Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.
90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.
91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.
92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.
93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.
94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.
95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.
96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.
11 En er Míka Gemaríason, Safanssonar, heyrði öll orð Drottins úr bókinni,
12 þá gekk hann ofan í konungshöllina, inn í herbergi kanslarans, og sátu þá allir höfðingjarnir þar: Elísama kanslari, Delaja Semajason, Elnatan Akbórsson, Gemaría Safansson, Sedekía Hananíason og allir hinir höfðingjarnir.
13 En Míka skýrði þeim frá öllu því, er hann hafði heyrt, þá er Barúk las upphátt úr bókinni fyrir öllum lýðnum.
14 Þá sendu allir höfðingjarnir Júdí Nataníason, Selemíasonar, Kúsísonar, til Barúks með svolátandi orðsending: "Tak þér í hönd bókrolluna, sem þú last upphátt úr fyrir lýðnum og kom hingað." Og Barúk Neríason tók bókrolluna sér í hönd og kom til þeirra.
15 En þeir sögðu við hann: "Sestu niður og lestu hana upphátt fyrir oss." Og Barúk gjörði svo.
16 En er þeir höfðu heyrt öll orðin, litu þeir felmtsfullir hver á annan og sögðu við Barúk: "Vér verðum að segja konungi frá öllu þessu!"
17 Jafnframt spurðu þeir Barúk: "Seg oss, hvernig þú hefir skrifað öll þessi orð?"
18 Og Barúk svaraði þeim: "Hann hafði munnlega upp fyrir mér öll þessi orð, en ég skrifaði þau í bókina með bleki."
19 Þá sögðu höfðingjarnir við Barúk: "Far og fel þig, ásamt Jeremía, svo að enginn viti, hvar þið eruð."
20 Síðan gengu þeir til konungs inn í afhýsi hans, en létu bókrolluna eftir í herbergi Elísama kanslara, og sögðu konungi frá öllu þessu.
21 Þá sendi konungur Júdí til þess að sækja bókrolluna, og hann sótti hana í herbergi Elísama kanslara. Síðan las Júdí hana upphátt fyrir konungi og höfðingjunum, sem umhverfis konung stóðu.
22 Konungur bjó í vetrarhöllinni, með því að þetta var í níunda mánuðinum, og eldur brann í glóðarkerinu fyrir framan hann.
23 Í hvert sinn, er Júdí hafði lesið þrjú eða fjögur blöð, skar konungur þau sundur með pennahníf og kastaði þeim á eldinn í glóðarkerinu, uns öll bókrollan var brunnin á eldinum í glóðarkerinu.
24 En hvorki varð konungur hræddur, né nokkur af þjónum hans, þeim er heyrðu öll þessi orð, né heldur rifu þeir klæði sín,
25 og þótt Elnatan, Delaja og Gemaría legðu að konungi að brenna ekki bókrolluna, þá hlýddi hann þeim ekki,
26 heldur skipaði hann Jerahmeel konungssyni og Seraja Asríelssyni og Selemja Abdeelssyni að sækja Barúk skrifara og Jeremía spámann, _ en Drottinn fól þá.
2 Gefið oss rúm í hjörtum yðar. Engum höfum vér gjört rangt til, engan skaðað, engan féflett.
3 Ég segi það ekki til að áfellast yður. Ég hef áður sagt, að þér eruð í hjörtum vorum, og vér deyjum saman og lifum saman.
4 Mikla djörfung hef ég gagnvart yður, mikillega get ég hrósað mér af yður. Ég er fullur af huggun, ég er stórríkur af gleði í allri þrenging vorri.
5 Því var og það, er vér komum til Makedóníu, að vér höfðum enga eirð, heldur vorum vér á alla vegu aðþrengdir, barátta hið ytra, ótti hið innra.
6 En Guð, sem huggar hina beygðu, hann huggaði oss með komu Títusar,
7 já, ekki aðeins með komu hans, heldur og með þeirri huggun, sem hann hafði fengið hjá yður. Hann skýrði oss frá þrá yðar, gráti yðar, áhuga yðar mín vegna, svo að ég gladdist við það enn frekar.
8 Að vísu hef ég hryggt yður með bréfinu, en ég iðrast þess ekki nú, þótt ég iðraðist þess áður, þar sem ég sá að þetta bréf hafði hryggt yður, þótt ekki væri nema um stund.
9 Nú er ég glaður, ekki yfir því, að þér urðuð hryggir, heldur yfir því, að þér urðuð hryggir til iðrunar. Þér urðuð hryggir Guði að skapi og biðuð því ekki í neinu tjón af oss.
10 Sú hryggð, sem er Guði að skapi, vekur afturhvarf til hjálpræðis, sem engan iðrar, en hryggð heimsins veldur dauða.
11 Einmitt þetta, að þér hryggðust Guði að skapi, _ hvílíka alvöru vakti það hjá yður, já, hvílíkar afsakanir, hvílíka gremju, hvílíkan ótta, hvílíka þrá, hvílíkt kapp, hvílíka refsingu! Í öllu hafið þér nú sannað, að þér voruð vítalausir um þetta.
12 Þótt ég því hafi skrifað yður, þá var það ekki vegna hans, sem óréttinn gjörði, ekki heldur vegna hans, sem fyrir óréttinum varð, heldur til þess að yður yrði ljóst fyrir augliti Guðs hversu heilshugar þér standið með oss.
by Icelandic Bible Society