menn, og sá sem þú átt nú, er ekki þinn maður. Þetta sagðir þú satt."
19 Konan segir við hann: "Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður.
20 Feður vorir hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli, en þér segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli."
21 Jesús segir við hana: "Trú þú mér, kona. Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem.
22 Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum.
23 En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann.
24 Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika."
25 Konan segir við hann: "Ég veit, að Messías kemur _ það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt."
26 Jesús segir við hana: "Ég er hann, ég sem við þig tala."
27 Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því, að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: "Hvað viltu?" eða: "Hvað ertu að tala við hana?"
28 Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn:
29 "Komið og sjáið mann, er sagði mér allt, sem ég hef gjört. Skyldi hann vera Kristur?"
30 Þeir fóru úr borginni og komu til hans.
31 Meðan þessu fór fram, báðu lærisveinarnir hann: "Rabbí, fá þér að eta."
32 Hann svaraði þeim: "Ég hef mat að eta, sem þér vitið ekki um."
33 Þá sögðu lærisveinarnir sín á milli: "Skyldi nokkur hafa fært honum að eta?"
34 Jesús sagði við þá: "Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.
35 Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru.
36 Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker.
37 Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp.
38 Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra."
39 Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar, sem vitnaði um það, að hann hefði sagt henni allt, sem hún hafði gjört.
40 Þegar því Samverjarnir komu til hans, báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga.
41 Og miklu fleiri tóku trú, þegar þeir heyrðu hann sjálfan.
42 Þeir sögðu við konuna: "Það er ekki lengur sakir orða þinna, að vér trúum, því að vér höfum sjálfir heyrt hann og vitum, að hann er sannarlega frelsari heimsins."
43 Eftir þessa tvo daga fór hann þaðan til Galíleu.
44 En sjálfur hafði Jesús sagt, að spámaður væri ekki metinn í föðurlandi sínu.
45 Þegar hann kom nú til Galíleu, tóku Galíleumenn honum vel, þar eð þeir höfðu séð allt sem hann gjörði á hátíðinni í Jerúsalem, enda höfðu þeir sjálfir sótt hátíðina.
46 Nú kom hann aftur til Kana í Galíleu, þar sem hann hafði gjört vatn að víni. Í Kapernaum var konungsmaður nokkur, sem átti sjúkan son.
47 Þegar hann frétti, að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu, fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona.
48 Þá sagði Jesús við hann: "Þér trúið ekki, nema þér sjáið tákn og stórmerki."
49 Konungsmaður bað hann: "Herra, kom þú áður en barnið mitt andast."
50 Jesús svaraði: "Far þú, sonur þinn lifir." Maðurinn trúði því orði, sem Jesús mælti til hans, og fór af stað.
51 En meðan hann var á leiðinni ofan eftir, mættu honum þjónar hans og sögðu, að sonur hans væri á lífi.
52 Hann spurði þá, hvenær honum hefði farið að létta, og þeir svöruðu: "Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum."
53 Þá sá faðirinn, að það var á þeirri stundu, þegar Jesús hafði sagt við hann: "Sonur þinn lifir." Og hann tók trú og allt hans heimafólk.
54 Þetta var annað táknið, sem Jesús gjörði, þegar hann kom frá Júdeu til Galíleu.
1 Orðskviðir Salómons Davíðssonar, Ísraels konungs,
2 til þess að menn kynnist visku og aga, læri að skilja skynsamleg orð,
3 til þess að menn fái viturlegan aga, réttlæti, réttvísi og ráðvendni,
4 til þess að þeir veiti hinum óreyndu hyggindi, unglingum þekking og aðgætni, _
5 hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni nemur hollar lífsreglur _
6 til þess að menn skilji orðskviði og líkingamál, orð spekinganna og gátur þeirra.
7 Ótti Drottins er upphaf þekkingar, visku og aga fyrirlíta afglapar einir.
8 Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar,
9 því að þær eru yndislegur sveigur á höfði þér og men um háls þinn.
10 Son minn, þegar skálkar ginna þig, þá gegn þeim eigi.
11 Þegar þeir segja: "Kom með oss! Leggjumst í launsátur til manndrápa, sitjum án saka um saklausan mann,
12 gleypum þá lifandi eins og Hel _ með húð og hári, eins og þá sem farnir eru til dánarheima.
