M’Cheyne Bible Reading Plan
1 Drottinn talaði við Móse í Sínaí-eyðimörk, í samfundatjaldinu, á fyrsta degi annars mánaðar á öðru ári eftir brottför þeirra af Egyptalandi og mælti:
2 "Takið manntal alls safnaðar Ísraelsmanna eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, alla karlmenn mann fyrir mann.
3 Alla herfæra menn í Ísrael frá tvítugs aldri og þaðan af eldri skuluð þér telja eftir hersveitum þeirra, þú og Aron.
4 Og með ykkur skal vera einn maður af ættkvísl hverri, og sé hann höfuð ættar sinnar.
5 Þessi eru nöfn þeirra manna, er ykkur skulu aðstoða: Af Rúben: Elísúr Sedeúrsson.
6 Af Símeon: Selúmíel Súrísaddaíson.
7 Af Júda: Nakson Ammínadabsson.
8 Af Íssakar: Netanel Súarsson.
9 Af Sebúlon: Elíab Helónsson.
10 Af Jósefssonum: Af Efraím: Elísama Ammíhúdsson. Af Manasse: Gamlíel Pedasúrsson.
11 Af Benjamín: Abídan Gídeóníson.
12 Af Dan: Akíeser Ammísaddaíson.
13 Af Asser: Pagíel Ókransson.
14 Af Gað: Eljasaf Degúelsson.
15 Af Naftalí: Akíra Enansson."
16 Þessir voru tilnefndir af söfnuðinum, höfðingjar yfir ættkvíslum feðra sinna. Voru þeir höfuð Ísraels þúsunda.
17 Móse og Aron tóku menn þessa, sem nafngreindir eru,
18 og stefndu saman öllum söfnuðinum á fyrsta degi annars mánaðar og skrifuðu þá á ættarskrárnar eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, mann fyrir mann.
19 Svo sem Drottinn hafði boðið Móse, taldi hann þá í Sínaí-eyðimörk.
20 Synir Rúbens, frumgetins sonar Ísraels, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, maður fyrir mann, allir karlmenn frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn,
21 þeir er taldir voru af ættkvísl Rúbens, voru 46.500.
22 Synir Símeons, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, maður fyrir mann, allir karlmenn frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn,
23 þeir er taldir voru af ættkvísl Símeons, voru 59.300.
24 Synir Gaðs, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn,
25 þeir er taldir voru af ættkvísl Gaðs, voru 45.650.
26 Synir Júda, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn,
27 þeir er taldir voru af ættkvísl Júda, voru 74.600.
28 Synir Íssakars, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn,
29 þeir er taldir voru af ættkvísl Íssakars, voru 54.400.
30 Synir Sebúlons, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn,
31 þeir er taldir voru af ættkvísl Sebúlons, voru 57.400.
32 Synir Jósefs: Synir Efraíms, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn,
33 þeir er taldir voru af ættkvísl Efraíms, voru 40.500.
34 Synir Manasse, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn,
35 þeir er taldir voru af ættkvísl Manasse, voru 32.200.
36 Synir Benjamíns, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn,
37 þeir er taldir voru af ættkvísl Benjamíns, voru 35.400.
38 Synir Dans, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn,
39 þeir er taldir voru af ættkvísl Dans, voru 62.700.
40 Synir Assers, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn,
41 þeir er taldir voru af ættkvísl Assers, voru 41.500.
42 Synir Naftalí, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn,
43 þeir er taldir voru af ættkvísl Naftalí, voru 53.400.
44 Þessir eru þeir, er taldir voru, sem þeir Móse, Aron og höfðingjar Ísraels töldu. Voru þeir tólf, einn fyrir hverja ættkvísl hans.
45 Og allir þeir af Ísraelsmönnum, er taldir voru eftir ættum þeirra, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, voru, _
46 allir þeir er taldir voru, voru 603.550.
47 En levítarnir, eftir ættbálki sínum, voru eigi taldir meðal þeirra.
48 Drottinn talaði við Móse og sagði:
49 "Þú skalt þó eigi telja ættkvísl Leví og eigi taka manntal þeirra meðal Ísraelsmanna.
50 En þú skalt setja levítana yfir sáttmálsbúðina og yfir öll áhöld hennar og yfir allt, sem til hennar heyrir. Þeir skulu bera búðina og öll áhöld hennar, og þeir skulu þjóna að henni, og þeir skulu tjalda umhverfis búðina.
