Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.
2 Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.
3 Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.
4 Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.
5 Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.
6 Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.
7 Raust Drottins klýfur eldsloga.
8 Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.
9 Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!
10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.
11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.
1 Orð prédikarans, sonar Davíðs, konungs í Jerúsalem.
2 Aumasti hégómi, segir prédikarinn, aumasti hégómi, allt er hégómi!
3 Hvaða ávinning hefir maðurinn af öllu striti sínu, er hann streitist við undir sólinni?
4 Ein kynslóðin fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu.
5 Og sólin rennur upp, og sólin gengur undir og hraðar sér til samastaðar síns, þar sem hún rennur upp.
6 Vindurinn gengur til suðurs og snýr sér til norðurs, hann snýr sér og snýr sér og fer aftur að hringsnúast á nýjan leik.
7 Allar ár renna í sjóinn, en sjórinn verður aldrei fullur, þangað sem árnar renna, þangað halda þær ávallt áfram að renna.
8 Allt er sístritandi, enginn maður fær því með orðum lýst, augað verður aldrei satt af að sjá, og eyrað verður aldrei mett af að heyra.
9 Það sem hefir verið, það mun verða, og það sem gjörst hefir, það mun gjörast, og ekkert er nýtt undir sólinni.
10 Sé nokkuð til, er um verði sagt: sjá, þetta er nýtt _ þá hefir það orðið fyrir löngu, á tímum sem á undan oss voru.
11 Forfeðranna minnast menn eigi, og ekki verður heldur eftirkomendanna, sem síðar verða uppi, minnst meðal þeirra, sem síðar verða.
18 Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs.
19 Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra.
20 Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku?
21 Því þar eð heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð í speki hans, þóknaðist Guði að frelsa þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar.
22 Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki,
23 en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku,
24 en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs.
25 Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.
26 Bræður, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir.
27 En Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku, til að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða.
28 Og hið ógöfuga í heiminum og hið fyrirlitna hefur Guð útvalið, það sem ekkert er, til þess að gjöra að engu það, sem eitthvað er,
29 til þess að enginn maður skuli hrósa sér fyrir Guði.
30 Honum er það að þakka að þér eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn oss vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn.
31 Eins og ritað er: "Sá, sem hrósar sér, hrósi sér í Drottni."
by Icelandic Bible Society