Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:89-96

89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.

90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.

91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.

92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.

93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.

94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.

95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.

96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.

Jeremía 36:1-10

36 Á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs, kom þetta orð til Jeremía frá Drottni:

Tak þér bókrollu og rita á hana öll þau orð, sem ég hefi til þín talað um Ísrael og Júda og allar þjóðir, frá þeim degi er ég talaði við þig, frá dögum Jósía, og allt fram á þennan dag;

vera má að Júda hús hlýði á alla þá ógæfu, sem ég hygg að leiða yfir þá, svo að þeir snúi sér, hver og einn frá sínum vonda vegi, og þá mun ég fyrirgefa þeim misgjörð þeirra og synd.

Þá kallaði Jeremía á Barúk Neríason, og Barúk ritaði af munni Jeremía á bókrolluna öll orð Drottins, þau er hann hafði til hans talað.

Og Jeremía skipaði Barúk og mælti: "Mér er tálmað, ég get ekki farið í musteri Drottins.

Far þú því og lestu upphátt úr bókrollunni það, er þú hefir ritað af munni mér, orðin Drottins, fyrir lýðnum í musteri Drottins á föstu-degi. Þú skalt og lesa þau upphátt fyrir öllum Júdamönnum, sem komnir eru hingað úr borgum sínum.

Vera má, að þeir gjöri auðmjúkir bæn sína til Drottins og snúi sér hver og einn frá sínum vonda vegi, því að mikil er reiðin og heiftin, sem Drottinn hefir hótað þessum lýð."

Og Barúk Neríason gjörði með öllu svo sem Jeremía spámaður lagði fyrir hann og las orð Drottins upphátt úr bókinni í musteri Drottins.

En á fimmta ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, í níunda mánuðinum, boðuðu menn allan lýðinn í Jerúsalem og allt það fólk, sem komið var úr Júdaborgum til Jerúsalem, til föstuhalds fyrir Drottni.

10 Þá las Barúk upphátt fyrir öllum lýðnum úr bókinni orð Jeremía í musteri Drottins, í herbergi Gemaría Safanssonar kanslara, í efra forgarðinum, við nýja hliðið á musteri Drottins.

Fyrra bréf Páls til Korin 14:1-12

14 Keppið eftir kærleikanum. Sækist eftir gáfum andans, en einkum eftir spádómsgáfu.

Því að sá, sem talar tungum, talar ekki við menn, heldur við Guð. Enginn skilur hann, í anda talar hann leyndardóma.

En spámaðurinn talar til manna, þeim til uppbyggingar, áminningar og huggunar.

Sá, sem talar tungum, byggir upp sjálfan sig, en spámaðurinn byggir upp söfnuðinn.

Ég vildi að þér töluðuð allir tungum, en þó enn meir, að þér hefðuð spádómsgáfu. Það er meira vert en að tala tungum, nema það sé útlagt, til þess að söfnuðurinn hljóti uppbygging.

Hvað mundi ég gagna yður, bræður, ef ég nú kæmi til yðar og talaði tungum, en flytti yður ekki opinberun eða þekkingu eða spádóm eða kenningu?

Jafnvel hinir dauðu hlutir, sem gefa hljóð frá sér, hvort heldur er pípa eða harpa, _ ef þær gefa ekki mismunandi hljóð frá sér, hvernig ætti þá að skiljast það, sem leikið er á pípuna eða hörpuna?

Gefi lúðurinn óskilmerkilegt hljóð, hver býr sig þá til bardaga?

Svo er og um yður: Ef þér mælið ekki með tungu yðar fram skilmerkileg orð, hvernig verður það þá skilið, sem talað er? Því að þér talið þá út í bláinn.

10 Hversu margar tegundir tungumála, sem kunna að vera til í heiminum, ekkert þeirra er þó málleysa.

11 Ef ég nú þekki ekki merkingu málsins, verð ég sem útlendingur fyrir þeim, sem talar, og hann útlendingur fyrir mér.

12 Eins er um yður. Fyrst þér sækist eftir gáfum andans, leitist þá við að vera auðugir að þeim, söfnuðinum til uppbyggingar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society