M’Cheyne Bible Reading Plan
32 Er fólkið sá, að seinkaði komu Móse ofan af fjallinu, þyrptist fólkið í kringum Aron og sagði við hann: "Kom og gjör oss guð, er fyrir oss fari, því að vér vitum ekki, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi."
2 Og Aron sagði við þá: "Slítið eyrnagullin úr eyrum kvenna yðar, sona og dætra, og færið mér."
3 Þá sleit allt fólkið eyrnagullin úr eyrum sér og færði Aroni,
4 en hann tók við því af þeim, lagaði það með meitlinum og gjörði af því steyptan kálf. Þá sögðu þeir: "Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi."
5 Og er Aron sá það, reisti hann altari fyrir framan hann, og Aron lét kalla og segja: "Á morgun skal vera hátíð Drottins."
6 Næsta morgun risu þeir árla, fórnuðu brennifórnum og færðu þakkarfórnir. Síðan settist fólkið niður til að eta og drekka, og því næst stóðu þeir upp til leika.
7 Þá sagði Drottinn við Móse: "Far þú og stíg ofan, því að fólk þitt, sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefir misgjört.
8 Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim. Þeir hafa gjört sér steyptan kálf, og þeir hafa fallið fram fyrir honum, fært honum fórnir og sagt: ,Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi."`
9 Drottinn sagði við Móse: "Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk.
10 Lát mig nú einan, svo að reiði mín upptendrist í gegn þeim og tortími þeim. Síðan vil ég gjöra þig að mikilli þjóð."
11 En Móse reyndi að blíðka Drottin, Guð sinn, og sagði: "Hví skal, Drottinn, reiði þín upptendrast í gegn fólki þínu, sem þú leiddir út af Egyptalandi með miklum mætti og voldugri hendi?
12 Hví skulu Egyptar segja og kveða svo að orði: ,Til ills leiddi hann þá út, til að deyða þá á fjöllum uppi og afmá þá af jörðinni`? Snú þér frá þinni brennandi reiði og lát þig iðra hins illa gegn fólki þínu.
13 Minnst þú þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Ísraels, sem þú hefir svarið við sjálfan þig og heitið: ,Ég vil gjöra niðja yðar marga sem stjörnur himinsins, og allt þetta land, sem ég hefi talað um, vil ég gefa niðjum yðar, og skulu þeir eiga það ævinlega."`
14 Þá iðraðist Drottinn hins illa, er hann hafði hótað að gjöra fólki sínu.
15 Síðan sneri Móse á leið og gekk ofan af fjallinu með báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér. Voru þær skrifaðar báðumegin, svo á einni hliðinni sem á annarri voru þær skrifaðar.
16 En töflurnar voru Guðs verk og letrið Guðs letur, rist á töflurnar.
17 En er Jósúa heyrði ópið í fólkinu, sagði hann við Móse: "Það er heróp í búðunum!"
18 En Móse svaraði: "Það er ekki óp sigrandi manna og ekki óp þeirra, er sigraðir verða; söngóm heyri ég."
19 En er Móse nálgaðist herbúðirnar og sá kálfinn og dansinn, upptendraðist reiði hans, svo að hann þeytti töflunum af hendi og braut þær í sundur fyrir neðan fjallið.
20 Síðan tók hann kálfinn, sem þeir höfðu gjört, brenndi hann í eldi og muldi hann í duft og dreifði því á vatnið og lét Ísraelsmenn drekka.
21 Þá sagði Móse við Aron: "Hvað hefir þetta fólk gjört þér, að þú skulir hafa leitt svo stóra synd yfir það?"
22 Aron svaraði: "Reiðst eigi, herra. Þú þekkir lýðinn, að hann er jafnan búinn til ills.
23 Þeir sögðu við mig: ,Gjör oss guð, er fyrir oss fari, því vér vitum eigi, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi.`
24 Þá sagði ég við þá: ,Hver sem gull hefir á sér, hann slíti það af sér.` Fengu þeir mér það, og kastaði ég því í eldinn, svo varð af því þessi kálfur."
25 Er Móse sá, að fólkið var orðið taumlaust, því að Aron hafði sleppt við það taumnum, svo að þeir voru hafðir að spotti af mótstöðumönnum sínum,
26 þá nam Móse staðar í herbúðahliðinu og mælti: "Hver sem heyrir Drottni til, komi hingað til mín!" Þá söfnuðust allir levítar til hans.
