Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 37

37 Jakob bjó í landi því, er faðir hans hafði dvalist í sem útlendingur, í Kanaanlandi.

Þetta er ættarsaga Jakobs. Þegar Jósef var seytján ára gamall, gætti hann sauða með bræðrum sínum. En hann var smásveinn hjá þeim sonum Bílu og sonum Silpu, er voru konur föður hans. Og Jósef bar föður sínum illan orðróm um þá.

Ísrael unni Jósef mest allra sona sinna, því að hann hafði átt hann í elli sinni. Og hann lét gjöra honum dragkyrtil.

En er bræður hans sáu, að faðir þeirra elskaði hann meir en alla sonu sína, lögðu þeir hatur á hann og gátu ekki talað við hann vinsamlegt orð.

Jósef dreymdi draum og sagði hann bræðrum sínum. Hötuðu þeir hann þá enn meir.

Og hann sagði við þá: "Heyrið nú draum þennan, sem mig dreymdi:

Sjá, vér vorum að binda kornbundin á akrinum, og mitt kornbundin reisti sig og stóð upprétt, en yðar kornbundin skipuðu sér umhverfis og lutu mínu kornbundini."

Þá sögðu bræður hans við hann: "Munt þú þá verða konungur yfir oss? Munt þú þá drottna yfir oss?" Og þeir hötuðu hann enn meir sakir drauma hans og sakir orða hans.

Enn dreymdi hann annan draum og sagði hann bræðrum sínum og mælti: "Sjá, mig hefir enn dreymt draum: Mér þótti sólin, tunglið og ellefu stjörnur lúta mér."

10 En er hann sagði föður sínum og bræðrum frá þessu, ávítti faðir hans hann og mælti til hans: "Hvaða draumur er þetta, sem þig hefir dreymt? Munum vér eiga að koma, ég og móðir þín og bræður þínir, og lúta til jarðar fyrir þér?"

11 Og bræður hans öfunduðu hann, en faðir hans festi þetta í huga sér.

12 Er bræður hans voru að heiman farnir til þess að halda hjörð föður þeirra á haga í Síkem,

13 mælti Ísrael við Jósef: "Bræður þínir halda hjörðinni á beit í Síkem. Kom þú, ég ætla að senda þig til þeirra." Og hann svaraði honum: "Hér er ég."

14 Og hann sagði við hann: "Far þú og vit þú, hvort bræðrum þínum og hjörðinni líður vel, og láttu mig svo vita það." Og hann sendi hann úr Hebronsdal, og hann kom til Síkem.

15 Þá hitti hann maður nokkur, er hann var að reika á víðavangi. Og maðurinn spurði hann og mælti: "Að hverju leitar þú?"

16 Hann svaraði: "Ég er að leita að bræðrum mínum. Seg mér hvar þeir eru með hjörðina."

17 Og maðurinn sagði: "Þeir eru farnir héðan, því að ég heyrði þá segja: ,Vér skulum fara til Dótan."` Fór Jósef þá eftir bræðrum sínum og fann þá í Dótan.

18 Er þeir sáu hann álengdar, áður en hann var kominn nærri þeim, tóku þeir saman ráð sín að drepa hann.

19 Og þeir sögðu hver við annan: "Sjá, þarna kemur draumamaðurinn.

20 Förum nú til og drepum hann og köstum honum í einhverja gryfjuna og segjum svo, að óargadýr hafi etið hann. Þá skulum vér sjá, hvað úr draumum hans verður."

21 En er Rúben heyrði þetta, vildi hann frelsa hann úr höndum þeirra og mælti: "Ekki skulum vér drepa hann."

22 Og Rúben sagði við þá, til þess að hann gæti frelsað hann úr höndum þeirra og fært hann aftur föður sínum: "Úthellið ekki blóði. Kastið honum í þessa gryfju, sem er hér á eyðimörkinni, en leggið ekki hendur á hann."

