M’Cheyne Bible Reading Plan
2 Þegar einhver vill færa Drottni matfórn, þá skal fórn hans vera fínt mjöl, og skal hann hella yfir það olíu og leggja reykelsiskvoðu ofan á það.
2 Og hann skal færa það sonum Arons, prestunum, en presturinn skal taka af því hnefafylli sína, af fína mjölinu og af olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, og brenna það á altarinu sem ilmhluta fórnarinnar, sem eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.
3 En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins.
4 Viljir þú færa matfórn af því, sem í ofni er bakað, þá séu það ósýrðar kökur af fínu mjöli olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð.
5 En sé fórnargjöf þín matfórn á pönnu, þá skal hún vera ósýrt brauð af fínu mjöli olíublandað.
6 Þú skalt brjóta það í mola og hella yfir það olíu; þá er það matfórn.
7 En sé fórn þín matfórn tilreidd í suðupönnu, þá skal hún gjörð af fínu mjöli með olíu.
8 Og þú skalt færa Drottni matfórnina, sem af þessu er tilreidd. Skal færa hana prestinum, og hann skal fram bera hana að altarinu.
9 En presturinn skal af matfórninni taka ilmhlutann og brenna á altarinu til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin.
10 En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins.
11 Engin matfórn, sem þér færið Drottni, skal gjörð af sýrðu deigi, því að ekkert súrdeig eða hunang megið þér brenna sem eldfórn Drottni til handa.
12 Í frumgróðafórn megið þér færa það Drottni, en upp að altarinu má eigi bera það til þægilegs ilms.
13 Allar matfórnir þínar skalt þú salti salta, og þú skalt eigi láta vanta í matfórnir þínar salt þess sáttmála, er Guð þinn hefir við þig gjört. Með öllum fórnum þínum skalt þú salt fram bera.
14 Færir þú Drottni frumgróðamatfórn, þá skalt þú fram bera í matfórn af frumgróða þínum öx, bökuð við eld, mulin korn úr nýslegnum kornstöngum.
15 Og þú skalt hella olíu yfir hana og leggja reykelsiskvoðu ofan á; þá er það matfórn.
16 Og presturinn skal brenna ilmhluta hennar, nokkuð af hinu mulda korni og olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, til eldfórnar fyrir Drottin.
3 Sé fórn hans heillafórn og færi hann hana af nautpeningi, hvort heldur er karlkyns eða kvenkyns, þá sé það gallalaust, er hann fram ber fyrir Drottin.
2 Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð fórnarinnar og slátra henni fyrir dyrum samfundatjaldsins, en synir Arons, prestarnir, skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið.
3 Skal hann síðan færa Drottni eldfórn af heillafórninni: netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn,
4 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem liggur innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá.
5 Og synir Arons skulu brenna það á altarinu ofan á brennifórninni, sem liggur ofan á viðinum, sem lagður er á eldinn, til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin.
6 Sé fórnargjöfin, sem hann færir Drottni að heillafórn, af sauðfénaði, þá sé það, er hann fram ber, gallalaust, hvort heldur það er karlkyns eða kvenkyns.
7 Færi hann sauðkind að fórnargjöf, þá færi hann hana fram fyrir Drottin.
8 Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð fórnarinnar og slátra henni fyrir framan samfundatjaldið, en synir Arons skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið.
9 Skal hann síðan af heillafórninni færa Drottni í eldfórn mörinn úr henni: rófuna alla _ skal taka hana af fast við rófubeinið, _ netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn,
10 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá.
11 Og presturinn skal brenna þetta á altarinu sem eldfórnarmat Drottni til handa.
12 Sé fórnargjöf hans geitsauður, þá skal hann færa hann fram fyrir Drottin,
13 leggja hönd sína á höfuð hans og slátra honum fyrir framan samfundatjaldið, en synir Arons skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið.
14 Því næst skal hann fram bera af honum sem fórnargjöf, sem eldfórn Drottni til handa, netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn,
15 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá.
16 Og presturinn skal brenna það á altarinu sem eldfórnarmat þægilegs ilms; allur mör heyrir Drottni til.
17 Skal það vera ævinlegt lögmál hjá yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar: Þér skuluð engan mör og ekkert blóð eta."
21 Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni.
2 Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: "Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann."
3 Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar.
4 Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni.
5 Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn.
6 Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar
7 og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað.
8 Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn, sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði.
9 Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum.
10 Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.
11 En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina
12 og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta.
13 Þeir segja við hana: "Kona, hví grætur þú?" Hún svaraði: "Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann."
14 Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús.
15 Jesús segir við hana: "Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?" Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: "Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann."
16 Jesús segir við hana: "María!" Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: "Rabbúní!" (Rabbúní þýðir meistari.)
17 Jesús segir við hana: "Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar."`
18 María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: "Ég hef séð Drottin." Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.
19 Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: "Friður sé með yður!"
20 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin.
21 Þá sagði Jesús aftur við þá: "Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður."
22 Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: "Meðtakið heilagan anda.
23 Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað."
24 En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom.
25 Hinir lærisveinarnir sögðu honum: "Vér höfum séð Drottin." En hann svaraði: "Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa."
26 Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: "Friður sé með yður!"
27 Síðan segir hann við Tómas: "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður."
28 Tómas svaraði: "Drottinn minn og Guð minn!"
29 Jesús segir við hann: "Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó."
30 Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók.
31 En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.
18 Sérlyndur maður fer að sínum munum, hann illskast við öllu, sem hyggilegt er.
2 Heimskinginn hefir engar mætur á hyggindum, heldur á því að gjöra kunnar hugsanir sínar.
3 Þar sem hinn óguðlegi kemur, þar kemur og fyrirlitning, og með smáninni kemur skömm.