27 Og hann sagði við þá: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: ,Hver einn festi sverð á hlið sér, fari síðan fram og aftur frá einu hliði herbúðanna til annars og drepi hver sinn bróður, vin og frænda."`
28 Og levítarnir gjörðu sem Móse bauð þeim, og féllu af fólkinu á þeim degi þrjár þúsundir manna.
29 Og Móse sagði: "Fyllið hendur yðar í dag, Drottni til handa, því að hver maður var á móti syni sínum og bróður, svo að yður veitist blessun í dag."
30 Morguninn eftir sagði Móse við lýðinn: "Þér hafið drýgt stóra synd. En nú vil ég fara upp til Drottins; má vera, að ég fái friðþægt fyrir synd yðar."
31 Síðan sneri Móse aftur til Drottins og mælti: "Æ, þetta fólk hefir drýgt stóra synd og gjört sér guð af gulli.
32 Ég bið, fyrirgef þeim nú synd þeirra! Ef ekki, þá bið ég, að þú máir mig af bók þinni, sem þú hefir skrifað."
33 En Drottinn sagði við Móse: "Hvern þann, er syndgað hefir móti mér, vil ég má af bók minni.
34 Far nú og leið fólkið þangað, sem ég hefi sagt þér, sjá, engill minn skal fara fyrir þér. En þegar minn vitjunartími kemur, skal ég vitja synda þeirra á þeim."
35 En Drottinn laust fólkið fyrir það, að þeir höfðu gjört kálfinn, sem Aron gjörði.
11 Maður sá var sjúkur, er Lasarus hét, frá Betaníu, þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar.
2 En María var sú er smurði Drottin smyrslum og þerraði fætur hans með hári sínu. Bróðir hennar, Lasarus, var sjúkur.
3 Nú gjörðu systurnar Jesú orðsending: "Herra, sá sem þú elskar, er sjúkur."
4 Þegar hann heyrði það, mælti hann: "Þessi sótt er ekki banvæn, heldur Guði til dýrðar, að Guðs sonur vegsamist hennar vegna."
5 Jesús elskaði þau Mörtu og systur hennar og Lasarus.
6 Þegar hann frétti, að hann væri veikur, var hann samt um kyrrt á sama stað í tvo daga.
7 Að þeim liðnum sagði hann við lærisveina sína: "Förum aftur til Júdeu."
8 Lærisveinarnir sögðu við hann: "Rabbí, nýlega voru Gyðingar að því komnir að grýta þig, og þú ætlar þangað aftur?"
9 Jesús svaraði: "Eru ekki stundir dagsins tólf? Sá sem gengur um að degi, hrasar ekki, því hann sér ljós þessa heims.
10 En sá sem gengur um að nóttu, hrasar, því hann hefur ekki ljósið í sér."
11 Þetta mælti hann, og sagði síðan við þá: "Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann."
12 Þá sögðu lærisveinar hans: "Herra, ef hann er sofnaður, batnar honum."
13 En Jesús talaði um dauða hans. Þeir héldu hins vegar, að hann ætti við venjulegan svefn.
14 Þá sagði Jesús þeim berum orðum: "Lasarus er dáinn,
15 og yðar vegna fagna ég því, að ég var þar ekki, til þess að þér skuluð trúa. En förum nú til hans."
16 Tómas, sem nefndist tvíburi, sagði þá við hina lærisveinana: "Vér skulum fara líka til að deyja með honum."
17 Þegar Jesús kom, varð hann þess vís, að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni.
18 Betanía var nálægt Jerúsalem, hér um bil fimmtán skeiðrúm þaðan.
19 Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu að hugga þær eftir bróðurmissinn.
20 Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima.
21 Marta sagði við Jesú: "Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.
22 En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um."
23 Jesús segir við hana: "Bróðir þinn mun upp rísa."
24 Marta segir: "Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi."
25 Jesús mælti: "Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.
26 Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?"
27 Hún segir við hann: "Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn."
28 Að svo mæltu fór hún, kallaði á Maríu systur sína og sagði í hljóði: "Meistarinn er hér og vill finna þig."
29 Þegar María heyrði þetta, reis hún skjótt á fætur og fór til hans.
