M’Cheyne Bible Reading Plan
33 Jakob hóf upp augu sín og sá Esaú koma og með honum fjögur hundruð manns. Skipti hann þá börnunum niður á Leu og Rakel og báðar ambáttirnar.
2 Og hann lét ambáttirnar og þeirra börn vera fremst, þá Leu og hennar börn, og Rakel og Jósef aftast.
3 En sjálfur gekk hann á undan þeim og laut sjö sinnum til jarðar, uns hann kom fast að bróður sínum.
4 Þá hljóp Esaú á móti honum og faðmaði hann, lagði hendur um háls honum og kyssti hann, og þeir grétu.
5 Og Esaú leit upp og sá konurnar og börnin og mælti: "Hvernig stendur á þessu fólki, sem með þér er?" Og hann svaraði: "Það eru börnin, sem Guð hefir af náð sinni gefið þjóni þínum."
6 Þá gengu fram ambáttirnar og börn þeirra og hneigðu sig.
7 Þá gekk og Lea fram og börn hennar og hneigðu sig, og síðan gengu Jósef og Rakel fram og hneigðu sig.
8 Esaú mælti: "Hvað skal allur þessi hópur, sem ég mætti?" Jakob svaraði: "Að ég megi finna náð í augum herra míns."
9 Þá mælti Esaú: "Ég á nóg. Eig þú þitt, bróðir minn!"
10 En Jakob sagði: "Eigi svo. Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá þigg þú gjöfina af mér, því að þegar ég sá auglit þitt, var sem ég sæi Guðs auglit, og þú tókst náðarsamlega á móti mér.
11 Ég bið þig, að þú þiggir gjöf mína, sem þér var færð, því að Guð hefir verið mér náðugur og ég hefi allsnægtir." Og hann lagði að honum, svo að hann þá gjöfina.
12 Þá mælti Esaú: "Tökum okkur nú upp og höldum áfram, og skal ég fara á undan þér."
13 En hann svaraði honum: "Þú sér, herra minn, að börnin eru þróttlítil og að í ferðinni eru lambær og kýr með kálfum, og ræki ég þær of hart einn dag, þá mundi öll hjörðin drepast.
14 Fari herra minn á undan þjóni sínum, en ég mun halda á eftir í hægðum mínum, eins og fénaðurinn getur farið, sem ég rek, og eins og börnin geta farið, uns ég kem til herra míns í Seír."
15 Þá mælti Esaú: "Þá vil ég þó láta eftir hjá þér nokkra af þeim mönnum, sem með mér eru." Hann svaraði: "Hver þörf er á því? Lát mig aðeins finna náð fyrir augum herra míns."
16 Síðan fór Esaú þann sama dag leiðar sinnar heim aftur til Seír.
17 Og Jakob hélt áfram til Súkkót og byggði sér hús, og handa fénaði sínum gjörði hann laufskála. Fyrir því heitir staðurinn Súkkót.
18 Jakob kom heill á hófi til Síkemborgar, sem er í Kanaanlandi, er hann kom frá Mesópótamíu, og hann sló tjöldum fyrir utan borgina.
19 Hann keypti landspilduna, sem hann hafði tjaldað á, af sonum Hemors, föður Síkems, fyrir hundrað silfurpeninga.
20 Og hann reisti þar altari og kallaði það El-elóhe-Ísrael.
4 Aftur tók hann að kenna við vatnið. Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar, úti á vatninu. En allt fólkið var á landi við vatnið.
2 Hann kenndi þeim margt í dæmisögum og sagði við þá:
3 "Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá,
4 og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.
5 Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.
6 En er sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.
7 Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt.
8 En sumt féll í góða jörð, kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt."
9 Og hann sagði: "Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri!"
10 Þegar hann var orðinn einn, spurðu þeir tólf og hinir, sem með honum voru, um dæmisögurnar.
11 Hann svaraði þeim: "Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum,
12 að sjáandi sjái þeir og skynji ekki, heyrandi heyri þeir og skilji ekki, svo þeir snúi sér eigi og verði fyrirgefið."
13 Og hann segir við þá: "Þér skiljið eigi þessa dæmisögu. Hvernig fáið þér þá skilið nokkra dæmisögu?
14 Sáðmaðurinn sáir orðinu.
15 Það hjá götunni, þar sem orðinu er sáð, merkir þá sem heyra, en Satan kemur jafnskjótt og tekur burt orðið, sem í þá var sáð.
