Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Þriðja bók Móse 9

Á áttunda degi kallaði Móse fyrir sig Aron og sonu hans og öldunga Ísraels

og sagði við Aron: "Tak þér nautkálf í syndafórn og hrút í brennifórn, gallalausa, og leið þá fram fyrir Drottin.

En til Ísraelsmanna skalt þú tala á þessa leið: ,Takið geithafur í syndafórn, og kálf og sauðkind, bæði veturgömul og gallalaus, í brennifórn,

og uxa og hrút í heillafórn, til þess að slátra þeim frammi fyrir Drottni, og matfórn olíublandaða, því að í dag mun Drottinn birtast yður."`

Og þeir færðu það, sem Móse hafði boðið, fram fyrir samfundatjaldið, og allur söfnuðurinn kom og nam staðar frammi fyrir Drottni.

Móse sagði: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið. Gjörið það, og mun dýrð Drottins birtast yður."

Því næst mælti Móse til Arons: "Gakk þú að altarinu og fórna syndafórn þinni og brennifórn þinni, og friðþæg þú fyrir þig og fyrir lýðinn. Fram ber því næst fórnargjöf lýðsins og friðþæg fyrir þá, svo sem Drottinn hefir boðið."

Aron gekk þá að altarinu og slátraði kálfinum, er honum var ætlaður til syndafórnar.

En synir Arons færðu honum blóðið, og hann drap fingri sínum í blóðið og reið því á horn altarisins, en hinu blóðinu hellti hann niður við altarið.

10 En mörinn, nýrun og stærra lifrarblaðið úr syndafórninni brenndi hann á altarinu, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

11 En kjötið og húðina brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar.

12 Síðan slátraði hann brennifórninni, og synir Arons réttu að honum blóðið, en hann stökkti því allt um kring á altarið.

13 Þeir réttu og að honum brennifórnina í stykkjum og höfuðið, og hann brenndi hana á altarinu.

14 Og hann þvoði innýflin og fæturna og brenndi á altarinu, ofan á brennifórninni.

15 Þá bar hann fram fórnargjöf lýðsins, tók hafurinn, sem ætlaður var lýðnum til syndafórnar, slátraði honum og færði hann í syndafórn, eins og kálfinn áður.

16 Hann fram bar og brennifórnina og fórnaði henni að réttum sið.

17 Og hann fram bar matfórnina, tók af henni hnefafylli sína og brenndi á altarinu auk morgun-brennifórnarinnar.

18 Því næst slátraði hann uxanum og hrútnum til heillafórnar fyrir lýðinn. En synir Arons réttu að honum blóðið, _ en hann stökkti því allt í kring á altarið _,

19 svo og mörstykkin úr uxanum og af hrútnum rófuna, netjuna, sem hylur iðrin, nýrun og stærra lifrarblaðið.

20 Og þeir lögðu mörinn ofan á bringurnar, en hann brenndi mörinn á altarinu.

21 En bringunum og hægra lærinu veifaði Aron til veififórnar frammi fyrir Drottni, svo sem Móse hafði boðið.

22 Síðan hóf Aron upp hendur sínar yfir fólkið og blessaði það. Og hann sté niður, er hann hafði fórnað syndafórninni, brennifórninni og heillafórninni.

23 Móse og Aron gengu inn í samfundatjaldið, og er þeir komu út aftur, blessuðu þeir fólkið. Birtist þá dýrð Drottins öllum lýðnum.

24 Eldur gekk út frá Drottni og eyddi brennifórninni og mörnum á altarinu. En er allur lýðurinn sá þetta, hófu þeir upp fagnaðaróp og féllu fram á ásjónur sínar.

Sálmarnir 10

10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?

Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.

Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.

Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.

Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.

Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."

Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.

Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.

Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.

10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.

11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."

12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.

13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?

14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.

15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.

16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.

17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.

18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.

Orðskviðirnir 24

24 Öfunda ekki vonda menn og lát þig ekki langa til að vera með þeim,

því að hjarta þeirra býr yfir ofríkisverkum, og varir þeirra mæla ógæfu.

Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast,

fyrir þekking fyllast forðabúrin alls konar dýrum og yndislegum fjármunum.

Vitur maður er betri en sterkur og fróður maður betri en aflmikill,

því að holl ráð skalt þú hafa, er þú heyr stríð, og þar sem margir ráðgjafar eru, fer allt vel.

Viskan er afglapanum ofviða, í borgarhliðinu lýkur hann ekki upp munni sínum.

Þann sem leggur stund á að gjöra illt, kalla menn varmenni.

Syndin er fíflslegt fyrirtæki, og spottarinn er mönnum andstyggð.

10 Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill.

