Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
8 Allur lýðurinn safnaðist saman eins og einn maður á torginu fyrir framan Vatnshliðið. Og þeir báðu Esra fræðimann að sækja lögmálsbók Móse, er Drottinn hafði sett Ísrael.
2 Þá kom Esra prestur með lögmálið fram fyrir söfnuðinn, bæði karla og konur og alla þá, er vit höfðu á að taka eftir, á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar.
3 Og hann las upp úr því á torginu, sem er fyrir framan Vatnshliðið, frá birtingu til hádegis, í viðurvist karla og kvenna og þeirra barna, er vit höfðu á, og eyru alls lýðsins hlýddu á lögmálsbókina.
5 Og Esra lauk upp bókinni í augsýn alls fólksins, því að hann stóð hærra en allur lýðurinn, og þegar hann lauk henni upp, stóð allur lýðurinn upp.
6 Og Esra lofaði Drottin, hinn mikla Guð, og allur lýðurinn svaraði: "Amen! amen!" og fórnuðu þeir um leið upp höndunum og beygðu sig og féllu fram á ásjónur sínar til jarðar fyrir Drottni.
8 Þeir lásu skýrt upp úr bókinni, lögmáli Guðs, og útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna.
9 Og Nehemía _ það er landstjórinn _ og Esra prestur, fræðimaðurinn, og levítarnir, sem fræddu lýðinn, sögðu við gjörvallan lýðinn: "Þessi dagur er helgaður Drottni, Guði yðar. Sýtið eigi né grátið!" Því að allur lýðurinn grét, þegar þeir heyrðu orð lögmálsins.
10 Og Esra sagði við þá: "Farið og etið feitan mat og drekkið sæt vín og sendið þeim skammta, sem ekkert er tilreitt fyrir, því að þessi dagur er helgaður Drottni vorum. Verið því eigi hryggir, því að gleði Drottins er hlífiskjöldur yðar."
19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________
8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
12 Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur.
13 Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.
14 Því að líkaminn er ekki einn limur, heldur margir.
15 Ef fóturinn segði: "Fyrst ég er ekki hönd, heyri ég ekki líkamanum til," þá er hann ekki fyrir það líkamanum óháður.
16 Og ef eyrað segði: "Fyrst ég er ekki auga, heyri ég ekki líkamanum til," þá er það ekki þar fyrir líkamanum óháð.
17 Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin? Ef hann væri allur heyrn, hvar væri þá ilmanin?
18 En nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist.
19 Ef allir limirnir væru einn limur, hvar væri þá líkaminn?
20 En nú eru limirnir margir, en líkaminn einn.
21 Augað getur ekki sagt við höndina: "Ég þarfnast þín ekki!" né heldur höfuðið við fæturna: "Ég þarfnast ykkar ekki!"
22 Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbyggðara lagi.
23 Og þeim, sem oss virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum vér því meiri sæmd, og þeim, sem vér blygðumst vor fyrir, sýnum vér því meiri blygðunarsemi.
24 Þess þarfnast hinir ásjálegu limir vorir ekki. En Guð setti líkamann svo saman, að hann gaf þeim, sem síðri var, því meiri sæmd,
25 til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum, heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.
26 Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum.
27 Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig.
28 Guð hefur sett nokkra í kirkjunni, fyrst postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi fræðara, sumum hefur hann veitt gáfu að gjöra kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum.
29 Hvort eru allir postular? Hvort eru allir spámenn? Hvort eru allir fræðarar? Hvort eru allir kraftaverkamenn?
30 Hvort hafa allir hlotið lækningagáfu? Hvort tala allir tungum? Hvort útlista allir tungutal?
31 Nei, sækist heldur eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. Og nú bendi ég yður á enn þá miklu ágætari leið.
14 En Jesús sneri aftur til Galíleu í krafti andans, og fóru fregnir af honum um allt nágrennið.
15 Hann kenndi í samkundum þeirra, og lofuðu hann allir.
16 Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa.
17 Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er:
18 Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa
19 og kunngjöra náðarár Drottins.
20 Síðan lukti hann aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum.
21 Hann tók þá að tala til þeirra: "Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar."
by Icelandic Bible Society