Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 1

Þessi eru nöfn Ísraels sona, sem komu til Egyptalands með Jakob, hver með sitt heimilisfólk:

Rúben, Símeon, Leví og Júda,

Íssakar, Sebúlon og Benjamín,

Dan og Naftalí, Gað og Asser.

Alls voru niðjar Jakobs sjötíu manns, og Jósef var fyrir í Egyptalandi.

Og Jósef dó og allir bræður hans og öll sú kynslóð.

Og Ísraelsmenn voru frjósamir, jukust, margfölduðust og fjölgaði stórum, svo að landið varð fullt af þeim.

Þá hófst til ríkis í Egyptalandi nýr konungur, sem engin deili vissi á Jósef.

Hann sagði við þjóð sína: "Sjá, þjóð Ísraelsmanna er fjölmennari og aflmeiri en vér.

10 Látum oss fara kænlega að við hana, ella kynni henni að fjölga um of, og ef til ófriðar kæmi, kynni hún jafnvel að ganga í lið með óvinum vorum og berjast móti oss og fara síðan af landi burt."

11 Og þeir settu verkstjóra yfir hana til þess að þjá hana með þrælavinnu, og hún byggði vistaborgir handa Faraó, Pítóm og Raamses.

12 En því meir sem þeir þjáðu hana, því meir fjölgaði henni og breiddist út, svo að þeir tóku að óttast Ísraelsmenn.

13 Og Egyptar þrælkuðu Ísraelsmenn vægðarlaust

14 og gjörðu þeim lífið leitt með þungri þrælavinnu við leireltu og tigulsteinagjörð og með alls konar akurvinnu, með allri þeirri vinnu, er þeir vægðarlaust þrælkuðu þá með.

15 En Egyptalandskonungur mælti til hinna hebresku ljósmæðra _ hét önnur Sifra, en hin Púa:

16 "Þegar þið sitjið yfir hebreskum konum," mælti hann, "þá lítið á burðarsetið. Sé barnið sveinbarn, þá deyðið það, en sé það meybarn, þá má það lifa."

17 En ljósmæðurnar óttuðust Guð og gjörðu eigi það, sem Egyptalandskonungur bauð þeim, heldur létu sveinbörnin lifa.

18 Þá lét Egyptalandskonungur kalla ljósmæðurnar og sagði við þær: "Hví hafið þér svo gjört, að láta sveinbörnin lifa?"

19 Ljósmæðurnar svöruðu Faraó: "Hebreskar konur eru ólíkar egypskum, því að þær eru hraustar. Áður en ljósmóðirin kemur til þeirra, eru þær búnar að fæða."

20 Og Guð lét ljósmæðrunum vel farnast, og fólkinu fjölgaði og það efldist mjög.

21 Og fyrir þá sök, að ljósmæðurnar óttuðust Guð, gaf hann þeim fjölda niðja.

22 Þá bauð Faraó öllum lýð sínum og sagði: "Kastið í ána öllum þeim sveinbörnum, sem fæðast meðal Hebrea, en öll meybörn mega lífi halda."

Lúkasarguðspjall 4

En Jesús sneri aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Leiddi andinn hann um óbyggðina

fjörutíu daga, en djöfullinn freistaði hans. Ekki neytti hann neins þá daga, og er þeir voru liðnir, var hann hungraður.

En djöfullinn sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði."

Og Jesús svaraði honum: "Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði."`

Þá fór hann með hann upp og sýndi honum á augabragði öll ríki veraldar.

Og djöfullinn sagði við hann: "Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil.

Ef þú fellur fram og tilbiður mig, skal það allt verða þitt."

Jesús svaraði honum: "Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum."

Þá fór hann með hann til Jerúsalem, setti hann á brún musterisins og sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér hér ofan,

10 því að ritað er: Hann mun fela englum sínum að gæta þín

11 og: þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini."

12 Jesús svaraði honum: "Sagt hefur verið: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns."`

13 Og er djöfullinn hafði lokið allri freistni, vék hann frá honum að sinni.

14 En Jesús sneri aftur til Galíleu í krafti andans, og fóru fregnir af honum um allt nágrennið.

15 Hann kenndi í samkundum þeirra, og lofuðu hann allir.

16 Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa.

17 Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er:

18 Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa

19 og kunngjöra náðarár Drottins.

20 Síðan lukti hann aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum.

21 Hann tók þá að tala til þeirra: "Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar."

22 Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans, og sögðu: "Er hann ekki sonur Jósefs?"

23 En hann sagði við þá: "Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: ,Læknir, lækna sjálfan þig!` Vér höfum heyrt um allt, sem gjörst hefur í Kapernaum. Gjör nú hið sama hér í ættborg þinni."

24 Enn sagði hann: "Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu.

25 En satt segi ég yður, að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía, þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði, og mikið hungur í öllu landinu,

26 og þó var Elía til engrar þeirra sendur, heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi.

27 Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns, og enginn þeirra var hreinsaður, heldur aðeins Naaman Sýrlendingur."

28 Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði, er þeir heyrðu þetta,

29 spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan.

30 En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar.

31 Hann kom nú ofan til Kapernaum, borgar í Galíleu, og kenndi þeim á hvíldardegi.

32 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að vald fylgdi orðum hans.

33 Í samkunduhúsinu var maður nokkur, er haldinn var óhreinum, illum anda. Hann æpti hárri röddu:

34 "Æ, hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs."

