M’Cheyne Bible Reading Plan
1 Drottinn kallaði á Móse og talaði við hann úr samfundatjaldinu og mælti:
2 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar einhver af yður vill færa Drottni fórn, þá skuluð þér færa fórn yðar af fénaðinum, af nautum og sauðum.
3 Sé fórn hans brennifórn af nautum, skal það, er hann fórnar, vera karlkyns og gallalaust. Skal hann leiða það að dyrum samfundatjaldsins, svo að hann verði Drottni velþóknanlegur.
4 Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð brennifórnarinnar, að hún afli honum velþóknunar og friðþægi fyrir hann.
5 Síðan skal hann slátra ungneytinu frammi fyrir Drottni. En synir Arons, prestarnir, skulu fram bera blóðið, og skulu þeir stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið, sem stendur við dyr samfundatjaldsins.
6 Þá flái hann brennifórnina og hluti hana sundur.
7 En synir Arons, prestarnir, skulu gjöra eld á altarinu og leggja við á eldinn.
8 Og synir Arons, prestarnir, skulu raða stykkjunum, höfðinu og mörnum ofan á viðinn, sem lagður er á eldinn, sem er á altarinu.
9 En innýflin og fæturna skal þvo í vatni, og skal presturinn brenna það allt á altarinu til brennifórnar, eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin.
10 Sé fórnargjöf sú, er hann fram ber til brennifórnar, af sauðfénaði, af sauðkindum eða geitum, þá skal það, er hann fórnar, vera karlkyns og gallalaust.
11 Og skal hann slátra því við altarið norðanvert frammi fyrir Drottni, en synir Arons, prestarnir, skulu stökkva blóðinu úr því utan á altarið allt í kring.
12 Síðan skal hann hluta það sundur, og skal presturinn raða stykkjunum ásamt höfðinu og mörnum ofan á viðinn, sem lagður er á eldinn, sem er á altarinu.
13 En innýflin og fæturna skal þvo í vatni, og skal presturinn fram bera það allt og brenna á altarinu. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.
14 Vilji hann færa Drottni brennifórn af fuglum, þá taki hann til fórnar sinnar turtildúfur eða ungar dúfur.
15 Skal presturinn bera fuglinn að altarinu og klípa af höfuðið og brenna það á altarinu, en blóðið skal kreista út á altarishliðina.
16 Og hann skal taka sarpinn með fiðrinu á og kasta honum við austurhlið altarisins, þar sem askan er látin.
17 Og hann skal rífa vængina frá, en þó eigi slíta þá af, og skal presturinn brenna hann á altarinu, ofan á viðnum, sem lagður er á eldinn. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.
20 Þá lét Pílatus taka Jesú og húðstrýkja hann.
2 Hermennirnir fléttuðu kórónu úr þyrnum og settu á höfuð honum og lögðu yfir hann purpurakápu.
3 Þeir gengu hver af öðrum fyrir hann og sögðu: "Sæll þú, konungur Gyðinga," og slógu hann í andlitið.
4 Pílatus gekk aftur út fyrir og sagði við þá: "Nú leiði ég hann út til yðar, svo að þér skiljið, að ég finn enga sök hjá honum."
5 Jesús kom þá út fyrir með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Pílatus segir við þá: "Sjáið manninn!"
6 Þegar æðstu prestarnir og verðirnir sáu hann, æptu þeir: "Krossfestu, krossfestu!" Pílatus sagði við þá: "Takið þér hann og krossfestið. Ég finn enga sök hjá honum."
7 Gyðingar svöruðu: "Vér höfum lögmál, og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja, því hann hefur gjört sjálfan sig að Guðs syni."
8 Þegar Pílatus heyrði þessi orð, varð hann enn hræddari.
9 Hann fór aftur inn í höllina og segir við Jesú: "Hvaðan ertu?" En Jesús veitti honum ekkert svar.
10 Pílatus segir þá við hann: "Viltu ekki tala við mig? Veistu ekki, að ég hef vald til að láta þig lausan, og ég hef vald til að krossfesta þig?"
11 Jesús svaraði: "Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan. Fyrir því ber sá þyngri sök, sem hefur selt mig þér í hendur."