23 En er Jósef kom til bræðra sinna, færðu þeir hann úr kyrtli hans, dragkyrtlinum, sem hann var í,

24 tóku hann og köstuðu honum í gryfjuna. En gryfjan var tóm, ekkert vatn var í henni.

25 Settust þeir nú niður að neyta matar. En er þeim varð litið upp, sáu þeir lest Ísmaelíta koma frá Gíleað, og báru úlfaldar þeirra reykelsi, balsam og myrru. Voru þeir á leið með þetta til Egyptalands.

26 Þá mælti Júda við bræður sína: "Hver ávinningur er oss það, að drepa bróður vorn og leyna morðinu?

27 Komið, vér skulum selja hann Ísmaelítum, en ekki leggja hendur á hann, því hann er bróðir vor, hold vort og blóð." Og bræður hans féllust á það.

28 En midíanítískir kaupmenn fóru þar fram hjá, tóku Jósef og drógu hann upp úr gryfjunni. Og þeir seldu Jósef Ísmaelítunum fyrir tuttugu sikla silfurs, en þeir fóru með Jósef til Egyptalands.

29 En er Rúben kom aftur að gryfjunni, þá var Jósef ekki í gryfjunni. Reif hann þá klæði sín.

30 Og hann sneri aftur til bræðra sinna og mælti: "Sveinninn er horfinn, og hvert skal ég nú fara?"

31 Þá tóku þeir kyrtil Jósefs, skáru geithafur og velktu kyrtilinn í blóðinu.

32 Því næst sendu þeir dragkyrtilinn og létu færa hann föður sínum með þeirri orðsending: "Þetta höfum vér fundið. Gæt þú að, hvort það muni vera kyrtill sonar þíns eða ekki."

33 Og hann skoðaði hann og mælti: "Það er kyrtill sonar míns. Óargadýr hefir etið hann. Sannlega er Jósef sundur rifinn."

34 Þá reif Jakob klæði sín og lagði hærusekk um lendar sínar og harmaði son sinn langan tíma.

35 Og allir synir hans og allar dætur hans leituðust við að hugga hann, en hann vildi ekki huggast láta og sagði: "Með harmi mun ég niður stíga til sonar míns til heljar." Og faðir hans grét hann.

36 En Midíanítar seldu hann til Egyptalands, Pótífar hirðmanni Faraós og lífvarðarforingja.

Markúsarguðspjall 7

Nú safnast að honum farísear og nokkrir fræðimenn, komnir frá Jerúsalem.

Þeir sáu, að sumir lærisveina hans neyttu matar með vanhelgum, það er óþvegnum höndum.

En farísear, og reyndar Gyðingar allir, eta ekki nema þeir taki áður handlaugar, og fylgja þeir svo erfðavenju forfeðra sinna.

Og ekki neyta þeir matar, þegar þeir koma frá torgi, nema þeir hreinsi sig áður. Margt annað hafa þeir gengist undir að rækja, svo sem að hreinsa bikara, könnur og eirkatla.

Farísearnir og fræðimennirnir spyrja hann: "Hvers vegna fylgja lærisveinar þínir ekki erfðavenju forfeðranna, heldur neyta matar með vanhelgum höndum?"

Jesús svarar þeim: "Sannspár var Jesaja um yður hræsnara, þar sem ritað er: Þessi lýður heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.

Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.

Þér hafnið boðum Guðs, en haldið erfikenning manna."

Enn sagði hann við þá: "Listavel gjörið þér að engu boð Guðs, svo þér getið rækt erfikenning yðar.

10 Móse sagði: ,Heiðra föður þinn og móður þína.` og ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.`

11 En þér segið: Ef maður segir við föður sinn eða móður: ,Það, sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er korban,` það er musterisfé,

12 þá leyfið þér honum ekki framar að gjöra neitt fyrir föður sinn eða móður.

13 Þannig látið þér erfikenning yðar, sem þér fylgið fram, ógilda orð Guðs. Og margt annað gjörið þér þessu líkt."