51 Og er búðin tekur sig upp, skulu levítarnir taka hana niður, og þegar reisa skal búðina, skulu levítarnir setja hana upp. En komi nokkur annar þar nærri, skal hann líflátinn verða.
52 Ísraelsmenn skulu tjalda hver á sínum stað í herbúðunum og hver hjá sínu merki, eftir hersveitum sínum.
53 En levítarnir skulu tjalda umhverfis sáttmálsbúðina, að reiði komi eigi yfir söfnuð Ísraelsmanna. Og levítarnir skulu annast sáttmálsbúðina."
54 Ísraelsmenn gjörðu svo. Þeir gjörðu í alla staði svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.
2 Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.
3 Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"
4 Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.
5 Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.
6 Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.
7 Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.
8 Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.
9 En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.
10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"
11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.
12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt.
13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði,
14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína.
15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi.
16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér.
17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum.
18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.
19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.
20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.
21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: "Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!"
22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.
23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.
24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér,
25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: "Hæ! Ósk vor er uppfyllt!" lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."
26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér.
27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!"
28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.
11 Varpa þú brauði þínu út á vatnið, því þegar margir dagar eru um liðnir, munt þú finna það aftur.
2 Skiptu hlutanum sundur í sjö eða jafnvel átta, því að þú veist ekki, hvaða ógæfa muni koma yfir landið.
3 Þegar skýin eru orðin full af vatni, hella þau regni yfir jörðina. Og þegar tré fellur til suðurs eða norðurs _ á þeim stað, þar sem tréð fellur, þar liggur það kyrrt.
4 Sá sem sífellt gáir að vindinum, sáir ekki, og sá sem sífellt horfir á skýin, uppsker ekki.
5 Eins og þú veist ekki, hvaða veg vindurinn fer og hvernig beinin myndast í móðurkviði þungaðrar konu, eins þekkir þú heldur ekki verk Guðs, sem allt gjörir.
6 Sá sæði þínu að morgni og lát hendur þínar eigi hvílast að kveldi, því að þú veist ekki, hvað muni heppnast, þetta eða hitt, eða hvort tveggja verði gott.
7 Indælt er ljósið, og ljúft er fyrir augun að horfa á sólina.
8 Því lifi maðurinn mörg ár, þá á hann að vera glaður öll þau ár og minnast þess, að dagar myrkursins verða margir. Allt sem á eftir kemur er hégómi.
9 Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast, en vit, að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm.
10 Og hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum, því að æska og morgunroði lífsins eru hverful.
3 Minn þá á að vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum, hlýðnir og reiðubúnir til sérhvers góðs verks,
2 lastmæla engum, vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn.
3 Því að þeir voru tímarnir, að vér vorum einnig óskynsamir, óhlýðnir, villuráfandi, í ánauð hvers konar fýsna og lostasemda. Vér ólum aldur vorn í illsku og öfund, vorum andstyggilegir, hötuðum hver annan.
4 En er gæska Guðs frelsara vors birtist og elska hans til mannanna,
5 þá frelsaði hann oss, ekki vegna réttlætisverkanna, sem vér höfðum unnið, heldur samkvæmt miskunn sinni í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gjörir oss nýja.
6 Hann úthellti anda sínum yfir oss ríkulega fyrir Jesú Krist, frelsara vorn,
7 til þess að vér, réttlættir fyrir náð hans, yrðum í voninni erfingjar eilífs lífs.
8 Það orð er satt, og á þetta vil ég að þú leggir alla áherslu, til þess að þeir, sem fest hafa trú á Guð, láti sér umhugað um að stunda góð verk. Þetta er gott og mönnum nytsamlegt.
9 En forðast þú heimskulegar þrætur og ættartölur, deilur og lögmálsstælur. Þær eru gagnslausar og til einskis.
10 Þrætumanni skalt þú sneiða hjá, er þú hefur einu sinni og tvisvar áminnt hann.
11 Þú veist að slíkur maður er rangsnúinn og syndugur. Hann er sjálfdæmdur.
12 Þegar ég sendi Artemas til þín eða Týkíkus, kom þá sem fyrst til mín í Nikópólis, því þar hef ég ásett mér að hafa vetrarvist.
13 Greið sem best för þeirra Senasar lögvitrings og Apollóss, til þess að þá bresti ekkert.
14 En vorir menn eiga og að læra að stunda góð verk til nauðsynjaþarfa, til þess að þeir séu ekki ávaxtalausir.
by Icelandic Bible Society