Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 13

13 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði:

"Þú skalt helga mér alla frumburði. Hvað eina sem opnar móðurlíf meðal Ísraelsmanna, hvort heldur er menn eða fénaður, það er mitt."

Móse sagði við fólkið: "Verið minnugir þessa dags, er þér fóruð burt úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, því með voldugri hendi leiddi Drottinn yður út þaðan: Sýrð brauð má eigi eta.

Í dag farið þér af stað, í abíb-mánuði.

Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Hevíta og Jebúsíta, sem hann sór feðrum þínum að gefa þér, í það land, sem flýtur í mjólk og hunangi, þá skaltu halda þennan sið í þessum sama mánuði.

Sjö daga skaltu eta ósýrt brauð, og á hinum sjöunda degi skal vera hátíð Drottins.

Ósýrt brauð skal eta í þá sjö daga, ekkert sýrt brauð má sjást hjá þér, og ekki má heldur súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja.

Á þeim degi skaltu gjöra syni þínum grein fyrir þessu og segja: ,Það er sökum þess sem Drottinn gjörði fyrir mig, þá er ég fór út af Egyptalandi.`

Og þetta skal vera þér til merkis á hendi þinni og til minningar á milli augna þinna, svo að lögmál Drottins sé þér æ á vörum, því með voldugri hendi leiddi Drottinn þig út af Egyptalandi.

10 Þessa skipun skaltu því halda á ákveðnum tíma ár frá ári.

11 Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanaaníta, eins og hann sór þér og feðrum þínum, og gefur þér það,

12 þá skaltu eigna Drottni allt það, sem opnar móðurlíf. Og allir frumburðir, sem koma undan þeim fénaði, er þú átt, skulu heyra Drottni til, séu þeir karlkyns.

13 Alla frumburði undan ösnum skaltu leysa með lambi. Leysir þú ekki, skaltu brjóta þá úr hálsliðum. En alla frumburði manna meðal barna þinna skaltu leysa.

14 Og þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: ,Hvað á þetta að þýða?` þá svara honum: ,Með voldugri hendi leiddi Drottinn oss út af Egyptalandi, úr þrælahúsinu,

15 því þegar Faraó synjaði oss þverlega fararleyfis, þá deyddi Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, bæði frumburði manna og frumburði fénaðar. Þess vegna fórnfæri ég Drottni öllu, sem opnar móðurlíf, en alla frumburði barna minna leysi ég.`

16 Og það skal vera merki á hendi þér og minningarband á milli augna þinna um það, að Drottinn leiddi oss út af Egyptalandi með voldugri hendi."

17 Þegar Faraó hafði gefið fólkinu fararleyfi, leiddi Guð þá ekki á leið til Filistalands, þótt sú leið væri skemmst, _ því að Guð sagði: "Vera má að fólkið iðrist, þegar það sér, að ófriðar er von, og snúi svo aftur til Egyptalands,"

18 _ heldur lét Guð fólkið fara í bug eyðimerkurveginn til Sefhafsins, og fóru Ísraelsmenn vígbúnir af Egyptalandi.

19 Móse tók með sér bein Jósefs, því að hann hafði tekið eið af Ísraelsmönnum og sagt: "Sannlega mun Guð vitja yðar. Flytjið þá bein mín héðan burt með yður."

20 Þeir tóku sig upp frá Súkkót og settu búðir sínar í Etam, þar sem eyðimörkina þrýtur.

21 Drottinn gekk fyrir þeim á daginn í skýstólpa til að vísa þeim veg, en á nóttunni í eldstólpa til að lýsa þeim, svo að þeir gætu ferðast nótt sem dag.

22 Skýstólpinn vék ekki frá fólkinu á daginn, né heldur eldstólpinn á nóttunni.

Lúkasarguðspjall 16

16 Enn sagði hann við lærisveina sína: "Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans.

Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: ,Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.`

Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: ,Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla.

Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.`

Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: ,Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum?`

Hann svaraði: ,Hundrað kvartil viðsmjörs.` Hann mælti þá við hann: ,Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu.`

Síðan sagði hann við annan: ,En hvað skuldar þú?` Hann svaraði: ,Hundrað tunnur hveitis.` Og hann sagði honum: ,Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.`

Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.

Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.

10 Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu.

11 Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði?

12 Og ef þér reynist ekki trúir í því sem annars er, hver gefur yður þá það, sem yðar er?

13 Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón."