16 Eins það sem sáð var í grýtta jörð, það merkir þá sem taka orðinu með fögnuði, um leið og þeir heyra það,
17 en hafa enga rótfestu. Þeir eru hvikulir og er þrenging verður síðan eða ofsókn vegna orðsins, bregðast þeir þegar.
18 Öðru var sáð meðal þyrna. Það merkir þá sem heyra orðið,
19 en áhyggjur heimsins, tál auðæfanna og aðrar girndir koma til og kefja orðið, svo það ber engan ávöxt.
20 Hitt, sem sáð var í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið, taka við því og bera þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt."
21 Og hann sagði við þá: "Ekki bera menn ljós inn og setja það undir mæliker eða bekk? Er það ekki sett á ljósastiku?
22 Því að ekkert er hulið, að það verði eigi gjört opinbert, né leynt, að það komi ekki í ljós.
23 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!"
24 Enn sagði hann við þá: "Gætið að, hvað þér heyrið. Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða og við yður bætt.
25 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur."
26 Þá sagði hann: "Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð.
27 Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti.
28 Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu.
29 En þá er ávöxturinn er fullþroska, lætur hann þegar bera út sigðina, því að uppskeran er komin."
30 Og hann sagði: "Við hvað eigum vér að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum vér að lýsa því?
31 Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold, er það smærra hverju sáðkorni á jörðu.
32 En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar, að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess."
33 Í mörgum slíkum dæmisögum flutti hann þeim orðið, svo sem þeir gátu numið,
34 og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra, en fyrir lærisveinum sínum skýrði hann allt, þegar þeir voru einir.
35 Að kvöldi sama dags sagði hann við þá: "Förum yfir um!"
36 Þeir skildu þá við mannfjöldann og tóku hann með sér, þar sem hann var, í bátnum, en aðrir bátar voru með honum.
37 Þá brast á stormhrina mikil, og féllu öldurnar inn í bátinn, svo við lá, að hann fyllti.
38 Jesús var í skutnum og svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: "Meistari, hirðir þú ekki um, að vér förumst?"
39 Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: "Þegi þú, haf hljótt um þig!" Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.
40 Og hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?"
41 En þeir urðu miklum ótta lostnir og sögðu hver við annan: "Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum."
9 Og þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar _, þá er skipun konungs og lagaboði hans skyldi fullnægt, þann dag er óvinir Gyðinga höfðu vonað að fá yfirbugað þá, en nú þvert á móti Gyðingar sjálfir skyldu yfirbuga fjendur sína,
2 þá söfnuðust Gyðingar saman í borgum sínum um öll skattlönd Ahasverusar konungs til þess að leggja hendur á þá, er þeim leituðu tjóns. Og enginn fékk staðist fyrir þeim, því að ótti við þá var kominn yfir allar þjóðir.
3 Og allir höfðingjar skattlandanna og jarlarnir og landstjórarnir og embættismenn konungs veittu Gyðingum lið, því að ótti við Mordekai var yfir þá kominn.
4 Því að Mordekai var mikill orðinn við hirð konungs, og orðstír hans fór um öll skattlöndin, því að maðurinn Mordekai varð æ voldugri og voldugri.
5 Og Gyðingar unnu á óvinum sínum með sverði, drápu þá og tortímdu þeim, og fóru þeir með hatursmenn sína eftir geðþekkni sinni.
6 Og í borginni Súsa drápu Gyðingar og tortímdu fimm hundruðum manns.
7 Og þeir drápu Parsandata, Dalfón, Aspata,
8 Pórata, Adalja, Arídata,
9 Parmasta, Arísaí, Arídaí og Vajesata,
10 tíu sonu Hamans Hamdatasonar, fjandmanns Gyðinga. En eigi lögðu þeir hendur á fjármuni manna.
11 Þennan sama dag var tala þeirra, sem vegnir höfðu verið í borginni Súsa, flutt konungi.
12 Og konungur sagði við Ester drottningu: "Í borginni Súsa hafa Gyðingar drepið og tortímt fimm hundruð manns og tíu sonu Hamans. Hvað munu þeir hafa gjört í öðrum skattlöndum konungs? Og hver er bæn þín? Hún skal veitast þér. Og hvers beiðist þú frekar? Það skal í té látið."