11 Frelsaðu þá, sem leiddir eru fram til lífláts, og þyrm þeim, sem ganga skjögrandi að höggstokknum.

12 Segir þú: "Vér vissum það eigi," _ sá sem vegur hjörtun, hann verður sannarlega var við það, og sá sem vakir yfir sálu þinni, hann veit það og mun gjalda manninum eftir verkum hans.

13 Et þú hunang, son minn, því að það er gott, og hunangsseimur er gómi þínum sætur.

14 Nem á sama hátt speki fyrir sálu þína, finnir þú hana, er framtíð fyrir hendi, og von þín mun eigi að engu verða.

15 Sit eigi, þú hinn óguðlegi, um bústað hins réttláta og eyðilegg ekki heimkynni hans,

16 því að sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur aftur upp, en óguðlegir steypast í ógæfu.

17 Gleð þig eigi yfir falli óvinar þíns, og hjarta þitt fagni eigi yfir því að hann steypist,

18 svo að Drottinn sjái það ekki og honum mislíki, og hann snúi reiði sinni frá honum til þín.

19 Reiðst ekki vegna illgjörðamanna, öfunda eigi óguðlega,

20 því að vondur maður á enga framtíð fyrir höndum, á lampa óguðlegra slokknar.

21 Son minn, óttastu Drottin og konunginn, samlaga þig ekki óróaseggjum,

22 því að ógæfa þeirra ríður að þegar minnst varir, og ófarir beggja _ hver veit um þær?

23 Þessir orðskviðir eru líka eftir spekinga. Hlutdrægni í dómi er ljót.

24 Þeim sem segir við hinn seka: "Þú hefir rétt fyrir þér!" honum formæla menn, honum bölvar fólk.

25 En þeim sem hegna eins og ber, mun vel vegna, yfir þá kemur ríkuleg blessun.

26 Sá kyssir á varirnar, sem veitir rétt svör.

27 Annastu verk þitt utan húss og ljúk því á akrinum, síðan getur þú byggt hús þitt.

28 Vertu eigi vottur gegn náunga þínum að ástæðulausu, eða mundir þú vilja svíkja með vörum þínum?

29 Seg þú ekki: "Eins og hann gjörði mér, eins ætla ég honum að gjöra, ég ætla að endurgjalda manninum eftir verkum hans!"

30 Mér varð gengið fram hjá akri letingja nokkurs og fram hjá víngarði óviturs manns.

31 Og sjá, hann var allur vaxinn klungrum, hann var alþakinn netlum, og steingarðurinn umhverfis hann var hruninn.

32 En ég varð þess var, veitti því athygli, sá það og lét mér það að kenningu verða:

33 Sofa ögn enn, blunda ögn enn, leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast,

34 þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi og skorturinn eins og vopnaður maður.

Fyrra bréf Páls til Þessa 3

Þar kom, að vér þoldum ekki lengur við og réðum þá af að verða einir eftir í Aþenu,

en sendum Tímóteus, bróður vorn og aðstoðarmann Guðs við fagnaðarerindið um Krist, til að styrkja yður og áminna í trú yðar,

svo að enginn láti bifast í þrengingum þessum. Þér vitið sjálfir, að þetta er oss ætlað.

Þegar vér vorum hjá yður, þá sögðum vér yður fyrir, að vér mundum verða að þola þrengingar. Það kom líka fram, eins og þér vitið.

Því þoldi ég ekki lengur við og sendi Tímóteus til að fá að vita um trú yðar, hvort freistarinn kynni að hafa freistað yðar og erfiði vort orðið til einskis.

En nú er hann aftur kominn til vor frá yður og hefur borið oss gleðifregn um trú yðar og kærleika, að þér ávallt munið eftir oss með hlýjum hug og yður langi til að sjá oss, eins og oss líka til að sjá yður.

Sökum þessa höfum vér, bræður, huggun hlotið vegna trúar yðar þrátt fyrir alla neyð og þrengingu.

Nú lifum vér, ef þér standið stöðugir í Drottni.

Hvernig getum vér nógsamlega þakkað Guði fyrir alla þá gleði, er vér höfum af yður frammi fyrir Guði vorum?

10 Og vér biðjum nótt og dag, heitt og af hjarta, að fá að sjá yður og bæta úr því, sem trú yðar er áfátt.

11 Sjálfur Guð og faðir vor og Drottinn vor Jesús greiði veg vorn til yðar.

12 En Drottinn efli yður og auðgi að kærleika hvern til annars og til allra, eins og vér berum kærleika til yðar.

13 Þannig styrkir hann hjörtu yðar, svo að þér verðið óaðfinnanlegir og heilagir frammi fyrir Guði, föður vorum, við komu Drottins vors Jesú ásamt öllum hans heilögu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society