14 Aftur kallaði hann til sín mannfjöldann og sagði: "Heyrið mig allir, og skiljið.

15 Ekkert er það utan mannsins, er saurgi hann, þótt inn í hann fari. Hitt saurgar manninn, sem út frá honum fer." [

16 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!]

17 Þegar hann var kominn inn frá fólkinu, spurðu lærisveinar hans hann um líkinguna.

18 Og hann segir við þá: "Eruð þér einnig svo skilningslausir? Skiljið þér eigi, að ekkert, sem fer inn í manninn utan frá, getur saurgað hann?

19 Því að ekki fer það inn í hjarta hans, heldur maga og út síðan í safnþróna." Þannig lýsti hann alla fæðu hreina.

20 Og hann sagði: "Það sem fer út frá manninum, það saurgar manninn.

21 Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp,

22 hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund, lastmælgi, hroki, heimska.

23 Allt þetta illa kemur innan að og saurgar manninn."

24 Hann tók sig upp þaðan og hélt til byggða Týrusar. Þar fór hann inn í hús og vildi engan láta vita. En eigi fékk hann dulist.

25 Kona ein frétti þegar af honum og kom og féll honum til fóta, en dóttir hennar hafði óhreinan anda.

26 Konan var heiðin, ættuð úr Fönikíu sýrlensku. Hún bað hann að reka illa andann út af dóttur sinni.

27 Hann sagði við hana: "Lofaðu börnunum að seðjast fyrst, ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."

28 Hún svaraði honum: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir undir borðinu af molum barnanna."

29 Og hann sagði við hana: "Vegna þessara orða skaltu heim snúa, illi andinn er farinn úr dóttur þinni."

30 Hún fór heim, fann barnið liggjandi á rúminu, og illi andinn var farinn.

31 Síðan hélt hann úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns.

32 Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann.

33 Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu.

34 Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: "Effaþa," það er: Opnist þú.

35 Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt.

36 Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum, en svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því.

37 Menn undruðust næsta mjög og sögðu: "Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla."

Jobsbók 3

Loks lauk Job upp munni sínum og bölvaði fæðingardegi sínum.

Hann tók til máls og sagði:

Farist sá dagur, sem ég fæddist á, og nóttin, sem sagði: Sveinbarn er getið!

Sá dagur verði að myrkri, Guð á hæðum spyrji ekki eftir honum, engin dagsbirta ljómi yfir honum.

Myrkur og niðdimma heimti hann aftur, skýflókar leggist um hann, dagmyrkvar skelfi hann.

Sú nótt _ myrkrið hremmi hana, hún gleðji sig eigi meðal ársins daga, hún komi eigi í tölu mánaðanna.

Sjá, sú nótt verði ófrjó, ekkert fagnaðaróp heyrist á henni.

Þeir sem bölva deginum, formæli henni, _ þeir sem leiknir eru í að egna Levjatan.

Myrkvist stjörnur aftureldingar hennar, vænti hún ljóss, en það komi ekki, og brágeisla morgunroðans fái hún aldrei litið,

10 af því að hún lokaði eigi fyrir mér dyrum móðurlífsins og byrgði ei ógæfuna fyrir augum mínum.

11 Hví dó ég ekki í móðurkviði, _ andaðist jafnskjótt og ég var kominn af móðurlífi?

12 Hvers vegna tóku kné á móti mér og hví voru brjóst til handa mér að sjúga?

13 Því þá lægi ég nú og hvíldist, væri sofnaður og hefði frið

14 hjá konungum og ráðherrum jarðarinnar, þeim er reistu sér hallir úr rústum,

15 eða hjá höfðingjum, sem áttu gull, þeim er fylltu hús sín silfri.

16 Eða ég væri ekki til eins og falinn ótímaburður, eins og börn, sem aldrei hafa séð ljósið.

17 Í gröfinni hætta hinir óguðlegu hávaðanum, og þar hvílast hinir örmagna.

