M’Cheyne Bible Reading Plan
16 Drottinn talaði við Móse eftir dauða tveggja sona Arons, er þeir gengu fram fyrir Drottin og dóu.
2 Og Drottinn sagði við Móse: "Seg þú Aroni bróður þínum, að hann megi ekki á hverjum tíma sem er ganga inn í helgidóminn inn fyrir fortjaldið, fram fyrir lokið, sem er yfir örkinni, ella muni hann deyja, því að ég mun birtast í skýinu yfir lokinu.
3 Með þetta skal Aron koma inn í helgidóminn: Með ungneyti í syndafórn og hrút í brennifórn.
4 Hann skal klæðast helgum línkyrtli og hafa línbrækur yfir holdi sínu og gyrða sig línbelti og setja á sig vefjarhött af líni. Þetta eru helg klæði. Og skal hann lauga líkama sinn í vatni og klæðast þeim.
5 Af söfnuði Ísraelsmanna skal hann taka tvo geithafra í syndafórn og einn hrút í brennifórn.
6 Aron skal leiða fram uxann, sem honum er ætlaður til syndafórnar, og friðþægja fyrir sig og hús sitt.
7 Þá skal hann taka báða geithafrana og færa þá fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins.
8 Og Aron skal leggja hluti á báða hafrana, einn hlut fyrir Drottin og hinn annan hlut fyrir Asasel.
9 Og Aron skal leiða fram hafurinn, sem hlutur Drottins féll á, og fórna honum í syndafórn.
10 En hafurinn, sem hlutur Asasels féll á, skal færa lifandi fram fyrir Drottin, til þess að friðþæging fari fram yfir honum og honum sé sleppt til Asasels út á eyðimörkina.
11 Aron skal leiða fram uxann, sem honum er ætlaður til syndafórnar, og friðþægja fyrir sig og hús sitt, og hann skal slátra uxanum, sem honum er ætlaður til syndafórnar.
12 Hann skal taka eldpönnu fulla af eldsglóðum af altarinu frammi fyrir Drottni og lúkur sínar fullar af smámuldu ilmreykelsi og bera inn fyrir fortjaldið.
13 Og hann skal láta reykelsið á eldinn frammi fyrir Drottni, svo að reykelsisskýið hylji lokið, sem er yfir sáttmálinu, og hann deyi ekki.
14 Og hann skal taka nokkuð af blóði uxans og stökkva því með fingri sínum ofan á lokið framanvert, og fyrir framan lokið skal hann stökkva sjö sinnum nokkru af blóðinu með fingri sínum.
15 Þessu næst skal hann slátra hafrinum, er ætlaður er lýðnum til syndafórnar, og bera blóð hans inn fyrir fortjaldið og fara með blóðið úr honum á sama hátt, eins og hann fór með blóðið úr uxanum, og stökkva því á lokið og fyrir framan lokið,
16 og friðþægja þannig fyrir helgidóminn, vegna óhreinleika Ísraelsmanna og vegna misgjörða þeirra, í hverju sem þeir kunna að hafa syndgað. Og eins skal hann fara með samfundatjaldið, sem stendur meðal þeirra, mitt í óhreinleika þeirra.
17 Enginn maður má vera inni í samfundatjaldinu, er hann gengur inn til þess að friðþægja í helgidóminum, til þess er hann fer út og hefir friðþægt fyrir sig og hús sitt og fyrir allan Ísraels söfnuð.
18 Hann skal ganga út að altarinu, sem stendur frammi fyrir Drottni, og friðþægja fyrir það. Og hann skal taka nokkuð af blóði uxans og nokkuð af blóði hafursins og ríða á horn altarisins allt í kring.
19 Og hann skal stökkva nokkru af blóðinu á það sjö sinnum með fingri sínum og hreinsa það og helga það vegna óhreinleika Ísraelsmanna.
20 Er hann þannig hefir lokið friðþægingu helgidómsins, samfundatjaldsins og altarisins, skal hann leiða fram lifandi hafurinn.
21 Og Aron skal leggja báðar hendur sínar á höfuð hins lifandi hafurs og játa yfir honum öll afbrot Ísraelsmanna og allar misgjörðir þeirra, í hverju sem þeir kunna að hafa syndgað. Og hann skal leggja þær á höfuð hafursins og senda hann út á eyðimörk með manni, sem til þess er ferðbúinn.
