Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
36 Í Joppe var lærisveinn, kona að nafni Tabíþa, á grísku Dorkas. Hún var mjög góðgerðasöm og örlát við snauða.
37 En á þeim dögum tók hún sótt og andaðist. Var hún lauguð og lögð í loftstofu.
38 Nú er Lýdda í grennd við Joppe, og höfðu lærisveinarnir heyrt, að Pétur væri þar. Sendu þeir tvo menn til hans og báðu hann: "Kom án tafar til vor."
39 Pétur brá við og fór með þeim. Þegar þangað kom, fóru þeir með hann upp í loftstofuna, og allar ekkjurnar komu til hans grátandi og sýndu honum kyrtla og yfirhafnir, sem Dorkas hafði gjört, meðan hún var hjá þeim.
40 En Pétur lét alla fara út, féll á kné og baðst fyrir. Síðan sneri hann sér að líkinu og sagði: "Tabíþa, rís upp." En hún opnaði augun, sá Pétur og settist upp.
41 Og hann rétti henni höndina og reisti hana á fætur, kallaði síðan á hina heilögu og ekkjurnar og leiddi hana fram lifandi.
42 Þetta varð hljóðbært um alla Joppe, og margir tóku trú á Drottin.
43 Var Pétur um kyrrt í Joppe allmarga daga hjá Símoni nokkrum sútara.
23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
3 Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.
5 Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.
6 Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
9 Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum.
10 Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.
11 Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð
12 og sögðu: Amen, lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen.
13 Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: "Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?"
14 Og ég sagði við hann: "Herra minn, þú veist það." Hann sagði við mig: "Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.
15 Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá.
16 Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti.
17 Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra."
22 Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur.
23 Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum.
24 Þá söfnuðust Gyðingar um hann og sögðu við hann: "Hve lengi lætur þú oss í óvissu? Ef þú ert Kristur, þá seg oss það berum orðum."
25 Jesús svaraði þeim: "Ég hef sagt yður það, en þér trúið ekki. Verkin, sem ég gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig,
26 en þér trúið ekki, því að þér eruð ekki úr hópi sauða minna.
27 Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér.
28 Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni.
29 Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins.
30 Ég og faðirinn erum eitt."
by Icelandic Bible Society