18 Bandingjarnir hafa þar allir ró, heyra þar eigi köll verkstjórans.

19 Smár og stór eru þar jafnir, og þrællinn er þar laus við húsbónda sinn.

20 Hví gefur Guð ljós hinum þjáðu og líf hinum sorgbitnu?

21 þeim sem þrá dauðann, en hann kemur ekki, sem grafa eftir honum ákafara en eftir fólgnum fjársjóðum,

22 þeim sem mundu gleðjast svo, að þeir réðu sér ekki fyrir kæti, fagna, ef þeir fyndu gröfina;

23 _ þeim manni, sem enga götu sér og Guð hefir girt inni?

24 Því að andvörp eru orðin mitt daglegt brauð, og kvein mitt úthellist sem vatn.

25 Því að óttaðist ég eitthvað, þá hitti það mig, og það sem ég hræddist, kom yfir mig.

26 Ég mátti eigi næðis njóta, eigi friðar, eigi hvíldar, þá kom ný mæða.

Bréf Páls til Rómverja 7

Vitið þér ekki, bræður, _ ég er hér að tala til þeirra, sem lögmál þekkja, _ að lögmálið drottnar yfir manninum svo lengi sem hann lifir.

Gift kona er að lögum bundin manni sínum, meðan hann lifir. En deyi maðurinn, er hún leyst undan lögmálinu, sem bindur hana við manninn.

Því mun hún hórkona teljast, ef hún, að manninum lifandi, verður annars manns. En deyi maðurinn er hún laus undan lögmálinu, svo að hún er ekki hórkona, þótt hún verði annars manns.

Eins er um yður, bræður mínir. Þér eruð dánir lögmálinu fyrir líkama Krists, til þess að verða öðrum gefnir, honum sem var upp vakinn frá dauðum, svo að vér mættum bera Guði ávöxt.

Þegar vér lifðum að holdsins hætti, störfuðu ástríður syndanna, sem lögmálið hafði vakið, í limum vorum, svo að vér bærum dauðanum ávöxt.

En nú erum vér leystir undan lögmálinu, þar sem vér erum dánir því, sem áður hélt oss bundnum, og þjónum í nýjung anda, en ekki í fyrnsku bókstafs.

Hvað eigum vér þá að segja? Er lögmálið synd? Fjarri fer því. En satt er það: Ég þekkti ekki syndina nema fyrir lögmálið. Ég hefði ekki vitað um girndina, hefði ekki lögmálið sagt: "Þú skalt ekki girnast."

En syndin sætti lagi og vakti í mér alls kyns girnd með boðorðinu. Án lögmáls er syndin dauð.

Ég lifði einu sinni án lögmáls, en er boðorðið kom lifnaði syndin við,

10 en ég dó. Og boðorðið, sem átti að verða til lífs, það reyndist mér vera til dauða.

11 Því að syndin sætti lagi, dró mig á tálar með boðorðinu og deyddi mig með því.

12 Þannig er þá lögmálið heilagt og boðorðið heilagt, réttlátt og gott.

13 Varð þá hið góða mér til dauða? Fjarri fer því! Nei, það var syndin. Til þess að hún birtist sem synd, olli hún mér dauða með því, sem gott er. Þannig skyldi syndin verða yfir sig syndug fyrir boðorðið.

14 Vér vitum, að lögmálið er andlegt, en ég er holdlegur, seldur undir syndina.

15 Því að ég veit ekki, hvað ég aðhefst. Það sem ég vil, það gjöri ég ekki, en það sem ég hata, það gjöri ég.

16 En ef ég nú gjöri einmitt það, sem ég vil ekki, þá er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott.

17 En nú er það ekki framar ég sjálfur, sem gjöri þetta, heldur syndin, sem í mér býr.

18 Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða.

19 Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.

20 En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr.

21 Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast.

22 Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs,

23 en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.

24 Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?

25 Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Svo þjóna ég þá sjálfur lögmáli Guðs með huga mínum, en lögmáli syndarinnar með holdinu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society