13 Þá mælti Ester: "Ef konunginum þóknast svo, þá sé Gyðingum, þeim sem eru í borginni Súsa, leyft að fara hinu sama fram á morgun sem í dag, og þá tíu sonu Hamans festi menn á gálga."
14 Og konungur bauð að svo skyldi gjöra, og fyrirskipun var útgefin í Súsa, og synir Hamans tíu voru festir á gálga.
15 Og Gyðingar í Súsa söfnuðust og saman hinn fjórtánda dag adarmánaðar og drápu þrjú hundruð manns í Súsa. En eigi lögðu þeir hendur á fjármuni þeirra.
16 En aðrir Gyðingar, þeir er bjuggu í skattlöndum konungs, söfnuðust saman og vörðu líf sitt með því að hefna sín á óvinum sínum og drepa sjötíu og fimm þúsundir meðal fjandmanna sinna _ en eigi lögðu þeir hendur á fjármuni þeirra _
17 hinn þrettánda dag adarmánaðar, og þeir tóku sér hvíld hinn fjórtánda og gjörðu hann að veislu- og gleðidegi.
18 En Gyðingar þeir, sem bjuggu í Súsa, höfðu safnast saman bæði hinn þrettánda og hinn fjórtánda mánaðarins, og tóku þeir sér hvíld hinn fimmtánda og gjörðu hann að veislu- og gleðidegi.
19 Fyrir því halda Gyðingar í sveitunum, þeir er búa í sveitaþorpunum, hinn fjórtánda dag adarmánaðar sem gleði-, veislu- og hátíðisdag og senda þá hver öðrum matgjafir.
20 Mordekai skrásetti þessa viðburði og sendi bréf til allra Gyðinga í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs, bæði nær og fjær,
21 til þess að gjöra þeim að skyldu að halda árlega helgan fjórtánda og fimmtánda dag adarmánaðar _
22 eins og dagana, sem Gyðingar fengu hvíld frá óvinum sínum, og mánuðinn, er hörmung þeirra snerist í fögnuð og hryggð þeirra í hátíðisdag _ með því að gjöra þá að veisludögum og fagnaðar og senda þá hver öðrum matgjafir og fátækum ölmusu.
23 Og Gyðingar lögleiddu að gjöra það, er þeir höfðu upp byrjað og Mordekai hafði skrifað þeim.
24 Með því að Haman Hamdatason Agagíti, fjandmaður allra Gyðinga, hafði hugsað það ráð upp gegn Gyðingum að eyða þeim og varpað púr, það er hlutkesti, til að afmá þá og eyða þeim,
25 en konungur hafði fyrirskipað með bréfi, þá er Ester gekk fyrir hann, að hið vonda ráð, er hann hafði upphugsað gegn Gyðingum, skyldi honum sjálfum í koll koma og hann og synir hans skyldu festir á gálga,
26 fyrir því voru þessir dagar kallaðir púrím, eftir orðinu púr. Þess vegna _ vegna allra orða þessa bréfs, bæði vegna þess, er þeir sjálfir höfðu séð, og hins, er þeir höfðu orðið fyrir _
27 gjörðu Gyðingar það að skyldu og lögleiddu það sem venju, er eigi mætti út af bregða, bæði fyrir sig og niðja sína og alla þá, er sameinuðust þeim, að halda þessa tvo daga helga árlega, samkvæmt fyrirskipuninni um þá og á hinum ákveðna tíma,
28 og að þessara daga skyldi verða minnst og þeir helgir haldnir af hverri kynslóð og hverri ætt, í hverju skattlandi og í hverri borg, svo að þessir púrímdagar skyldu eigi líða undir lok meðal Gyðinga og minning þeirra aldrei í gleymsku falla hjá niðjum þeirra.
29 Og Ester drottning, dóttir Abíhaíls, og Mordekai Gyðingur rituðu bréf og beittu þar öllu valdi sínu til þess að gjöra að lögum þetta annað bréf um púrím.