13 Alls konar dýra muni munum vér eignast, fylla hús vor rændum fjármunum.
14 Þú skalt taka jafnan hlut með oss, einn sjóð skulum vér allir hafa" _
15 son minn, þá haf ekki samleið við þá, halt fæti þínum frá stigum þeirra.
16 Því að fætur þeirra eru skjótir til ills og fljótir til að úthella blóði.
17 Því að til einskis þenja menn út netið í augsýn allra fleygra fugla,
18 og slíkir menn sitja um sitt eigið líf, liggja í launsátri fyrir sjálfum sér.
19 Þannig fer öllum þeim, sem fíknir eru í rangfenginn gróða: fíknin verður þeim að fjörlesti.
20 Spekin kallar hátt á strætunum, lætur rödd sína gjalla á torgunum.
21 Hún hrópar á glaummiklum gatnamótum, við borgarhliðin heldur hún tölur sínar:
22 Hversu lengi ætlið þér, fávísir, að elska fávísi og hinir háðgjörnu að hafa yndi af háði og heimskingjarnir að hata þekkingu?
23 Snúist til umvöndunar minnar, sjá, ég læt anda minn streyma yfir yður, kunngjöri yður orð mín.
24 En af því að þér færðust undan, þá er ég kallaði, og enginn gaf því gaum, þótt ég rétti út höndina,
25 heldur létuð öll mín ráð sem vind um eyrun þjóta og skeyttuð eigi umvöndun minni,
26 þá mun ég hlæja í ógæfu yðar, draga dár að, þegar skelfingin dynur yfir yður,
27 þegar skelfingin dynur yfir yður eins og þrumuveður og ógæfa yðar nálgast eins og fellibylur, þegar neyð og angist dynja yfir yður.
28 Þá munu þeir kalla á mig, en ég mun ekki svara, þeir munu leita mín, en ekki finna mig.
29 Vegna þess að þeir hötuðu þekking og aðhylltust ekki ótta Drottins,
30 skeyttu ekki ráðum mínum og smáðu alla umvöndun mína,
31 þá skulu þeir fá að neyta ávaxtar breytni sinnar og mettast af sínum eigin vélræðum.
32 Því að fráhvarf fávísra drepur þá, og uggleysi heimskingjanna tortímir þeim.
33 En sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.
13 Þetta er nú í þriðja sinn, sem ég kem til yðar. Því "aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír beri."
2 Það sem ég sagði yður við aðra komu mína, það segi ég yður nú aftur fjarstaddur, bæði þeim, sem hafa brotlegir orðið, og öðrum: Næsta sinn, sem ég kem, mun ég ekki hlífa neinum,
3 enda krefjist þér sönnunar þess, að Kristur tali í mér. Hann er ekki veikur gagnvart yður, heldur máttugur á meðal yðar.
4 Hann var krossfestur í veikleika, en hann lifir fyrir Guðs kraft. Og einnig vér erum veikir í honum, en munum þó lifa með honum fyrir Guðs kraft, sem hann sýnir yður.
5 Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa. Gjörið þér yður ekki grein fyrir, að Jesús Kristur er í yður? Það skyldi vera, að þér stæðust ekki prófið.
6 En ég vona, að þér komist að raun um, að vér höfum staðist prófið.
7 Vér biðjum til Guðs, að þér gjörið ekki neitt illt, ekki til þess að það sýni ágæti vort, heldur til þess að þér gjörið hið góða. Vér gætum eins sýnst óhæfir.
8 Því að ekki megnum vér neitt gegn sannleikanum, heldur fyrir sannleikann.
9 Vér gleðjumst, þegar vér erum veikir, en þér eruð styrkir. Það, sem vér biðjum um, er að þér verðið fullkomnir.
10 Þess vegna rita ég þetta fjarverandi, til þess að ég þurfi ekki, þegar ég er kominn, að beita hörku, samkvæmt því valdi, sem Drottinn hefur gefið mér. Það er til uppbyggingar, en ekki til niðurbrots.
11 Að öðru leyti, bræður, verið glaðir. Verið fullkomnir, áminnið hver annan, verið samhuga, verið friðsamir. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður.
12 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir heilagir biðja að heilsa yður.
by Icelandic Bible Society