Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 46

46 Ísrael lagði af stað með allt sitt, og hann kom til Beerseba og færði þar Guði Ísaks föður síns sláturfórn.

Og Guð talaði við Ísrael í sýn um nóttina og sagði: "Jakob, Jakob!" Og hann svaraði: "Hér er ég."

Og hann sagði: "Ég er Guð, Guð föður þíns. Óttast þú ekki að fara til Egyptalands, því að þar mun ég gjöra þig að mikilli þjóð.

Ég mun fara með þér til Egyptalands, og ég mun líka flytja þig þaðan aftur, og Jósef skal veita þér nábjargirnar."

Þá tók Jakob sig upp frá Beerseba, og Ísraels synir fluttu Jakob föður sinn og börn sín og konur sínar á vögnunum, sem Faraó hafði sent til að flytja hann á.

Og þeir tóku fénað sinn og fjárhluti, sem þeir höfðu aflað sér í Kanaanlandi, og komu til Egyptalands, Jakob og allir niðjar hans með honum.

Sonu sína og sonasonu, dætur sínar og sonadætur og alla niðja sína flutti hann með sér til Egyptalands.

Þessi eru nöfn Ísraels sona, sem komu til Egyptalands: Jakob og synir hans: Rúben, frumgetinn son Jakobs.

Synir Rúbens: Hanok, Pallú, Hesron og Karmí.

10 Synir Símeons: Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóar og Sál, sonur kanversku konunnar.

11 Synir Leví: Gerson, Kahat og Merarí.

12 Synir Júda: Ger, Ónan, Sela, Peres og Sera. En Ger og Ónan dóu í Kanaanlandi. Synir Peres voru: Hesron og Hamúl.

13 Synir Íssakars: Tóla, Púva, Job og Símron.

14 Synir Sebúlons: Sered, Elon og Jahleel.

15 Þessir voru synir Leu, sem hún fæddi Jakob í Mesópótamíu, ásamt Dínu dóttur hans. Allir synir hans og dætur voru að tölu þrjátíu og þrjú.

16 Synir Gaðs: Sífjón, Haggí, Súní, Esbon, Erí, Aródí og Arelí.

17 Synir Assers: Jimna, Jísva, Jísví, Bría og Sera, systir þeirra. Synir Bría voru: Heber og Malkíel.

18 Þessir voru synir Silpu, sem Laban gaf Leu dóttur sinni. Hún ól Jakob þessa, sextán sálir.

19 Synir Rakelar, konu Jakobs: Jósef og Benjamín.

20 En Jósef fæddust synir í Egyptalandi: Manasse og Efraím, sem Asenat, dóttir Pótífera prests í Ón, ól honum.

21 Synir Benjamíns: Bela, Beker, Asbel, Gera, Naaman, Ehí, Rós, Múppím, Húppím og Ard.

22 Þetta voru synir Rakelar, sem hún ól Jakob, alls fjórtán sálir.

23 Sonur Dans: Húsín.

24 Synir Naftalí: Jahseel, Gúní, Jeser og Sillem.

25 Þessir voru synir Bílu, sem Laban gaf Rakel dóttur sinni, og þessa ól hún Jakob, sjö sálir alls.

26 Allar þær sálir, sem komu með Jakob til Egyptalands og af honum voru komnar, voru sextíu og sex að tölu, auk sonakvenna Jakobs.

27 Og synir Jósefs, sem honum höfðu fæðst í Egyptalandi, voru tveir að tölu. Allar þær sálir af ætt Jakobs, sem komu til Egyptalands, voru sjötíu að tölu.

28 Jakob sendi Júda á undan sér til Jósefs, að hann vísaði sér veginn til Gósen. Og þeir komu til Gósenlands.

29 Þá lét Jósef beita fyrir vagn sinn og fór á móti Ísrael föður sínum til Gósen, og er fundum þeirra bar saman, féll hann um háls honum og grét lengi um háls honum.