22 Og hafurinn skal bera á sér öll afbrot þeirra til óbyggða, og hann skal sleppa hafrinum á eyðimörk.
23 Og Aron skal ganga inn í samfundatjaldið og færa sig úr línklæðunum, sem hann fór í, er hann gekk inn í helgidóminn, og skilja þau þar eftir.
24 Og hann skal lauga líkama sinn í vatni á helgum stað og fara í klæði sín, ganga síðan út og fórna brennifórn sjálfs sín og brennifórn lýðsins, og friðþægja fyrir sig og fyrir lýðinn.
25 Og mör syndafórnarinnar skal hann brenna á altarinu.
26 Og sá, er fór burt með hafurinn til Asasels, skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar.
27 En syndafórnaruxann og syndafórnarhafurinn, hverra blóð var borið inn til friðþægingar í helgidóminum, skal færa út fyrir herbúðirnar og brenna í eldi skinnin af þeim, kjötið og gorið.
28 Og sá, er brennir þetta, skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar.
29 Þetta skal vera yður ævarandi lögmál: Í sjöunda mánuðinum, á tíunda degi mánaðarins skuluð þér fasta og ekkert verk vinna, hvorki innbornir menn né útlendingar, er meðal yðar búa.
30 Því að á þessum degi skal friðþægt verða fyrir yður til þess að hreinsa yður. Af öllum syndum yðar skuluð þér hreinir vera fyrir Drottni.
31 Það skal vera yður algjör hvíldardagur, og þér skuluð fasta. Það er ævarandi lögmál.
32 En friðþæginguna skal gjöra sá prestur, er smyrja á og vígjast skal til þess, að hann þjóni í prestsembætti í stað föður síns, og skal hann klæðast línklæðunum, hinum helgu klæðum.
33 Hann skal friðþægja fyrir hið helgasta, og hann skal friðþægja fyrir samfundatjaldið og altarið, og hann skal friðþægja fyrir prestana og allt fólk safnaðarins.
34 Þetta skal vera yður ævarandi lögmál: að friðþægja einu sinni á ári fyrir Ísraelsmenn vegna allra synda þeirra." Og hann gjörði svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________
8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
30 Orð Agúrs Jakesonar. Guðmælið. Maðurinn segir: Ég hefi streitst, ó Guð, ég hefi streitst, ó Guð, og er að þrotum kominn.
2 Því að ég er of heimskur til að geta talist maður, og ég hefi eigi mannsvit,
3 ég hefi eigi lært speki, svo að ég hafi þekking á Hinum heilaga.
4 Hver hefir stigið upp til himna og komið niður? Hver hefir safnað vindinum í greipar sínar? Hver hefir bundið vatnið í skikkju sína? Hver hefir reist öll endimörk jarðar? Hvað heitir hann og hvað heitir sonur hans _ fyrst þú veist það?
5 Sérhvert orð Guðs er hreint, hann er skjöldur þeim, er leita hælis hjá honum.
6 Bæt engu við orð hans, til þess að hann ávíti þig eigi og þú standir sem lygari.
7 Um tvennt bið ég þig, synja mér þess eigi, áður en ég dey:
8 Lát fals og lygaorð vera fjarri mér, gef mér hvorki fátækt né auðæfi, en veit mér minn deildan verð.
9 Ég kynni annars að verða of saddur og afneita og segja: "Hver er Drottinn?" eða ef ég yrði fátækur, kynni ég að stela og misbjóða nafni Guðs míns.
10 Ræg eigi þjóninn við húsbónda hans, svo að hann biðji þér ekki óbæna og þú verðir að gjalda.
11 Til er það kyn, sem bölvar föður sínum og blessar ekki móður sína,
12 kyn, sem þykist vera hreint og hefir þó eigi þvegið af sér saurinn
13 kyn, sem lyftir hátt augunum og sperrir upp augnahárin,
14 kyn, sem hefir sverð að tönnum og hnífa að jöxlum til þess að uppeta hina voluðu úr landinu og hina fátæku burt frá mönnunum.