30 En Jesús var ekki enn kominn til þorpsins, heldur var hann enn á þeim stað, þar sem Marta hafði mætt honum.
31 Gyðingarnir, sem voru heima hjá Maríu að hugga hana, sáu, að hún stóð upp í skyndi og gekk út, og fóru þeir á eftir henni. Þeir hugðu, að hún hefði farið til grafarinnar að gráta þar.
32 María kom þangað, sem Jesús var, og er hún sá hann, féll hún honum til fóta og sagði við hann: "Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn."
33 Þegar Jesús sá hana gráta og Gyðingana gráta, sem með henni komu, komst hann við í anda og varð hrærður mjög
34 og sagði: "Hvar hafið þér lagt hann?" Þeir sögðu: "Herra, kom þú og sjá."
35 Þá grét Jesús.
36 Gyðingar sögðu: "Sjá, hversu hann hefur elskað hann!"
37 En nokkrir þeirra sögðu: "Gat ekki sá maður, sem opnaði augu hins blinda, einnig varnað því, að þessi maður dæi?"
38 Jesús varð aftur hrærður mjög og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn fyrir.
39 Jesús segir: "Takið steininn frá!" Marta, systir hins dána, segir við hann: "Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag."
40 Jesús segir við hana: "Sagði ég þér ekki: ,Ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs`?"
41 Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: "Faðir, ég þakka þér, að þú hefur bænheyrt mig.
42 Ég vissi að sönnu, að þú heyrir mig ávallt, en ég sagði þetta vegna mannfjöldans, sem stendur hér umhverfis, til þess að þeir trúi, að þú hafir sent mig."
43 Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: "Lasarus, kom út!"
44 Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við þá: "Leysið hann og látið hann fara."
45 Margir Gyðingar, sem komnir voru til Maríu og sáu það, sem Jesús gjörði, tóku nú að trúa á hann.
46 En nokkrir þeirra fóru til farísea og sögðu þeim, hvað hann hafði gjört.
47 Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn.
48 Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð."
49 En einn þeirra, Kaífas, sem það ár var æðsti prestur, sagði við þá: "Þér vitið ekkert
50 og hugsið ekkert um það, að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist."
51 Þetta sagði hann ekki af sjálfum sér, en þar sem hann var æðsti prestur það ár, gat hann spáð því, að Jesús mundi deyja fyrir þjóðina,
52 og ekki fyrir þjóðina eina, heldur og til að safna saman í eitt dreifðum börnum Guðs.
53 Upp frá þeim degi voru þeir ráðnir í að taka hann af lífi.
54 Jesús gekk því ekki lengur um meðal Gyðinga á almannafæri, heldur fór hann þaðan til staðar í grennd við eyðimörkina, í þorp sem heitir Efraím, og þar dvaldist hann með lærisveinum sínum.
55 Nú nálguðust páskar Gyðinga, og margir fóru úr sveitinni upp til Jerúsalem fyrir páskana til að hreinsa sig.
56 Menn leituðu að Jesú og sögðu sín á milli í helgidóminum: "Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma til hátíðarinnar?"
57 En æðstu prestar og farísear höfðu gefið út skipun um það, að ef nokkur vissi hvar hann væri, skyldi hann segja til, svo að þeir gætu tekið hann.
8 Heyr, spekin kallar og hyggnin lætur raust sína gjalla.
2 Uppi á hæðunum við veginn, þar sem göturnar kvíslast _ stendur hún.
3 Við hliðin, þar sem gengið er út úr borginni, þar sem gengið er inn um dyrnar, kallar hún hátt:
4 Til yðar, menn, tala ég, og raust mín hljómar til mannanna barna.
5 Þér óreyndu, lærið hyggindi, og þér heimskingjar, lærið skynsemi.
6 Hlýðið á, því að ég tala það sem göfuglegt er, og varir mínar tjá það sem rétt er.
7 Því að sannleika mælir gómur minn og guðleysi er viðbjóður vörum mínum.
8 Einlæg eru öll orð munns míns, í þeim er ekkert fals né fláræði.
9 Öll eru þau einföld þeim sem skilning hefir, og blátt áfram fyrir þann sem hlotið hefir þekkingu.
10 Takið á móti ögun minni fremur en á móti silfri og fræðslu fremur en úrvals gulli.
11 Því að viska er betri en perlur, og engir dýrgripir jafnast á við hana.
12 Ég, spekin, er handgengin hyggindunum og ræð yfir ráðdeildarsamri þekking.
