Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 42

42 Er Jakob frétti, að korn var til í Egyptalandi, þá sagði hann við sonu sína: "Hví horfið þér hver á annan?"

Og hann mælti: "Ég hefi sannfrétt, að korn sé til í Egyptalandi. Farið þangað og kaupið oss þar korn, að vér megum lífi halda og deyjum ekki."

Þá lögðu tíu bræður Jósefs af stað til að kaupa korn í Egyptalandi.

En Benjamín, bróður Jósefs, lét Jakob ekki fara með bræðrum hans, því að hann var hræddur um, að honum kynni að vilja eitthvert slys til.

Og synir Ísraels komu að kaupa korn meðal annarra, sem komu, því að hungur var í Kanaanlandi.

En Jósef var stjórnari landsins, hann var sá, sem seldi öllum landslýðnum korn. Og bræður Jósefs komu og lutu honum og hneigðu sig til jarðar.

Og er Jósef sá bræður sína, þekkti hann þá, en vék ókunnuglega að þeim og talaði harðlega til þeirra og mælti við þá: "Hvaðan komið þér?" Þeir svöruðu: "Frá Kanaanlandi, til að kaupa vistir."

Jósef þekkti bræður sína, en þeir þekktu hann ekki.

Og Jósef minntist draumanna, sem hann hafði dreymt um þá, og sagði við þá: "Þér eruð njósnarmenn, þér eruð komnir til þess að sjá, hvar landið er varnarlaust fyrir."

10 En þeir svöruðu honum: "Eigi er svo, herra minn, heldur eru þjónar þínir komnir til að kaupa vistir.

11 Vér erum allir synir sama manns, vér erum hrekklausir menn, þjónar þínir eru ekki njósnarmenn."

12 En hann sagði við þá: "Eigi er svo, heldur eruð þér komnir til þess að sjá, hvar landið er varnarlaust fyrir."

13 Þeir svöruðu: "Vér þjónar þínir erum tólf bræður, synir sama manns í Kanaanlandi. Og sjá, hinn yngsti er nú hjá föður vorum, og einn er eigi framar á lífi."

14 Og Jósef sagði við þá: "Svo er sem ég sagði við yður: Þér eruð njósnarmenn.

15 Með þessu skuluð þér reyndir verða: Svo sannarlega sem Faraó lifir, skuluð þér ekki héðan fara, nema yngsti bróðir yðar komi hingað.

16 Sendið einn yðar til að sækja bróður yðar, en þér hinir skuluð vera í varðhaldi, svo að orð yðar verði reynd, hvort þér talið satt. En sé eigi svo, þá eruð þér njósnarmenn, svo sannarlega sem Faraó lifir."

17 Síðan lét hann hafa þá alla í haldi í þrjá daga.

18 En á þriðja degi sagði Jósef við þá: "Þetta skuluð þér gjöra, að þér megið lífi halda, því að ég óttast Guð.

19 Ef þér eruð hrekklausir, þá verði einn af yður bræðrum eftir í böndum í dýflissunni, þar sem þér voruð, en farið þér hinir og flytjið heim korn til bjargar þurfandi heimilum yðar.

20 Komið svo til mín með yngsta bróður yðar, þá munu orð yðar reynast sönn og þér eigi lífi týna." Og þeir gjörðu svo.

21 Þá sögðu þeir hver við annan: "Sannlega erum vér í sök fallnir fyrir bróður vorn, því að vér sáum sálarangist hans, þegar hann bað oss vægðar, en vér daufheyrðumst við. Þess vegna erum vér komnir í þessar nauðir."

22 Rúben svaraði þeim og mælti: "Sagði ég ekki við yður: ,Syndgist ekki á sveininum,` en þér daufheyrðust við. Og sjá, nú er einnig blóðs hans krafist."

23 En þeir vissu ekki, að Jósef skildi þá, því að þeir höfðu túlk.

24 Þá vék Jósef frá þeim og grét. Síðan sneri hann til þeirra aftur og talaði við þá og tók Símeon úr flokki þeirra og batt hann fyrir augum þeirra.

25 Síðan bauð hann að fylla sekki þeirra korni og láta silfurpeninga hvers eins þeirra aftur í sekk hans og fá þeim nesti til ferðarinnar. Og var svo gjört við þá.

26 Þá létu þeir korn sitt upp á asna sína og fóru af stað.

27 En er einn af þeim opnaði sekk sinn til að gefa asna sínum fóður á gistingarstaðnum, sá hann silfurpeninga sína, og sjá, þeir lágu ofan á í sekk hans.

