Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 31

31 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Sjá, ég hefi kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl.

Ég hefi fyllt hann Guðs anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik,

til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri

og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar smíði.

Og sjá, ég hefi fengið honum til aðstoðar Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl. Og öllum hugvitsmönnum hefi ég gefið vísdóm, að þeir megi gjöra allt það, sem ég hefi fyrir þig lagt:

samfundatjaldið, sáttmálsörkina, lokið, sem er yfir henni, og öll áhöld tjaldsins,

borðið og áhöld þess, gull-ljósastikuna og öll áhöld hennar og reykelsisaltarið,

brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, kerið og stétt þess,

10 glitklæðin, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans,

11 smurningarolíuna og ilmreykelsið til helgidómsins. Allt skulu þeir gjöra eins og ég hefi fyrir þig lagt."

12 Drottinn talaði við Móse og sagði:

13 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: ,Sannlega skuluð þér halda mína hvíldardaga, því að það er teikn milli mín og yðar frá kyni til kyns, svo að þér vitið, að ég er Drottinn, sá er yður helgar.

14 Haldið því hvíldardaginn, því að hann skal vera yður heilagur. Hver sem vanhelgar hann, skal vissulega líflátinn verða, því að hver sem þá vinnur nokkurt verk, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni.

15 Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn er algjör hvíldardagur, helgaður Drottni. Hver sem verk vinnur á hvíldardegi, skal vissulega líflátinn verða.

16 Fyrir því skulu Ísraelsmenn gæta hvíldardagsins, svo að þeir haldi hvíldardaginn heilagan frá kyni til kyns sem ævinlegan sáttmála.

17 Ævinlega skal hann vera teikn milli mín og Ísraelsmanna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, en sjöunda daginn hvíldist hann og endurnærðist."`

18 Þegar Drottinn hafði lokið viðræðunum við Móse á Sínaífjalli, fékk hann honum tvær sáttmálstöflur, steintöflur, ritaðar með fingri Guðs.

Jóhannesarguðspjall 10

10 "Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið, heldur fer yfir annars staðar, hann er þjófur og ræningi,

en sá sem kemur inn um dyrnar, er hirðir sauðanna.

Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum, og sauðirnir heyra raust hans, og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út.

Þegar hann hefur látið út alla sauði sína, fer hann á undan þeim, og þeir fylgja honum, af því að þeir þekkja raust hans.

En ókunnugum fylgja þeir ekki, heldur flýja frá honum, því þeir þekkja ekki raust ókunnugra."

Þessa líkingu sagði Jesús þeim. En þeir skildu ekki hvað það þýddi, sem hann var að tala við þá.

Því sagði Jesús aftur: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna.

Allir þeir, sem á undan mér komu, eru þjófar og ræningjar, enda hlýddu sauðirnir þeim ekki.

Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga.

10 Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð.

11 Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.

12 Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.

13 Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina.

14 Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig,

15 eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.

16 Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

17 Fyrir því elskar faðirinn mig, að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur.

18 Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þessa skipan fékk ég frá föður mínum."

19 Aftur varð ágreiningur með Gyðingum út af þessum orðum.

20 Margir þeirra sögðu: "Hann hefur illan anda og er genginn af vitinu. Hvað eruð þér að hlusta á hann?"

21 Aðrir sögðu: "Þessi orð mælir enginn sá, sem hefur illan anda. Mundi illur andi geta opnað augu blindra?"

22 Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur.

23 Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum.

24 Þá söfnuðust Gyðingar um hann og sögðu við hann: "Hve lengi lætur þú oss í óvissu? Ef þú ert Kristur, þá seg oss það berum orðum."

25 Jesús svaraði þeim: "Ég hef sagt yður það, en þér trúið ekki. Verkin, sem ég gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig,

26 en þér trúið ekki, því að þér eruð ekki úr hópi sauða minna.

27 Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér.

28 Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni.

29 Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins.

30 Ég og faðirinn erum eitt."

31 Gyðingar tóku aftur upp steina til að grýta hann.

32 Jesús mælti við þá: "Ég hef sýnt yður mörg góð verk frá föður mínum. Fyrir hvert þeirra verka viljið þér grýta mig?"

33 Gyðingar svöruðu honum: "Vér grýtum þig ekki fyrir góð verk, heldur fyrir guðlast, að þú, sem ert maður, gjörir sjálfan þig að Guði."

34 Jesús svaraði þeim: "Er ekki skrifað í lögmáli yðar: ,Ég hef sagt: Þér eruð guðir`?

35 Ef það nefnir þá guði, sem Guðs orð kom til, _ og ritningin verður ekki felld úr gildi, _

36 segið þér þá við mig, sem faðirinn helgaði og sendi í heiminn, að ég guðlasti, af því ég sagði: ,Ég er sonur Guðs`?

