Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?
3 Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.
4 Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,
5 að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.
6 Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.
7 Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.
8 Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn.
9 Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.
10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna.
11 Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan.
12 Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof.
27 Þá komu dætur Selofhaðs Heferssonar, Gíleaðssonar, Makírssonar, Manassesonar, af kynkvíslum Manasse Jósefssonar. Þær hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa.
2 Gengu þær fyrir Móse og Eleasar prest og fyrir höfuðsmennina og allan söfnuðinn, fyrir dyrum samfundatjaldsins, og sögðu:
3 "Faðir vor dó í eyðimörkinni, og var hann þó ekki í flokki þeirra manna, er samblástur gjörðu gegn Drottni, í flokki Kóra, því að hann dó vegna sinnar eigin syndar. En hann átti enga sonu.
4 Hvers vegna á nú nafn föður vors að hverfa úr ætt hans, af því að hann átti engan son? Fá oss óðal meðal bræðra föður vors."
5 Móse flutti mál þeirra fyrir Drottin.
6 Og Drottinn sagði við Móse: "Dætur Selofhaðs hafa rétt að mæla.
7 Fá þeim óðalsland meðal bræðra föður þeirra, og þú skalt láta eignarland föður þeirra ganga til þeirra.
8 En til Ísraelsmanna skalt þú mæla þessum orðum: ,Nú deyr maður og á ekki son. Skuluð þér þá láta eignarland hans ganga til dóttur hans.
9 En eigi hann enga dóttur, þá skuluð þér fá bræðrum hans eignarland hans.
10 En eigi hann enga bræður, þá skuluð þér fá föðurbræðrum hans eignarland hans.
11 En eigi faðir hans enga bræður, þá skuluð þér fá nánasta skyldmenni hans í ættinni eignarland hans, hann skal eignast það."` Þetta skulu lög vera með Ísraelsmönnum, svo sem Drottinn hefir boðið Móse.
33 Enginn kveikir ljós og setur það í felur né undir mæliker, heldur á ljósastiku, svo að þeir, sem inn koma, sjái ljósið.
34 Auga þitt er lampi líkamans. Þegar auga þitt er heilt, þá er og allur líkami þinn bjartur, en sé það spillt, þá er og líkami þinn dimmur.
35 Gæt því þess, að ljósið í þér sé ekki myrkur.
36 Sé því líkami þinn allur bjartur og hvergi myrkur í honum, verður hann allur í birtu, eins og þegar lampi lýsir á þig með loga sínum."
by Icelandic Bible Society