30 Og Ísrael sagði við Jósef: "Nú vil ég glaður deyja, fyrst ég hefi séð auglit þitt, að þú ert enn á lífi."

31 Og Jósef sagði við bræður sína og við frændlið föður síns: "Nú vil ég fara og láta Faraó vita og segja við hann: ,Bræður mínir og frændlið föður míns, sem var í Kanaanlandi, er til mín komið.

32 Og mennirnir eru hjarðmenn, því að þeir hafa stundað kvikfjárrækt, og sauði sína og nautpening sinn og allt, sem þeir eiga, hafa þeir haft hingað með sér.`

33 Þegar nú Faraó lætur kalla yður og spyr: ,Hver er atvinna yðar?`

34 þá skuluð þér svara: ,Kvikfjárrækt hafa þjónar þínir stundað frá barnæsku allt til þessa dags, bæði vér og feður vorir,` _ til þess að þér fáið að búa í Gósenlandi, því að Egyptar hafa andstyggð á öllum hjarðmönnum."

Markúsarguðspjall 16

16 Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann.

Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni.

Þær sögðu sín á milli: "Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?"

En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór.

Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust.

En hann sagði við þær: "Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann.

En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: ,Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður`."

Þær fóru út og flýðu frá gröfinni, því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu, því þær voru hræddar.

Þegar hann var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar, birtist hann fyrst Maríu Magdalenu, en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda.

10 Hún fór og kunngjörði þetta þeim, er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu.

11 Þá er þeir heyrðu, að hann væri lifandi og hún hefði séð hann, trúðu þeir ekki.

12 Eftir þetta birtist hann í annarri mynd tveimur þeirra, þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit.

13 Þeir sneru við og kunngjörðu hinum, en þeir trúðu þeim ekki heldur.

14 Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn.

15 Hann sagði við þá: "Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.

16 Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða.

17 En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum,

18 taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir."

19 Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði.

Jobsbók 12

12 Þá svaraði Job og sagði:

Já, vissulega, miklir menn eruð þér, og með yður mun spekin deyja út!

En ég hefi vit eins og þér, ekki stend ég yður að baki, og hver er sá, er eigi viti slíkt!

Athlægi vinar síns _ það má ég vera, ég sem kallaði til Guðs, og hann svaraði mér, _ ég, hinn réttláti, hreinlyndi, er að athlægi!

"Ógæfan er fyrirlitleg" _ segir hinn öruggi, "hún hæfir þeim, sem skrikar fótur."

Tjöld spellvirkjanna standa ósködduð, og þeir lifa áhyggjulausir, sem egna Guð til reiði, og sá sem þykist bera Guð í hendi sér.

En spyr þú skepnurnar, og þær munu kenna þér, fugla loftsins, og þeir munu fræða þig,

eða villidýrin, og þau munu kenna þér, og fiskar hafsins munu kunngjöra þér.

Hver þeirra veit ekki að hönd Drottins hefir gjört þetta?

10 Í hans hendi er líf alls hins lifanda og andi sérhvers mannslíkama.

11 Prófar eyrað ekki orðin, eins og gómurinn smakkar matinn?

12 Hjá öldruðum mönnum er speki, og langir lífdagar veita hyggindi.

13 Hjá Guði er speki og máttur, hans eru ráð og hyggindi.

14 Þegar hann rífur niður, þá verður eigi byggt upp aftur, þegar hann setur einhvern í fangelsi, þá verður ekki lokið upp.

15 Þegar hann stíflar vötnin, þá þorna þau upp, þegar hann hleypir þeim, þá umturna þau jörðinni.