15 Blóðsugan á tvær dætur, sem heita Gefðu! Gefðu! Þrennt er til, sem er óseðjandi, fernt, sem aldrei segir: "Það er nóg!" _
16 Helja og móðurlíf óbyrjunnar, jörðin, sem aldrei seðst af vatni, og eldurinn, sem aldrei segir: "Það er nóg!"
17 Það auga, sem gjörir gys að föður sínum og fyrirlítur hlýðni við móður sína, mega hrafnarnir við lækinn kroppa út og arnarungarnir eta.
18 Þrennt er, sem mér virðist undursamlegt, og fernt, sem ég skil eigi:
19 vegur arnarins um loftið, vegur höggormsins yfir klettinn, vegur skipsins um reginhaf og vegur manns hjá konu.
20 Þannig er atferli hórkonunnar: Hún neytir, þurrkar sér um munninn og segir: "Ég hefi ekkert rangt gjört."
21 Undan þrennu nötrar jörðin, og undir fernu getur hún ekki risið:
22 undir þræli, þegar hann verður konungur, og guðlausum manni, þegar hann mettast brauði,
23 undir smáðri konu, þegar hún giftist, og þernu, þegar hún bolar burt húsmóður sinni.
24 Fjórir eru smáir á jörðinni, og þó eru þeir vitrir spekingar:
25 Maurarnir eru kraftlítil þjóð, og þó afla þeir sér fæðunnar á sumrin.
26 Stökkhérarnir eru þróttlítil þjóð, og þó gjöra þeir sér híbýli í klettunum.
27 Engispretturnar hafa engan konung, og þó fer allur hópurinn út í röð og reglu.
28 Ferfætlunni getur þú náð með tómum höndunum, og þó er hún í konungahöllum.
29 Þrír eru þeir, sem tigulegir eru á velli, og fjórir, sem tigulegir eru í gangi:
30 ljónið, hetjan meðal dýranna, er eigi hopar fyrir neinni skepnu,
31 lendgyrtur hesturinn og geithafurinn og konungur, er enginn fær móti staðið.
32 Hafir þú heimskast til að upphefja sjálfan þig, eða hafir þú gjört það af ásettu ráði, þá legg höndina á munninn!
33 Því að þrýstingur á mjólk framleiðir smjör, og þrýstingur á nasir framleiðir blóð, og þrýstingur á reiði framleiðir deilu.
1 Páll, postuli Krists Jesú, að boði Guðs frelsara vors og Krists Jesú, vonar vorrar, heilsar
2 Tímóteusi, skilgetnum syni sínum í trúnni. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.
3 Þegar ég var á förum til Makedóníu, hvatti ég þig að halda kyrru fyrir í Efesus. Þú áttir að bjóða sumum mönnum að fara ekki með annarlegar kenningar
4 og gefa sig ekki að ævintýrum og endalausum ættartölum, er fremur efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs.
5 Markmið þessarar hvatningar er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.
6 Sumir eru viknir frá þessu og hafa snúið sér til hégómamáls.
7 Þeir vilja vera lögmálskennendur, þó að hvorki skilji þeir, hvað þeir sjálfir segja, né hvað þeir eru að fullyrða.
8 Vér vitum, að lögmálið er gott, noti maðurinn það réttilega
9 og viti að það er ekki ætlað réttlátum, heldur lögleysingjum og þverbrotnum, óguðlegum og syndurum, vanheilögum og óhreinum, föðurmorðingjum og móðurmorðingjum, manndrápurum,
10 frillulífismönnum, mannhórum, mannaþjófum, lygurum, meinsærismönnum, og hvað sem það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu.
11 Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs, sem mér var trúað fyrir.
12 Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu,
13 mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði.
14 Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.
15 Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur.
16 En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.
17 Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.
18 Þetta er það, sem ég minni þig á, barnið mitt, Tímóteus, með þau spádómsorð í huga, sem áður voru yfir þér töluð. Samkvæmt þeim skalt þú berjast hinni góðu baráttu,
19 í trú og með góðri samvisku. Henni hafa sumir frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni.
20 Í tölu þeirra eru þeir Hýmeneus og Alexander, sem ég hef selt Satan á vald, til þess að hirtingin kenni þeim að hætta að guðlasta.
by Icelandic Bible Society