14 En farísearnir, sem voru menn fégjarnir, heyrðu þetta og gjörðu gys að honum.

15 En hann sagði við þá: "Þér eruð þeir, sem réttlætið sjálfa yður í augum manna, en Guð þekkir hjörtu yðar. Því það, sem hátt er að dómi manna, er viðurstyggð í augum Guðs.

16 Lögmálið og spámennirnir ná fram til Jóhannesar. Þaðan í frá er flutt fagnaðarerindi Guðs ríkis, og hver maður vill ryðjast þar inn.

17 En það er auðveldara, að himinn og jörð líði undir lok, en einn stafkrókur lögmálsins falli úr gildi.

18 Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann, drýgir hór.

19 Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði.

20 En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus.

21 Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans.

22 En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.

23 Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans.

24 Þá kallaði hann: ,Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.`

25 Abraham sagði: ,Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst.

26 Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.`

27 En hann sagði: ,Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns,

28 en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.`

29 En Abraham segir: ,Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.`

30 Hinn svaraði: ,Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.`

31 En Abraham sagði við hann: ,Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum."`

Jobsbók 31

31 Ég hafði gjört sáttmála við augu mín; hvernig hefði ég þá átt að líta til yngismeyjar?

Og hvert væri þá hlutskiptið frá Guði hér að ofan og arfleifðin frá hinum Almáttka af hæðum?

Er það ekki glötun fyrir glæpamanninn og ógæfa fyrir þá, er illt fremja?

Sér hann ekki vegu mína, og telur hann ekki öll mín spor?

Hafi ég gengið með lyginni og fótur minn hraðað sér til svika _

vegi Guð mig á rétta vog, til þess að hann viðurkenni sakleysi mitt! _

hafi spor mín vikið af leið, hjarta mitt farið eftir fýsn augna minna og flekkur loðað við hendur mínar,

þá eti annar það, sem ég sái, og frjóangar mínir verði rifnir upp með rótum.

Hafi hjarta mitt látið ginnast vegna einhverrar konu, og hafi ég staðið á hleri við dyr náunga míns,

10 þá mali kona mín fyrir annan, og aðrir menn leggist með henni.

11 Því að slíkt væri óhæfa og glæpur, sem dómurum ber að hegna fyrir,

12 því að það væri eldur, sem eyðir ofan í undirdjúpin og hlyti að uppræta allar eigur mínar.

13 Hafi ég lítilsvirt rétt þjóns míns eða þernu minnar, þá er þau áttu í deilu við mig,

14 hvað ætti ég þá að gjöra, þegar Guð risi upp, og hverju svara honum, þegar hann rannsakaði?

15 Hefir eigi sá er mig skóp, skapað þjón minn í móðurlífi, og hefir ekki hinn sami myndað okkur í móðurkviði?

16 Hafi ég synjað fátækum bónar og látið augu ekkjunnar daprast,

17 hafi ég etið bitann minn einn; og munaðarleysinginn ekkert fengið af honum _

18 nei, frá barnæsku minni hefir hann vaxið upp hjá mér sem hjá föður og frá móðurlífi hefi ég leitt hann _

19 hafi ég séð aumingja klæðlausan og snauðan mann ábreiðulausan,

20 hafi lendar hans ekki blessað mig og hafi honum ekki hitnað við ullina af sauðum mínum;

21 hafi ég reitt hnefann að munaðarleysingjanum, af því að ég sá mér liðsvon í borgarhliðinu,

22 þá detti axlir mínar frá herðunum og handleggur minn brotni úr axlarliðnum.

23 Því að glötunin frá Guði var mér skelfileg, og gegn hátign hans megna ég ekkert.

24 Hafi ég gjört gullið að athvarfi mínu og nefnt skíragullið fulltrúa minn,

25 hafi ég glaðst yfir því, að auður minn var mikill og að hönd mín aflaði svo ríkulega,

26 hafi ég horft á sólina, hversu hún skein, og á tunglið, hversu dýrlega það óð áfram,

27 og hafi hjarta mitt þá látið tælast í leynum, svo að ég bæri hönd að munni og kyssti hana,

28 það hefði líka verið hegningarverð synd, því að þá hefði ég afneitað Guði á hæðum.

29 Hafi ég glaðst yfir óförum fjandmanns míns og hlakkað yfir því, að ógæfa kom yfir hann _

30 nei, aldrei hefi ég leyft munni mínum svo að syndga að ég með formælingum óskaði dauða hans.

31 Hafa ekki heimilismenn mínir sagt: "Hvenær hefir nokkur farið ósaddur frá borði hans?"

32 ég lét ekki aðkomumann nátta á bersvæði, heldur opnaði ég dyr mínar fyrir ferðamanninum.