28 Og hann sagði við bræður sína: "Silfurpeningar mínir eru komnir aftur, sjá, þeir liggja hér í sekk mínum." Þá féllst þeim hugur, og skjálfandi litu þeir hver á annan og sögðu: "Hví hefir Guð gjört oss þetta?"

29 Þeir komu til Jakobs föður síns í Kanaanlandi og sögðu honum frá öllu, sem fyrir þá hafði komið, með þessum orðum:

30 "Maðurinn, landsherrann, talaði harðlega til vor og fór með oss sem værum vér komnir til landsins í njósnarerindum.

31 En vér sögðum við hann: ,Vér erum hrekklausir, vér erum ekki njósnarmenn.

32 Vér erum tólf bræður, synir föður vors. Einn er ekki framar á lífi, og sá yngsti er nú hjá föður vorum í Kanaanlandi.`

33 Þá sagði maðurinn, landsherrann, við oss: ,Af þessu skal ég marka, hvort þér eruð hrekklausir: Látið einn af yður bræðrum verða eftir hjá mér, og takið korn til bjargar þurfandi heimilum yðar og farið leiðar yðar.

34 En komið með yngsta bróður yðar til mín, svo að ég sjái, að þér eruð ekki njósnarmenn, heldur að þér eruð hrekklausir. Þá skal ég skila yður bróður yðar aftur og þér megið fara allra yðar ferða um landið."`

35 En þeir helltu úr sekkjum sínum, sjá, þá var sjóður hvers eins í sekk hans. Og er þeir og faðir þeirra sáu sjóði þeirra, urðu þeir óttaslegnir.

36 Jakob faðir þeirra sagði við þá: "Þér gjörið mig barnlausan. Jósef er farinn, Símeon er farinn, og nú ætlið þér að taka Benjamín. Allt kemur þetta yfir mig."

37 Þá sagði Rúben við föður sinn: "Þú mátt deyða báða sonu mína, ef ég færi þér hann ekki aftur. Trúðu mér fyrir honum, og ég skal aftur koma með hann til þín."

38 En Jakob sagði: "Ekki skal sonur minn fara með yður, því að bróðir hans er dáinn og hann er einn eftir, og verði hann fyrir slysi á þeirri leið, sem þér farið, þá leiðið þér hærur mínar með harmi niður til heljar."

Markúsarguðspjall 12

12 Og hann tók að tala til þeirra í dæmisögum: "Maður plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.

Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna að fá hjá þeim hlut af ávexti víngarðsins.

En þeir tóku hann og börðu og sendu burt tómhentan.

Aftur sendi hann til þeirra annan þjón. Hann lömdu þeir í höfuðið og svívirtu.

Enn sendi hann annan, og hann drápu þeir, og marga fleiri ýmist börðu þeir eða drápu.

Einn átti hann eftir enn, elskaðan son. Hann sendi hann síðastan til þeirra og sagði: ,Þeir munu virða son minn.`

En vínyrkjar þessir sögðu sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, þá fáum vér arfinn.`

Og þeir tóku hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn.

Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra? Hann mun koma, tortíma vínyrkjunum og fá öðrum víngarðinn.

10 Hafið þér eigi lesið þessa ritningu: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn.

11 Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum."

12 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögunni. Og þeir yfirgáfu hann og gengu burt.

13 Þá sendu þeir til hans nokkra farísea og Heródesarsinna, og skyldu þeir veiða hann í orðum.

14 Þeir koma og segja við hann: "Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika. Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki? Eigum vér að gjalda eða ekki gjalda?"

15 En hann sá hræsni þeirra og sagði við þá: "Hví freistið þér mín? Fáið mér denar, látið mig sjá."

16 Þeir fengu honum pening. Hann spyr: "Hvers mynd og yfirskrift er þetta?" Þeir svöruðu: "Keisarans."

17 En Jesús sagði við þá: "Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er." Og þá furðaði stórlega á honum.

18 Saddúkear komu til hans, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:

19 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, ,að deyi maður barnlaus, en láti eftir sig konu, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.`

20 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu, en dó barnlaus.

21 Annar bróðirinn gekk að eiga hana og dó barnlaus. Eins hinn þriðji,

22 og allir sjö urðu barnlausir. Síðast allra dó konan.

23 Í upprisunni, þegar menn rísa upp, kona hvers þeirra verður hún þá? Allir sjö höfðu átt hana."

24 Jesús svaraði þeim: "Er það ekki þetta, sem veldur því, að þér villist: Þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs?

25 Þegar menn rísa upp frá dauðum, kvænast þeir hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himnum.