30 Og hann sendi bréf til allra Gyðinga í skattlöndin hundrað tuttugu og sjö, um allt ríki Ahasverusar, friðar- og sannleiksorð,
31 til þess að lögleiða þessa púrímdaga á hinum ákveðna tíma, eins og Mordekai Gyðingur og Ester drottning höfðu lögleitt þá fyrir þá, eins og þeir höfðu lögleitt ákvæðin um föstur og harmakvein, er þeim skyldi fylgja, fyrir sig og niðja sína.
32 Og skipun Esterar gjörði púrímákvæði þessi að lögum, og var hún rituð í bók.
10 Og Ahasverus konungur lagði skatt á landið og eyjar hafsins.
2 En öll verk máttar hans og hreysti og lýsing á vegsemd Mordekai, þeirri er konungur hóf hann til, það er ritað í Árbókum Medíu- og Persíukonunga.
4 Hvað eigum vér þá að segja um Abraham, forföður vorn, hvað ávann hann?
2 Ef hann réttlættist af verkum, þá hefur hann hrósunarefni, en ekki fyrir Guði.
3 Því hvað segir ritningin: "Abraham trúði Guði, og það var reiknað honum til réttlætis."
4 Þeim sem vinnur verða launin ekki reiknuð af náð, heldur eftir verðleika.
5 Hinum aftur á móti, sem ekki vinnur, en trúir á hann sem réttlætir óguðlegan, er trú hans reiknuð til réttlætis.
6 Eins og líka Davíð lýsir þann mann sælan, sem Guð tilreiknar réttlæti án tillits til verka:
7 Sælir eru þeir, sem afbrotin eru fyrirgefin og syndir þeirra huldar.
8 Sæll er sá maður, sem Drottinn tilreiknar ekki synd.
9 Nær þá sæluboðun þessi aðeins til umskorinna manna? Eða líka til óumskorinna? Vér segjum: "Trúin var Abraham til réttlætis reiknuð."
10 Hvernig var hún þá tilreiknuð honum? Umskornum eða óumskornum? Hann var ekki umskorinn, heldur óumskorinn.
11 Og hann fékk tákn umskurnarinnar sem staðfestingu þess réttlætis af trú, sem hann átti óumskorinn. Þannig skyldi hann vera faðir allra þeirra, sem trúa óumskornir, til þess að réttlætið tilreiknist þeim,
12 og eins faðir þeirra umskornu manna, sem eru ekki aðeins umskornir heldur feta veg þeirrar trúar, er faðir vor Abraham hafði óumskorinn.
13 Ekki var Abraham eða niðjum hans fyrir lögmál gefið fyrirheitið, að hann skyldi verða erfingi heimsins, heldur fyrir trúar-réttlæti.
14 Ef lögmálsmennirnir eru erfingjar, er trúin ónýtt og fyrirheitið að engu gjört.
15 Því að lögmálið vekur reiði. En þar sem ekki er lögmál, þar eru ekki heldur lögmálsbrot.
16 Því er fyrirheitið byggt á trú, til þess að það sé af náð, og megi stöðugt standa fyrir alla niðja hans, ekki fyrir þá eina, sem hafa lögmálið, heldur og fyrir þá, sem eiga trú Abrahams. Hann er faðir vor allra,
17 eins og skrifað stendur: "Föður margra þjóða hef ég sett þig." Og það er hann frammi fyrir Guði, sem hann trúði á, honum sem lífgar dauða og kallar fram það, sem ekki er til eins og það væri til.
18 Abraham trúði með von, gegn von, að hann skyldi verða faðir margra þjóða, samkvæmt því sem sagt hafði verið: "Svo skal afkvæmi þitt verða."
19 Og ekki veiklaðist hann í trúnni þótt hann minntist þess, að hann var kominn að fótum fram _ hann var nálega tíræður, _ og að Sara gat ekki orðið barnshafandi sakir elli.
20 Um fyrirheit Guðs efaðist hann ekki með vantrú, heldur gjörðist styrkur í trúnni. Hann gaf Guði dýrðina,
21 og var þess fullviss, að hann er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað.
22 "Fyrir því var það honum og til réttlætis reiknað."
23 En að það var honum tilreiknað, það var ekki ritað hans vegna einungis,
24 heldur líka vor vegna. Oss mun það tilreiknað verða, sem trúum á hann, sem uppvakti Jesú, Drottin vorn, frá dauðum,
25 hann sem var framseldur vegna misgjörða vorra og vegna réttlætingar vorrar uppvakinn.
by Icelandic Bible Society