16 Hjá honum er máttur og viska, á valdi hans er sá er villist, og sá er í villu leiðir.

17 Hann leiðir ráðherra burt nakta og gjörir dómara að fíflum.

18 Hann leysir fjötra konunganna og bindur reipi um lendar sjálfra þeirra.

19 Hann leiðir presta burt nakta og steypir þeim, sem sitja fastir í sessi.

20 Hann rænir reynda menn málinu og sviptir öldungana dómgreind.

21 Hann hellir fyrirlitning yfir tignarmennin og gjörir slakt belti hinna sterku.

22 Hann grefur hið hulda fram úr myrkrinu og dregur niðdimmuna fram í birtuna.

23 Hann veitir þjóðunum vöxt og eyðir þeim, útbreiðir þjóðirnar og leiðir þær burt.

24 Hann firrir þjóðhöfðingja landsins viti og lætur þá villast um veglaus öræfi.

25 Þeir fálma í ljóslausu myrkri, og hann lætur þá skjögra eins og drukkinn mann.

Bréf Páls til Rómverja 16

16 Ég fel yður á hendur Föbe, systur vora, sem er þjónn safnaðarins í Kenkreu.

Veitið henni viðtöku í Drottni eins og heilögum hæfir og liðsinnið henni í hverju því, sem hún þarf yðar við, því að hún hefur verið bjargvættur margra og mín sjálfs.

Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú.

Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig, og fyrir það votta ég þeim ekki einn þakkir, heldur og allir söfnuðir meðal heiðingjanna.

Heilsið einnig söfnuðinum, sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða, sem er frumgróði Asíu Kristi til handa.

Heilsið Maríu, sem mikið hefur erfiðað fyrir yður.

Heilsið Andróníkusi og Júníasi, ættmönnum mínum og sambandingjum. Þeir skara fram úr meðal postulanna og hafa á undan mér gengið Kristi á hönd.

Heilsið Amplíatusi, mínum elskaða í Drottni.

Heilsið Úrbanusi, samverkamanni vorum í Kristi, og Stakkýsi, mínum elskaða.

10 Heilsið Apellesi, sem hefur reynst hæfur í þjónustu Krists. Heilsið heimilismönnum Aristóbúls.

11 Heilsið Heródíon, ættingja mínum. Heilsið þeim á heimili Narkissusar, sem tilheyra Drottni.

12 Heilsið Trýfænu og Trýfósu, sem hafa lagt hart á sig fyrir Drottin. Heilsið Persis, hinni elskuðu, sem mikið hefur starfað fyrir Drottin.

13 Heilsið Rúfusi, hinum útvalda í Drottni, og móður hans, sem er mér einnig móðir.

14 Heilsið Asýnkritusi, Flegon, Hermes, Patróbasi, Hermasi og bræðrunum, sem hjá þeim eru.

15 Heilsið Fílólógusi og Júlíu, Nerevs og systur hans og Ólympasi og öllum heilögum, sem með þeim eru.

16 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir söfnuðir Krists senda yður kveðju.

17 Ég áminni yður um, bræður, að hafa gát á þeim, er vekja sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið. Sneiðið hjá þeim.

18 Því að slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi, heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna.

19 Hlýðni yðar er alkunn orðin. Því gleðst ég yfir yður og ég vil, að þér séuð vitrir í því, sem gott er, en einfaldir í því, sem illt er.

20 Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar. Náðin Drottins vors Jesú Krist sé með yður.

21 Tímóteus, samverkamaður minn, Lúkíus, Jason og Sósípater, ættmenn mínir, biðja að heilsa yður.

22 Ég, Tertíus, sem hef ritað bréfið, bið að heilsa yður í Drottni.

23 Gajus, sem ljær mér og öllum söfnuðinum hús, biður að heilsa yður; Erastus, gjaldkeri borgarinnar, og bróðir Kvartus biðja að heilsa yður.

25 Honum, sem megnar að styrkja yður með fagnaðarerindinu, sem ég boða, og í prédikuninni um Jesú Krist samkvæmt opinberun þess leyndardóms, sem frá eilífum tíðum hefur verið dulinn,

26 en nú er opinberaður og fyrir spámannlegar ritningar, eftir skipun hins eilífa Guðs, kunngjörður öllum þjóðum til að vekja hlýðni við trúna,

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society