Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.
2 Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.
3 Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.
4 Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.
5 Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.
6 Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.
7 Raust Drottins klýfur eldsloga.
8 Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.
9 Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!
10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.
11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.
2 Ég sagði við sjálfan mig: Jæja þá, reyndu gleðina og njóttu gæða lífsins! En sjá, einnig það er hégómi.
2 Um hláturinn sagði ég: hann er vitlaus! og um gleðina: hverju fær hún til vegar komið?
3 Mér kom til hugar að gæða líkama mínum á víni _ en hjarta mitt skyldi stjórna öllu viturlega _ og að halda fast við heimskuna, uns ég sæi, hvað gott væri fyrir mennina að gjöra undir himninum alla ævidaga þeirra.
4 Ég gjörði stórvirki: Ég reisti mér hús, ég plantaði mér víngarða,
5 ég gjörði mér jurtagarða og aldingarða og gróðursetti þar alls konar aldintré,
6 ég bjó mér til vatnstjarnir til þess að vökva með vaxandi viðarskóg,
7 ég keypti þræla og ambáttir, og ég átti heimafædd hjú. Ég átti og meiri hjarðir nauta og sauða en allir þeir, sem verið höfðu á undan mér í Jerúsalem.
8 Ég safnaði mér og silfri og gulli og fjársjóðum frá konungum og löndum, ég fékk mér söngmenn og söngkonur og það sem er yndi karlmannanna: fjölda kvenna.
9 Og ég varð mikill og meiri öllum þeim, er verið höfðu í Jerúsalem á undan mér. Einnig speki mín var kyrr hjá mér.
10 Og allt það sem augu mín girntust, það lét ég eftir þeim. Ég neitaði ekki hjarta mínu um nokkra gleði, því að hjarta mitt hafði ánægju af allri fyrirhöfn minni, og þetta var hlutdeild mín af allri fyrirhöfn minni.
11 En er ég leit á öll verk mín, þau er hendur mínar höfðu unnið, og á þá fyrirhöfn, er ég hafði haft fyrir að gjöra þau, þá sá ég, að allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi, og að enginn ávinningur er til undir sólinni.
2 Er ég kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom ég ekki með frábærri mælskusnilld eða speki.
2 Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist og hann krossfestan.
3 Og ég dvaldist á meðal yðar í veikleika, ótta og mikilli angist.
4 Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar,
5 til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.
6 Speki tölum vér meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar, sem að engu verða,
7 heldur tölum vér leynda speki Guðs, sem hulin hefur verið, en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað oss til dýrðar.
8 Enginn af höfðingjum þessarar aldar þekkti hana, því að ef þeir hefðu þekkt hana, hefðu þeir ekki krossfest Drottin dýrðarinnar.
9 En það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.
10 En oss hefur Guð opinberað hana fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.
by Icelandic Bible Society