35 Jesús hastaði þá á hann og mælti: "Þegi þú, og far út af honum." En illi andinn slengdi honum fram fyrir þá og fór út af honum, en varð honum ekki að meini.

36 Felmtri sló á alla, og sögðu þeir hver við annan: "Hvaða orð er þetta? Með valdi og krafti skipar hann óhreinum öndum, og þeir fara."

37 Og orðstír hans barst út til allra staða þar í grennd.

38 Úr samkundunni fór hann í hús Símonar. En tengdamóðir Símonar var altekin sótthita, og báðu þeir hann að hjálpa henni.

39 Hann gekk að, laut yfir hana og hastaði á sótthitann, og fór hann úr henni. En hún reis jafnskjótt á fætur og gekk þeim fyrir beina.

40 Um sólsetur komu allir þeir, er höfðu á sínum vegum sjúklinga haldna ýmsum sjúkdómum, og færðu þá til hans. En hann lagði hendur yfir hvern þeirra og læknaði þá.

41 Þá fóru og illir andar út af mörgum og æptu: "Þú ert sonur Guðs." En hann hastaði á þá og bannaði þeim að tala, því að þeir vissu, að hann var Kristur.

42 Þegar dagur rann, gekk hann burt á óbyggðan stað, en mannfjöldinn leitaði hans. Þeir fundu hann og vildu aftra því, að hann færi frá þeim.

43 En hann sagði við þá: "Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur."

44 Og hann prédikaði í samkundunum í Júdeu.

Jobsbók 18

18 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:

Hversu lengi ætlið þér að halda áfram þessu orðaskaki? Látið yður segjast, og því næst skulum vér talast við.

Hvers vegna erum vér metnir sem skepnur, orðnir heimskir í yðar augum?

Þú, sem tætir sjálfan þig sundur í reiði þinni, _ á jörðin þín vegna að fara í auðn og bjargið að færast úr stað sínum?

Ljós hins óguðlega slokknar, og logi elds hans skín ekki.

Ljósið myrkvast í tjaldi hans, og það slokknar á lampanum yfir honum.

Hans öflugu skref verða stutt, og ráðagjörð sjálfs hans steypir honum,

því að hann rekst í netið með fætur sína, og hann gengur í möskvunum.

Möskvi festist um hæl hans, lykkjan herðist að honum.

10 Snaran liggur falin á jörðinni, og gildran liggur fyrir honum á stígnum.

11 Skelfingar hræða hann allt um kring og hrekja hann áfram, hvar sem hann gengur.

12 Ógæfu hans tekur að svengja, og glötunin bíður búin eftir falli hans.

13 Hún tærir húð hans, og frumburður dauðans etur limu hans.

14 Hann er hrifinn burt úr tjaldi sínu, er hann treysti á, og það lætur hann ganga til konungs skelfinganna.

15 Í tjaldi hans býr það, sem eigi er hans, brennisteini er stráð yfir bústað hans.

16 Að neðan þorna rætur hans, að ofan visna greinar hans.

17 Minning hans hverfur af jörðunni, og nafn hans er ekki nefnt á völlunum.

18 Menn hrinda honum frá ljósinu út í myrkrið og reka hann burt af jarðríki.

19 Hann mun hvorki eiga börn né buru meðal þjóðar sinnar, og enginn, sem undan hefir komist, er í híbýlum hans.

20 Yfir skapadægri hans skelfast eftirkomendurnir, og hrylling grípur þá, er fyrr voru uppi.

21 Já, svo fer um bústaði hins rangláta og svo um samastað þess manns, sem eigi þekkir Guð.

Fyrra bréf Páls til Korin 5

Það er mér sagt að saurlifnaður eigi sér stað á meðal yðar, og það slíkur saurlifnaður, sem jafnvel gerist ekki meðal heiðingja, að maður heldur við konu föður síns.

Og svo eruð þér stærilátir, í stað þess að hryggjast og gjöra gangskör að því, að manninum, sem þetta hefur drýgt, yrði útrýmt úr félagi yðar!

Ég fyrir mitt leyti, fjarlægur að líkamanum til, en nálægur að andanum, hef þegar, eins og ég væri nálægur, kveðið upp dóm í nafni Drottins vors Jesú yfir manni þeim, sem þetta hefur drýgt:

Þegar þér og minn andi eruð saman komnir með krafti Drottins vors Jesú,

skal selja slíkan mann Satan á vald til tortímingar holdinu, til þess að andinn megi hólpinn verða á degi Drottins Jesú.

Ekki hafið þér ástæðu til að stæra yður! Vitið þér ekki, að lítið súrdeig sýrir allt deigið?

Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig, enda eruð þér ósýrðir. Því að páskalambi voru er slátrað, sem er Kristur.

Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi né með súrdeigi illsku og vonsku, heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

Ég ritaði yður í bréfinu, að þér skylduð ekki umgangast saurlífismenn.

10 Átti ég þar ekki við saurlífismenn þessa heims yfirleitt, ásælna og ræningja eða hjáguðadýrkendur, því að þá hefðuð þér orðið að fara út úr heiminum.

11 En nú rita ég yður, að þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkari eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.

12 Hvað skyldi ég vera að dæma þá, sem fyrir utan eru? Dæmið þér ekki þá, sem fyrir innan eru?

13 Og mun ekki Guð dæma þá, sem fyrir utan eru? "Útrýmið hinum vonda úr yðar hópi."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society