12 Eftir þetta reyndi Pílatus enn að láta hann lausan. En Gyðingar æptu: "Ef þú lætur hann lausan, ert þú ekki vinur keisarans. Hver sem gjörir sjálfan sig að konungi, rís á móti keisaranum."
13 Þegar Pílatus heyrði þessi orð, leiddi hann Jesú út og settist í dómstólinn á stað þeim, sem nefnist Steinhlað, á hebresku Gabbata.
14 Þá var aðfangadagur páska, um hádegi. Hann sagði við Gyðinga: "Sjáið þar konung yðar!"
15 Þá æptu þeir: "Burt með hann! Burt með hann! Krossfestu hann!" Pílatus segir við þá: "Á ég að krossfesta konung yðar?" Æðstu prestarnir svöruðu: "Vér höfum engan konung nema keisarann."
16 Þá seldi hann þeim hann í hendur, að hann yrði krossfestur. Þeir tóku þá við Jesú.
17 Og hann bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata.
18 Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra sinn til hvorrar handar; Jesús í miðið.
19 Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA.
20 Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku.
21 Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: "Skrifaðu ekki ,konungur Gyðinga`, heldur að hann hafi sagt: ,Ég er konungur Gyðinga`."
22 Pílatus svaraði: "Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað."
23 Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr.
24 Þeir sögðu því hver við annan: "Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann." Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn. Þetta gjörðu hermennirnir.
25 En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena.
26 Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: "Kona, nú er hann sonur þinn."
27 Síðan sagði hann við lærisveininn: "Nú er hún móðir þín." Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.
28 Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: "Mig þyrstir."
29 Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum.
30 Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: "Það er fullkomnað." Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.
31 Nú var aðfangadagur, og til þess að líkin væru ekki á krossunum hvíldardaginn, báðu Gyðingar Pílatus að láta brjóta fótleggi þeirra og taka líkin ofan, enda var mikil helgi þess hvíldardags.
32 Hermenn komu því og brutu fótleggi þeirra, sem með honum voru krossfestir, fyrst annars, svo hins.
33 Þegar þeir komu að Jesú og sáu, að hann var þegar dáinn, brutu þeir ekki fótleggi hans.
34 En einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans, og rann jafnskjótt út blóð og vatn.
35 Sá er séð hefur, vitnar þetta, svo að þér trúið líka og vitnisburður hans er sannur. Og hann veit, að hann segir satt.
36 Þetta varð til þess, að ritningin rættist: "Ekkert bein hans skal brotið."
37 Og enn segir önnur ritning: "Þeir munu horfa til hans, sem þeir stungu."
38 Jósef frá Arímaþeu, sem var lærisveinn Jesú, en á laun af ótta við Gyðinga, bað síðan Pílatus að mega taka ofan líkama Jesú. Pílatus leyfði það. Hann kom þá og tók ofan líkama hans.
39 Þar kom líka Nikódemus, er fyrrum hafði komið til hans um nótt, og hafði með sér blöndu af myrru og alóe, nær hundrað pundum.
40 Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum, eins og Gyðingar búa lík til greftrunar.
41 En á staðnum, þar sem hann var krossfestur, var grasgarður og í garðinum ný gröf, sem enginn hafði enn verið lagður í.
42 Þar lögðu þeir Jesú, því það var aðfangadagur Gyðinga, og gröfin var nærri.
17 Betri er þurr brauðbiti með ró en fullt hús af fórnarkjöti með deilum.
2 Hygginn þræll verður drottnari yfir spilltum syni, og hann tekur erfðahlut með bræðrunum.
3 Deiglan er fyrir silfrið og bræðsluofninn fyrir gullið, en Drottinn prófar hjörtun.
4 Illmennið gefur gaum að fláræðis-vörum, lygin hlýðir á glæpa-tungu.
5 Sá sem gjörir gys að fátækum, óvirðir þann er skóp hann, og sá sem gleðst yfir ógæfu, sleppur ekki óhegndur.
6 Barnabörnin eru kóróna öldunganna, og feðurnir eru heiður barnanna.
7 Ekki hæfa heimskum manni stóryrði, hve miklu síður göfgum manni lygavarir.
8 Mútan er gimsteinn í augum þess er hana fær, hvert sem maður snýr sér með hana, kemur hann sínu fram.
9 Sá sem breiðir yfir bresti, eflir kærleika, en sá sem ýfir upp sök, veldur vinaskilnaði.
10 Ávítur fá meira á hygginn mann en hundrað högg á heimskingja.
