Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
2 Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.
4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.
5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."
6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."
7 Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.
10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.
11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.
12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.
13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.
15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.
17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.
19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.
21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
54 Fagna, þú óbyrja, sem ekki hefir fætt! Hef upp gleðisöng, lát við kveða fagnaðaróp, þú sem eigi hefir haft fæðingarhríðir! Því að börn hinnar yfirgefnu munu fleiri verða en giftu konunnar, _ segir Drottinn.
2 Víkka þú út tjald þitt, og lát þá þenja út tjalddúka búðar þinnar, meina þeim það ekki, gjör tjaldstög þín löng og rek fast hælana.
3 Því að þú munt útbreiðast til hægri og vinstri, og niðjar þínir munu eignast lönd þjóðanna og byggja eyddar borgir.
4 Óttast eigi, því að þú skalt eigi til skammar verða, lát eigi háðungina á þér festa, því að þú skalt eigi þurfa að fyrirverða þig. Því að þú skalt gleyma vanvirðu æsku þinnar og eigi framar minnast svívirðingar ekkjudóms þíns.
5 Því að hann, sem skóp þig, er eiginmaður þinn, Drottinn allsherjar er nafn hans. Og Hinn heilagi í Ísrael er frelsari þinn, Guð gjörvallrar jarðarinnar heitir hann.
6 Drottinn kallar þig sem yfirgefna konu og harmþrungna, og æskunnar brúður, sem verið hefir ein látin, _ segir Guð þinn.
7 Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér.
8 Í ofurreiði minni byrgði ég auglit mitt fyrir þér um stund, en með eilífri líkn miskunna ég þér, _ segir endurlausnari þinn, Drottinn.
9 Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða.
10 Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.
11 Verið ekki hálfvolgir í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni.
12 Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni.
13 Takið þátt í þörfum heilagra, stundið gestrisni.
14 Blessið þá, er ofsækja yður, blessið þá, en bölvið þeim ekki.
15 Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.
16 Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður ekki hyggna með sjálfum yður.
17 Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.
18 Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.
19 Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: "Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn."
20 En "ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum."
21 Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.
by Icelandic Bible Society