Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Þriðja bók Móse 22

22 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Seg þú Aroni og sonum hans, að þeir skuli halda sér frá helgigjöfum Ísraelsmanna, þeim er þeir helga mér, svo að þeir vanhelgi eigi heilagt nafn mitt. Ég er Drottinn.

Seg við þá: Hver sá af niðjum yðar, nú og í komandi kynslóðum, er kemur nærri helgigjöfum þeim, er Ísraelsmenn helga Drottni, meðan hann er óhreinn, skal upprættur verða frá augliti mínu. Ég er Drottinn.

Eigi skal neinn sá af niðjum Arons, sem líkþrár er eða hefir rennsli, eta af helgigjöfunum, uns hann er hreinn. Og sá, er snertir einhvern þann, sem saurgaður er af líki, eða mann sem hefir sáðlát,

eða sá, sem snert hefir eitthvert skriðkvikindi og saurgast af því, eða mann og saurgast af honum, hverrar tegundar sem óhreinleiki hans er, _

sá er snert hefir slíkt, skal vera óhreinn til kvelds. Og eigi skal hann eta af helgigjöfunum nema hann laugi líkama sinn í vatni.

En jafnskjótt og sól er setst, er hann hreinn, og síðan eti hann af helgigjöfunum, því að það er matur hans.

Sjálfdauða skepnu eða dýrrifna skal hann eigi eta, svo að hann saurgist af. Ég er Drottinn.

Þeir skulu því varðveita boðorð mín, svo að þeir baki sér eigi synd fyrir slíkt og deyi vegna þess, fyrir því að þeir vanhelguðu það. Ég er Drottinn, sá er helgar þá.

10 Enginn sá, er eigi heyrir skylduliði prests, skal eta helgan dóm. Hvorki hjábýlingur prests né kaupamaður skal eta helgan dóm.

11 En kaupi prestur þræl verði, þá skal hann eta af því, svo og sá er fæddur er í húsi hans. Þeir skulu eta af mat hans.

12 Eigi skal prestsdóttir, sé hún leikmanni gefin, eta af hinum heilögu fórnargjöfum.

13 En sé dóttir prests ekkja eða kona brott rekin og eigi ekki barna og sé horfin aftur í hús föður síns, eins og í æsku hennar, skal hún eta af mat föður síns. En enginn sá, er eigi heyrir skylduliði prests, skal eta af honum.

14 Nú etur einhver af vangá helgan dóm, og skal hann þá færa presti hinn helga dóm og greiða fimmtung umfram.

15 Þeir skulu eigi vanhelga helgigjafir Ísraelsmanna, það er þeir færa Drottni í lyftifórn,

16 svo að þeir baki þeim eigi sekt með misgjörð sinni, er þeir eta helgigjafir þeirra, því að ég er Drottinn, sá er helgar þá."

17 Drottinn talaði við Móse og sagði:

18 "Mæl þú til Arons og sona hans og allra Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er einhver af húsi Ísraels eða útlendum mönnum í Ísrael ber fram fórnargjöf sína, hvort sem það er einhver heitfórn þeirra eða sjálfviljafórn, sem þeir færa Drottni að brennifórn,

19 þá skuluð þér bera hana svo fram, að hún afli yður velþóknunar: gallalausa, karlkyns, af nautum, sauðum eða geitum.

20 Eigi skuluð þér bera fram neitt það, er lýti hefir á sér, því að það mun eigi afla yður velþóknunar.

21 Nú vill einhver fórna Drottni heillafórn af nautum eða sauðfénaði, hvort heldur er til að efna heit sitt eða í sjálfviljafórn, þá skal það vera gallalaust, til þess að það afli honum velþóknunar. Ekkert lýti sé á því.

22 Það sem blint er eða beinbrotið eða sært eða með kýlum eða kláða eða útbrotum, það skuluð þér eigi færa Drottni, og eigi skuluð þér bera Drottni eldfórn af því á altarið.

23 En nautkind eða sauðkind, sem hefir lim ofskapaðan eða vanskapaðan, mátt þú fórna í sjálfviljafórn, en sem heitfórn mun hún eigi verða þóknanleg.

24 Það sem vanað er með kramningu, marningu, sliti eða skurði, skuluð þér eigi færa Drottni, og þér skuluð eigi slíkt gjöra í landi yðar.

25 Né heldur skuluð þér fá neitt af þessu hjá útlendum manni og bera það fram svo sem mat Guðs yðar, því að skemmd er á því. Lýti er á því, það mun eigi afla yður velþóknunar."

26 Drottinn talaði við Móse og sagði:

27 "Þá er kálfur, lamb eða kið fæðist, skal það ganga sjö daga undir móðurinni, en átta daga gamalt og þaðan af eldra mun það verða þóknanlega meðtekið sem eldfórnargjöf Drottni til handa.

28 Þér skuluð eigi slátra kú eða á sama daginn og afkvæmi hennar.

29 Er þér fórnið Drottni þakkarfórn, þá fórnið henni svo, að hún afli yður velþóknunar.

30 Skal hún etin samdægurs, eigi skuluð þér leifa neinu af henni til morguns. Ég er Drottinn.

31 Varðveitið því skipanir mínar og haldið þær. Ég er Drottinn.

32 Og eigi skuluð þér vanhelga heilagt nafn mitt, svo að ég helgist meðal Ísraelsmanna. Ég er Drottinn, sá er yður helgar,

33 sá er leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera Guð yðar. Ég er Drottinn."

Sálmarnir 28-29

28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.

Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.

Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.

Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.

Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.

Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.

Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.

Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.

Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.

29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.

Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.

Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.

Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.

Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.

Raust Drottins klýfur eldsloga.

Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.

Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!

10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.

11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.

Prédikarinn 5

Vertu ekki of munnhvatur, og hjarta þitt hraði sér ekki að mæla orð frammi fyrir Guði, því að Guð er á himnum, en þú á jörðu, ver því eigi margorður.

Því að draumar koma, þar sem áhyggjurnar eru miklar, og heimskutal, þar sem mörg orð eru viðhöfð.

Þegar þú gjörir Guði heit, þá fresta þú eigi að efna það, því að hann hefir eigi velþóknun á heimskingjum. Efn það er þú heitir.

Betra er að þú heitir engu en að þú heitir og efnir ekki.

Leyf eigi munni þínum að baka líkama þínum sekt og seg eigi við sendiboðann: Það var fljótfærni! Hvers vegna á Guð að reiðast tali þínu og skemma verk handa þinna?

Því að þar sem mikið er um drauma og orð, þar er og mikill hégómi. Óttastu heldur Guð!

Sjáir þú hinn snauða undirokaðan og að rétti og réttlæti er rænt í héraðinu, þá furða þú þig ekki á því athæfi, því að hár vakir yfir háum og hinn hæsti yfir þeim öllum.

Konungur, sem gefinn er fyrir jarðyrkju, er í alla staði ávinningur fyrir land.

Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum, og sá sem elskar auðinn, hefir ekki gagn af honum. Einnig það er hégómi.

10 Þar sem eigurnar vaxa, þar fjölgar og þeim er eyða þeim, og hvaða ábata hefir eigandinn af þeim annan en að horfa á þær?

11 Sætur er svefninn þeim sem erfiðar, hvort sem hann etur lítið eða mikið, en offylli hins auðuga lætur hann eigi hafa frið til að sofa.

12 Til er slæmt böl, sem ég hefi séð undir sólinni: auður sem eigandinn varðveitir sjálfum sér til ógæfu.

13 Missist þessi auður fyrir slys, og hafi eigandinn eignast son, þá verður ekkert til handa honum.

14 Eins og hann kom af móðurlífi, svo mun hann nakinn fara burt aftur eins og hann kom, og hann mun ekkert á burt hafa fyrir strit sitt, það er hann taki með sér í hendi sér.

15 Einnig það er slæmt böl: Með öllu svo sem hann kom mun hann aftur fara, og hvaða ávinning hefir hann af því, að hann stritar út í veður og vind?

16 Auk þess elur hann allan aldur sinn í myrkri og við sorg og mikla gremju og þjáning og reiði.

17 Sjá, það sem ég hefi séð, að er gott og fagurt, það er, að maðurinn eti og drekki og njóti fagnaðar af öllu striti sínu, því er hann streitist við undir sólinni alla ævidaga sína, þá er Guð gefur honum, því að það er hlutdeild hans.

18 Og þegar Guð gefur einhverjum manni ríkidæmi og auðæfi og gjörir hann færan um að njóta þess og taka hlutdeild sína og að gleðjast yfir starfi sínu, þá er og það Guðs gjöf.

19 Því að slíkur maður hugsar ekki mikið um ævidaga lífs síns, meðan Guð lætur hann hafa nóg að sýsla við fögnuð hjarta síns.

Síðara bréf Páls til Tímó 1

Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú til að flytja fyrirheitið um lífið í Kristi Jesú, heilsar

Tímóteusi, elskuðum syni sínum. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.

Þakkir gjöri ég Guði, sem ég þjóna, eins og forfeður mínir, með hreinni samvisku, því að án afláts, nótt og dag, minnist ég þín í bænum mínum.

Ég þrái að sjá þig, minnugur tára þinna, til þess að ég fyllist gleði

er ég rifja upp fyrir mér hina hræsnislausu trú þína. Sú trú bjó fyrst í henni Lóis ömmu þinni og í henni Evnike móður þinni, og ég er sannfærður um, að hún býr líka í þér.

Fyrir þá sök minni ég þig á að glæða hjá þér þá náðargjöf, sem Guð gaf þér við yfirlagningu handa minna.

Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.

Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn, né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins, svo sem Guð gefur máttinn til.

Hann hefur frelsað oss og kallað heilagri köllun, ekki eftir verkum vorum, heldur eftir eigin ákvörðun og náð, sem oss var gefin fyrir Krist Jesú frá eilífum tímum,

10 en hefur nú birst við komu frelsara vors Krists Jesú. Hann afmáði dauðann, en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.

11 Og til að boða það er ég settur prédikari, postuli og kennari.

12 Fyrir þá sök líð ég og þetta. En eigi fyrirverð ég mig, því að ég veit á hvern ég trúi. Og ég er sannfærður um, að hann er þess megnugur að varðveita það, sem mér er trúað fyrir, þar til dagurinn kemur.

13 Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.

14 Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr.

15 Þú veist þetta, að allir Asíumenn sneru við mér bakinu. Í þeirra flokki eru þeir Fýgelus og Hermogenes.

16 Drottinn veiti miskunn heimili Ónesífórusar, því að oft hressti hann mig og fyrirvarð sig ekki fyrir fjötur minn,

17 heldur lét sér annt um að leita mín, þegar hann kom til Rómar og fann mig.

18 Gefi Drottinn honum miskunn að finna hjá Drottni Guði á þeim degi! Og þú þekkir manna best, hve mikla þjónustu hann innti af hendi í Efesus.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society