11 Uppreisnarmaðurinn hyggur á illt eitt, en grimmur sendiboði mun sendur verða móti honum.
12 Betra er fyrir mann að mæta birnu, sem rænd er húnum sínum, heldur en heimskingja í flónsku hans.
13 Sá sem launar gott með illu, frá hans húsi víkur ógæfan eigi.
14 Þegar deila byrjar, er sem tekin sé úr stífla, lát því af þrætunni, áður en rifrildi hefst.
15 Sá sem sekan sýknar, og sá sem saklausan sakfellir, þeir eru báðir Drottni andstyggð.
16 Hvað stoða peningar í hendi heimskingjans til þess að kaupa speki, þar sem vitið er ekkert?
17 Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir.
18 Óvitur maður er sá, er til handsala gengur, sá sem gengur í ábyrgð fyrir náunga sinn.
19 Sá elskar yfirsjón, sem þrætu elskar, sá sem háar gjörir dyr sínar, sækist eftir hruni.
20 Rangsnúið hjarta öðlast enga gæfu, og sá sem hefir fláráða tungu, hrapar í ógæfu.
21 Sá sem getur af sér heimskingja, honum verður það til mæðu, og faðir glópsins fagnar ekki.
22 Glatt hjarta veitir góða heilsubót, en dapurt geð skrælir beinin.
23 Hinn óguðlegi þiggur mútur á laun til þess að beygja leiðir réttvísinnar.
24 Hygginn maður hefir viskuna fyrir framan sig, en augu heimskingjans eru úti á heimsenda.
25 Heimskur sonur er föður sínum til sorgar og þeirri til angurs, er ól hann.
26 Það eitt að sekta saklausan er ekki gott, en að berja tignarmenni tekur þó út yfir.
27 Fámálugur maður er hygginn, og geðrór maður er skynsamur.
28 Afglapinn getur jafnvel álitist vitur, ef hann þegir, hygginn, ef hann lokar vörunum.
4 Þess vegna, mínir elskuðu og þráðu bræður, gleði mín og kóróna, standið þá stöðugir í Drottni, þér elskuðu.
2 Evodíu áminni ég og Sýntýke áminni ég um að vera samlyndar vegna Drottins.
3 Já, ég bið einnig þig, trúlyndi samþjónn, hjálpa þú þeim, því að þær börðust með mér við boðun fagnaðarerindisins, ásamt Klemens og öðrum samverkamönnum mínum, og standa nöfn þeirra í lífsins bók.
4 Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir.
5 Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.
6 Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.
7 Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.
8 Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.
9 Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.
10 Ég varð mjög glaður í Drottni yfir því, að hagur yðar hefur loks batnað svo aftur, að þér gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þér hugsað til mín, en gátuð ekki sýnt það.
11 Ekki segi ég þetta vegna þess, að ég hafi liðið skort, því að ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er.
12 Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort.
13 Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.
14 Engu að síður gjörðuð þér vel í því, að taka þátt með mér í þrengingu minni.
15 Þér vitið og, Filippímenn, að þegar ég í upphafi boðaði yður fagnaðarerindið og var farinn burt úr Makedóníu, hafði enginn söfnuður nema þér einir reikning hjá mér yfir gefið og þegið.
16 Meira að segja, þegar ég var í Þessaloníku, senduð þér mér oftar en einu sinni til nauðsynja minna.
17 Ekki að mér væri svo umhugað um gjöfina sem um ábata þann, sem ríkulega rennur í yðar reikning.
18 En nú hef ég fengið allt og hef meira en nóg síðan ég af hendi Epafrodítusar tók við sendingunni frá yður, þægilegum ilm, þekkri fórn, Guði velþóknanlegri.
19 En Guð minn mun af auðlegð dýrðar sinnar í Kristi Jesú uppfylla sérhverja þörf yðar.
20 Guði og föður vorum sé dýrðin um aldir alda. Amen.
21 Heilsið öllum heilögum í Kristi Jesú.
22 Bræðurnir, sem hjá mér eru, biðja að heilsa yður. Allir hinir heilögu biðja að heilsa yður, en einkanlega þeir, sem eru í þjónustu keisarans.
by Icelandic Bible Society