13 Að óttast Drottin er að hata hið illa, drambsemi og ofdramb og illa breytni og fláráðan munn _ það hata ég.
14 Mín er ráðspekin og framkvæmdarsemin, ég er hyggnin, minn er krafturinn.
15 Fyrir mína hjálp ríkja konungarnir og úrskurða höfðingjarnir réttvíslega.
16 Fyrir mína hjálp stjórna stjórnendurnir og tignarmennin _ allir valdsmenn á jörðu.
17 Ég elska þá sem mig elska, og þeir sem leita mín, finna mig.
18 Auður og heiður eru hjá mér, ævagamlir fjármunir og réttlæti.
19 Ávöxtur minn er betri en gull og gimsteinar og eftirtekjan eftir mig betri en úrvals silfur.
20 Ég geng á götu réttlætisins, á stigum réttarins miðjum,
21 til þess að gefa þeim sanna auðlegð, er elska mig, og fylla forðabúr þeirra.
22 Drottinn skóp mig í upphafi vega sinna, á undan öðrum verkum sínum, fyrir alda öðli.
23 Frá eilífð var ég sett til valda, frá upphafi, áður en jörðin var til.
24 Ég fæddist áður en hafdjúpin urðu til, þá er engar vatnsmiklar lindir voru til.
25 Áður en fjöllunum var hleypt niður, á undan hæðunum fæddist ég,
26 áður en hann skapaði völl og vengi og fyrstu moldarkekki jarðríkis.
27 Þegar hann gjörði himininn, þá var ég þar, þegar hann setti hvelfinguna yfir hafdjúpið,
28 þegar hann festi skýin uppi, þegar uppsprettur hafdjúpsins komust í skorður,
29 þegar hann setti hafinu takmörk, til þess að vötnin færu eigi lengra en hann bauð, þegar hann festi undirstöður jarðar.
30 Þá stóð ég honum við hlið sem verkstýra, og ég var yndi hans dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma,
31 leikandi mér á jarðarkringlu hans, og hafði yndi mitt af mannanna börnum.
32 Og nú, þér yngismenn, hlýðið mér, því að sælir eru þeir, sem varðveita vegu mína.
33 Hlýðið á aga, svo að þér verðið vitrir, og látið hann eigi sem vind um eyrun þjóta.
34 Sæll er sá maður, sem hlýðir mér, sem vakir daglega við dyr mínar og geymir dyrastafa minna.
35 Því að sá sem mig finnur, finnur lífið og hlýtur blessun af Drottni.
36 En sá sem missir mín, skaðar sjálfan sig. Allir þeir, sem hata mig, elska dauðann.
1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú, heilsar hinum heilögu, sem eru í Efesus, þeim sem trúa á Krist Jesú.
2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem í Kristi hefur blessað oss með hvers konar andlegri blessun í himinhæðum.
4 Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í Kristi, til þess að vér værum heilagir og lýtalausir fyrir honum. Í kærleika sínum
5 ákvað hann fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun
6 til vegsemdar dýrð hans og náð, sem hann lét oss í té í sínum elskaða syni.
7 Í honum, fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra.
8 Svo auðug er náð hans, sem hann gaf oss ríkulega með hvers konar vísdómi og skilningi.
9 Og hann kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun,
10 sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.
11 Í honum höfum vér þá líka öðlast arfleifðina, eins og oss var fyrirhugað samkvæmt fyrirætlun hans, er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns,
12 til þess að vér, sem áður höfum sett von vora til Krists, skyldum vera dýrð hans til vegsemdar.
13 Í honum eruð og þér, eftir að hafa heyrt orð sannleikans, fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann og verið merktir innsigli heilags anda, sem yður var fyrirheitið.
14 Hann er pantur arfleifðar vorrar, að vér verðum endurleystir Guði til eignar, dýrð hans til vegsemdar.
15 Eftir að hafa heyrt um trú yðar á Drottin Jesú og um kærleika yðar til allra heilagra,
16 hef ég þess vegna ekki heldur látið af að þakka fyrir yður, er ég minnist yðar í bænum mínum.
17 Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann.
18 Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til, hver ríkdómur hans dýrlegu arfleifðar er, sem hann ætlar oss meðal hinna heilögu,
19 og hver hinn yfirgnæfandi máttur hans við oss, sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn,
20 sem hann lét koma fram í Kristi, er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum,
21 ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni, sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi.
22 Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu.
23 En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum, sem sjálfur fyllir allt í öllu.
by Icelandic Bible Society