Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
56 Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat.
2 Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.
3 Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.
4 Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.
5 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér?
6 Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.
7 Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.
8 Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.
9 Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.
10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér.
11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.
12 Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir,
14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.
8 Þá kom orð Drottins til hans, svolátandi:
9 "Tak þig upp og far til Sarefta, sem tilheyrir Sídon, og sest þar að. Sjá, ég hefi boðið ekkju nokkurri þar að fæða þig."
10 Þá tók hann sig upp og fór til Sarefta. Og er hann kom að borgarhliðinu, var ekkja þar að tína saman viðarkvisti. Hann kallaði til hennar og mælti: "Sæk þú mér dálítið af vatni í ílátinu, að ég megi drekka."
11 Og hún fór að sækja það, en hann kallaði á eftir henni og mælti: "Færðu mér líka brauðbita."
12 Hún svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, á ég enga köku til, heldur aðeins hnefa mjöls í skjólu og lítið eitt af viðsmjöri í krús. Og sjá, ég er að tína saman fáeina viðarkvisti. Síðan ætla ég heim og matbúa þetta handa mér og syni mínum, að við megum eta það og deyja síðan."
13 En Elía sagði við hana: "Óttast ekki! Far þú heim og gjör sem þú sagðir. Gjör þú mér samt fyrst litla köku af því og fær mér út hingað, en matreið síðan handa þér og syni þínum.
14 Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölskjólan skal eigi tóm verða og viðsmjörið í krúsinni ekki þrjóta, allt til þess dags, er Drottinn gefur regn á jörð."
15 Þá fór hún og gjörði eins og Elía hafði sagt, og hún hafði nóg að eta, bæði hún og hann og sonur hennar, um langa hríð.
16 Mjölskjólan varð ekki tóm og viðsmjörið í krúsinni þraut ekki, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Elía.
6 Speki tölum vér meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar, sem að engu verða,
7 heldur tölum vér leynda speki Guðs, sem hulin hefur verið, en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað oss til dýrðar.
8 Enginn af höfðingjum þessarar aldar þekkti hana, því að ef þeir hefðu þekkt hana, hefðu þeir ekki krossfest Drottin dýrðarinnar.
9 En það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.
10 En oss hefur Guð opinberað hana fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.
11 Hver meðal manna veit hvað mannsins er, nema andi mannsins, sem í honum er? Þannig hefur heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs andi.
12 En vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið.
13 Enda tölum vér það ekki með orðum, sem mannlegur vísdómur kennir, heldur með orðum, sem andinn kennir, og útlistum andleg efni á andlegan hátt.
14 Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega.
15 En hinn andlegi dæmir um allt, en um hann sjálfan verður ekki dæmt af neinum.
16 Því að hver hefur þekkt huga Drottins, að hann geti frætt hann? En vér höfum huga Krists.
by Icelandic Bible Society