26 En um þá dauðu, að þeir rísa upp, hafið þér ekki lesið það í bók Móse, í sögunni um þyrnirunninn? Guð segir við Móse: ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`

27 Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda. Þér villist stórlega."

28 Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: "Hvert er æðst allra boðorða?"

29 Jesús svaraði: "Æðst er þetta: ,Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn.

30 Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.`

31 Annað er þetta: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.` Ekkert boðorð annað er þessum meira."

32 Fræðimaðurinn sagði þá við hann: "Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann.

33 Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira."

34 Jesús sá, að hann svaraði viturlega, og sagði við hann: "Þú ert ekki fjarri Guðs ríki." Og enginn þorði framar að spyrja hann.

35 Þegar Jesús var að kenna í helgidóminum, sagði hann: "Hvernig geta fræðimennirnir sagt, að Kristur sé sonur Davíðs?

36 Sjálfur mælti Davíð af heilögum anda: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.

37 Davíð kallar hann sjálfur drottin. Hvernig getur hann þá verið sonur hans?" Og hinn mikli mannfjöldi hlýddi fúslega á hann.

38 Í kenningu sinni sagði hann: "Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum,

39 vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.

40 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm."

41 Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið.

42 Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði.

43 Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: "Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna.

44 Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína."

Jobsbók 8

Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:

Hversu lengi ætlar þú slíkt að mæla og orðin í munni þínum að vera hvass vindur?

Hallar þá Guð réttinum, eða hallar hinn Almáttki réttlætinu?

Hafi börn þín syndgað móti honum, þá hefir hann selt þau misgjörð þeirra á vald.

En ef þú leitar Guðs og biður hinn Almáttka miskunnar _

ef þú ert hreinn og einlægur _ já, þá mun hann þegar vakna til að sinna þér og endurreisa bústað þíns réttlætis.

Þá mun þinn fyrri hagur virðast lítilfjörlegur, en framtíðarhagur þinn vaxa stórum.

Spyr þú hina fyrri kynslóð og gef þú gaum að reynslu feðranna.

Vér erum síðan í gær og vitum ekkert, því að skuggi eru dagar vorir á jörðunni.

10 En þeir munu fræða þig, segja þér það og bera fram orð úr sjóði hjarta síns:

11 "Sprettur pappírssefið þar sem engin mýri er? vex störin nema í vatni?

12 Enn stendur hún í blóma og verður eigi slegin, en hún skrælnar fyrr en nokkurt annað gras."

13 Svo fer fyrir hverjum þeim, sem gleymir Guði, og von hins guðlausa verður að engu.

14 Athvarf hans brestur sundur, og köngullóarvefur er það, sem hann treystir.

15 Hann styðst við hús sitt, en það stendur ekki, hann heldur sér fast í það, en það stenst ekki.

16 Hann er safarík skríðandi flétta í sólskini, sem teygir jarðstöngla sína um garðinn

17 og vefur rótum sínum um grjóthrúgur og læsir sig milli steinanna.

18 En ef hann er upprættur frá stað sínum, þá afneitar staðurinn honum og segir: "Ég hefi aldrei séð þig!"

19 Sjá, þetta er öll gleði hans, og aðrir spretta í staðinn upp úr moldinni.

20 Sjá, Guð hafnar ekki hinum ráðvanda og heldur ekki í hönd illgjörðamanna.

21 Enn mun hann fylla munn þinn hlátri og varir þínar fagnaðarópi.

22 Þeir sem hata þig, munu skömminni klæðast, og tjald hinna óguðlegu mun horfið vera.

Bréf Páls til Rómverja 12

12 Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi.

Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.

Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og halda sér hver og einn við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum.

Vér höfum á einum líkama marga limi, en limirnir hafa ekki allir sama starfa.

Eins erum vér, þótt margir séum, einn líkami í Kristi, en hver um sig annars limir.

Vér höfum margvíslegar náðargjafir, eftir þeirri náð, sem oss er gefin. Sé það spádómsgáfa, þá notum hana í hlutfalli við trúna.

Sé það þjónusta, skulum vér þjóna. Sá sem kennir, hann kenni,

sá sem áminnir, hann áminni. Sá sem útbýtir gjöfum, gjöri það í einlægni. Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn og sá sem iðkar miskunnsemi, gjöri það með gleði.

Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða.

10 Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.

11 Verið ekki hálfvolgir í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni.

12 Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni.

13 Takið þátt í þörfum heilagra, stundið gestrisni.

14 Blessið þá, er ofsækja yður, blessið þá, en bölvið þeim ekki.

15 Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.

16 Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður ekki hyggna með sjálfum yður.

17 Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.

18 Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.

19 Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: "Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn."

20 En "ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum."

21 Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society