4 Djúp vötn eru orð af manns munni, lind viskunnar er sem rennandi lækur.
5 Það er ekki rétt að draga taum hins óguðlega, að halla rétti hins saklausa í dómi.
6 Varir heimskingjans valda deilum, og munnur hans kallar á högg.
7 Munnur heimskingjans verður honum að tjóni, og varir hans eru snara fyrir líf hans.
8 Orð rógberans eru eins og sælgæti, og þau læsa sig inn í innstu fylgsni hjartans.
9 Sá sem tómlátur er í verki sínu, er skilgetinn bróðir eyðsluseggsins.
10 Nafn Drottins er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur.
11 Auður ríks manns er honum öflugt vígi og ókleifur múrveggur í sjálfs hans ímyndun.
12 Ofmetnaður hjartans er undanfari falls, en auðmýkt er undanfari virðingar.
13 Svari einhver áður en hann heyrir, þá er honum það flónska og skömm.
14 Hugrekki mannsins heldur honum uppi í sjúkdómi hans, en dapurt geð, hver fær borið það?
15 Hjarta hins hyggna aflar sér þekkingar, og eyra hinna vitru leitar þekkingar.
16 Gjöf sem maður gefur, rýmir til fyrir honum og leiðir hann fram fyrir stórmenni.
17 Hinn fyrri sýnist hafa á réttu að standa í þrætumáli sínu, en síðan kemur mótpartur hans og rannsakar röksemdir hans.
18 Hlutkestið gjörir enda á deilum og sker úr milli sterkra.
19 Erfiðara er að ávinna svikinn bróður en að vinna rammbyggða borg, og deilur slíkra manna eru sem slagbrandar fyrir hallardyrum.
20 Kviður mannsins mettast af ávexti munns hans, af gróðri varanna mettast hann.
21 Dauði og líf eru á tungunnar valdi, og sá sem hefir taum á henni, mun eta ávöxt hennar.
22 Sá sem eignast konu, eignast gersemi, og hlýtur náðargjöf af Drottni.
23 Hinn fátæki mælir bljúgum bænarorðum, en hinn ríki svarar með hörku.
24 Að vera allra vinur er til tjóns, en til er ástvinur, sem er tryggari en bróðir.
1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú og Tímóteus, bróðir vor, heilsa
2 hinum heilögu og trúuðu bræðrum í Kólossu, sem eru í Kristi. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum.
3 Vér þökkum Guði, föður Drottins vors Jesú Krists, ávallt er vér biðjum fyrir yður.
4 Því að vér höfum heyrt um trú yðar á Krist Jesú og um kærleikann, sem þér berið til allra heilagra,
5 vegna vonar þeirrar, sem yður er geymd í himnunum. Um þá von hafið þér áður heyrt í orði sannleikans, fagnaðarerindinu,
6 sem til yðar er komið, eins og það einnig ber ávöxt og vex í öllum heiminum. Það hefur það líka gjört hjá yður frá þeim degi, er þér heyrðuð það og lærðuð að þekkja náð Guðs í sannleika.
7 Hið sama hafið þér og numið af Epafrasi, vorum elskaða samþjóni, sem er trúr þjónn Krists í vorn stað.
8 Hann hefur og sagt oss frá kærleika yðar, sem andinn hefur vakið með yður.
9 Frá þeim degi, er vér heyrðum þetta, höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans,
10 svo að þér hegðið yður eins og Drottni er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að þekkingu á Guði.
11 Mætti hann styrkja yður á allan hátt með dýrðarmætti sínum, svo að þér fyllist þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði
12 þakkað föðurnum, sem hefur gjört yður hæfa til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu.
13 Hann hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar.
14 Í honum eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu synda vorra.
15 Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar.
16 Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans.
17 Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum.
18 Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu. Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu.
19 Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa
20 og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.
21 Og yður, sem áður fyrri voruð fráhverfir Guði og óvinveittir honum í huga yðar og vondum verkum,
22 yður hefur hann nú sátta gjört við sig með dauða Krists í jarðneskum líkama. Hann vildi láta yður koma fram fyrir sig heilaga og lýtalausa og óaðfinnanlega.
23 Standið aðeins stöðugir í trúnni, grundvallaðir og fastir fyrir og hvikið ekki frá von fagnaðarerindisins, sem þér hafið heyrt og prédikað hefur verið fyrir öllu, sem skapað er undir himninum, og er ég, Páll, orðinn þjónn þess.
24 Nú er ég glaður í þjáningum mínum yðar vegna. Það, sem enn vantar á þjáningar Krists, uppfylli ég með líkamlegum þjáningum mínum til heilla fyrir líkama hans, sem er kirkjan.
25 En hans þjónn er ég orðinn samkvæmt því hlutverki, sem Guð hefur mér á hendur falið yðar vegna: Að flytja Guðs orð óskorað,
26 leyndardóminn, sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða, en nú hefur hann verið opinberaður Guðs heilögu.
27 Guð vildi kunngjöra þeim, hvílíkan dýrðar ríkdóm heiðnu þjóðirnar eiga í þessum leyndardómi, sem er Kristur meðal yðar, von dýrðarinnar.
28 Hann boðum vér, er vér áminnum sérhvern mann og fræðum með allri speki, til þess að vér getum leitt hvern mann fram fullkominn í Kristi.
29 Að þessu strita ég og stríði með þeim mætti, sem kröftuglega verkar í mér.
by Icelandic Bible Society