33 Hafi ég hulið yfirsjónir mínar, eins og menn gjöra, og falið misgjörð mína í brjósti mínu,

34 af því að ég hræddist mannfjöldann, og af því að fyrirlitning ættanna fældi mig, svo að ég hafði hægt um mig og fór ekki út fyrir dyr,

35 Ó að ég hefði þann, er hlusta vildi á mig! Hér er undirskrift mín _ hinn Almáttki svari mér! Sá sem mig ákærir, skrifi sitt ákæruskjal!

36 Vissulega skyldi ég bera það á öxlinni, binda það sem höfuðsveig um ennið,

37 ég skyldi segja Guði frá hverju spori mínu og ganga sem höfðingi fram fyrir hann! Hér enda ræður Jobs.

38 hafi akurland mitt hrópað undan mér og öll plógför þess grátið,

39 hafi ég etið gróður þess endurgjaldslaust og slökkt líf eiganda þess,

40 þá spretti þyrnar upp í stað hveitis og illgresi í stað byggs.

Síðara bréf Páls til Kori 1

Páll, að Guðs vilja postuli Krists Jesú, og Tímóteus, bróðir vor, heilsa söfnuði Guðs, sem er í Korintu, ásamt öllum heilögum, í gjörvallri Akkeu.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar,

sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.

Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig hljótum vér og huggun í ríkum mæli fyrir Krist.

En ef vér sætum þrengingum, þá er það yður til huggunar og hjálpræðis, og ef vér hljótum huggun, þá er það til þess að þér hljótið huggun og kraft til að standast þær þjáningar, sem vér einnig líðum.

Von vor um yður er staðföst. Vér vitum, að þér eigið hlut í huggun vorri eins og þér eigið hlut í þjáningum vorum.

Vér viljum ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þrenging þá, sem vér urðum fyrir í Asíu. Vér vorum aðþrengdir langt um megn fram, svo að vér jafnvel örvæntum um lífið.

Já, oss sýndist sjálfum, að vér hefðum þegar fengið vorn dauðadóm. Því að oss átti að lærast það að treysta ekki sjálfum oss, heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu.

10 Úr slíkri dauðans hættu frelsaði hann oss og mun frelsa oss. Til hans höfum vér sett von vora, að hann muni enn frelsa oss.

11 Til þess getið þér og hjálpað með því að biðja fyrir oss. Þá munu margir þakka þá náðargjöf, sem oss er veitt að fyrirbæn margra.

12 Þetta er hrósun vor: Samviska vor vitnar um, að vér höfum lifað í heiminum, og sérstaklega hjá yður, í heilagleika og hreinleika, sem kemur frá Guði, ekki látið stjórnast af mannlegri speki, heldur af náð Guðs.

13 Vér skrifum yður ekki annað en það, sem þér getið lesið og skilið. Ég vona, að þér munið til fulls skilja það,

14 sem yður er að nokkru ljóst, að þér getið miklast af oss eins og vér af yður á degi Drottins vors Jesú.

15 Í þessu trausti var það ásetningur minn að koma fyrst til yðar, til þess að þér skylduð verða tvöfaldrar gleði aðnjótandi.

16 Ég hugðist bæði koma við hjá yður á leiðinni til Makedóníu og aftur á leiðinni þaðan og láta yður búa ferð mína til Júdeu.

17 Var það nú svo mikið hverflyndi af mér, er ég afréð þetta? Eða ræð ég ráðum mínum að hætti heimsins, svo að hjá mér sé "já, já" sama og "nei, nei"?

18 Svo sannarlega sem Guð er trúr: Það, sem vér segjum yður, er ekki bæði já og nei.

19 Sonur Guðs, Jesús Kristur, sem vér höfum prédikað á meðal yðar, ég, Silvanus og Tímóteus, var ekki bæði "já" og "nei", heldur er allt í honum "já".

20 Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru, þá er játun þeirra í honum. Þess vegna segjum vér og fyrir hann amen Guði til dýrðar.

21 Það er Guð, sem gjörir oss ásamt yður staðfasta í Kristi og hefur smurt oss.

22 Hann hefur sett innsigli sitt á oss og gefið oss anda sinn sem pant í hjörtum vorum.

23 Ég kalla Guð til vitnis og legg líf mitt við, að það er af hlífð við yður, að ég hef enn þá ekki komið til Korintu.

24 Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar. Því að í trúnni standið þér.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society