37 Ef ég vinn ekki verk föður míns, trúið mér þá ekki,

38 en ef ég vinn þau, þá trúið verkunum, þótt þér trúið mér ekki, svo að þér skiljið og vitið, að faðirinn er í mér og ég í föðurnum."

39 Nú reyndu þeir aftur að grípa hann, en hann gekk úr greipum þeirra.

40 Hann fór aftur burt yfir um Jórdan, þangað sem Jóhannes hafði fyrrum verið að skíra, og var þar um kyrrt.

41 Margir komu til hans. Þeir sögðu: "Víst gjörði Jóhannes ekkert tákn, en allt er það satt, sem hann sagði um þennan mann."

42 Og þarna tóku margir trú á hann.

Orðskviðirnir 7

Son minn, varðveit þú orð mín og geym þú hjá þér boðorð mín.

Varðveit þú boðorð mín, og þá munt þú lifa, og áminning mína eins og sjáaldur auga þíns.

Bind þau á fingur þína, skrifa þau á spjald hjarta þíns.

Seg við spekina: "Þú ert systir mín!" og kallaðu skynsemina vinkonu,

svo að þær varðveiti þig fyrir léttúðarkonu, fyrir blíðmálugri konu sem annar á.

Út um gluggann á húsi mínu, út um grindurnar skimaði ég

og sá þar meðal sveinanna ungan og vitstola mann.

Hann gekk á strætinu nálægt horni einu og fetaði leiðina að húsi hennar,

í rökkrinu, að kveldi dags, um miðja nótt og í niðdimmu.

10 Gekk þá kona í móti honum, búin sem portkona og undirförul í hjarta _

11 hávær er hún og óhemjuleg, fætur hennar tolla aldrei heima,

12 hún er ýmist á götunum eða á torgunum, og situr um menn hjá hverju horni _,

13 hún þrífur í hann og kyssir hann og segir við hann, ósvífin í bragði:

14 "Ég átti að greiða heillafórn, í dag hefi ég goldið heit mitt.

15 Fyrir því fór ég út til móts við þig, til þess að leita þín, og hefi nú fundið þig.

16 Ég hefi búið rúm mitt ábreiðum, marglitum ábreiðum úr egypsku líni.

17 Myrru, alóe og kanel hefi ég stökkt á hvílu mína.

18 Kom þú, við skulum drekka okkur ástdrukkin fram á morgun, gamna okkur með blíðuhótum.

19 Því að maðurinn minn er ekki heima, hann er farinn í langferð.

20 Peningapyngjuna tók hann með sér, hann kemur ekki heim fyrr en í tunglfylling."

21 Hún tældi hann með sínum áköfu fortölum, ginnti hann með kjassmælum sínum.

22 Hann fer rakleiðis á eftir henni, eins og naut gengur fram á blóðvöllinn, og eins og hjörtur, sem anar í netið,

23 uns örin fer í gegnum lifur hans, eins og fuglinn hraðar sér í snöruna, og veit ekki, að líf hans er í veði.

24 Og nú, þér yngismenn, hlýðið á mig og gefið gaum að orðum munns míns.

25 Lát eigi hjarta þitt teygjast á vegu hennar, villst eigi inn á stigu hennar.

26 Því að margir eru þeir, sem hún hefir sært til ólífis, og mesti grúi allir þeir, sem hún hefir myrt.

27 Hús hennar er helvegur, er liggur niður til heimkynna dauðans.

Bréf Páls til Galatamanna 6

Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.

Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.

Sá sem þykist vera nokkuð, en er þó ekkert, dregur sjálfan sig á tálar.

En sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra,

því að sérhver mun verða að bera sína byrði.

En sá, sem uppfræðist í orðinu, veiti þeim, sem uppfræðir, hlutdeild með sér í öllum gæðum.

Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.

Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.

Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.

10 Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.

11 Sjáið, með hversu stórum stöfum ég skrifa yður með eigin hendi.

12 Allir þeir, sem vilja líta vel út að holdinu til, það eru þeir, sem eru að þröngva yður til að láta umskerast, einungis til þess að þeir verði eigi ofsóttir vegna kross Krists.

13 Því að ekki halda einu sinni sjálfir umskurnarmennirnir lögmálið, heldur vilja þeir að þér látið umskerast, til þess að þeir geti stært sig af holdi yðar.

14 En það sé fjarri mér að hrósa mér af öðru en krossi Drottins vors Jesú Krists. Sakir hans er ég krossfestur heiminum og heimurinn mér.

15 Umskurn eða yfirhúð skipta engu, heldur að vera ný sköpun.

16 Og yfir öllum þeim, sem þessari reglu fylgja, sé friður og miskunn, og yfir Ísrael Guðs.

17 Enginn mæði mig héðan í frá, því að ég ber merki Jesú á líkama mínum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society