Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________
8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
61 Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn,
2 til að boða náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda,
3 til að láta hinum hrelldu í Síon í té, _ gefa þeim höfuðdjásn í stað ösku, fagnaðarolíu í stað hryggðar, skartklæði í stað hugarvíls. Þeir munu kallaðir verða réttlætis-eikur, plantan Drottins honum til vegsemdar.
4 Þeir munu byggja upp hinar fornu rústir, reisa að nýju tóttir fyrri tíða, koma upp aftur eyddum borgum, sem legið hafa við velli í marga mannsaldra.
5 Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga, og aðkomnir menn vera akurmenn og víngarðsmenn hjá yður,
6 en sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar Drottins og nefndir verða þjónar Guðs vors. Þér munuð njóta fjárafla þjóðanna og stæra yður af auðlegð þeirra.
7 Fyrir þá smán, er þér þolduð, skuluð þér fá tvöfalt. Í stað háðungar skulu þeir fagna yfir hlutskipti sínu. Fyrir því skulu þeir eignast tvöföld óðul í landi sínu, og eilíf gleði skal falla þeim í skaut.
7 Vitið þér ekki, bræður, _ ég er hér að tala til þeirra, sem lögmál þekkja, _ að lögmálið drottnar yfir manninum svo lengi sem hann lifir.
2 Gift kona er að lögum bundin manni sínum, meðan hann lifir. En deyi maðurinn, er hún leyst undan lögmálinu, sem bindur hana við manninn.
3 Því mun hún hórkona teljast, ef hún, að manninum lifandi, verður annars manns. En deyi maðurinn er hún laus undan lögmálinu, svo að hún er ekki hórkona, þótt hún verði annars manns.
4 Eins er um yður, bræður mínir. Þér eruð dánir lögmálinu fyrir líkama Krists, til þess að verða öðrum gefnir, honum sem var upp vakinn frá dauðum, svo að vér mættum bera Guði ávöxt.
5 Þegar vér lifðum að holdsins hætti, störfuðu ástríður syndanna, sem lögmálið hafði vakið, í limum vorum, svo að vér bærum dauðanum ávöxt.
6 En nú erum vér leystir undan lögmálinu, þar sem vér erum dánir því, sem áður hélt oss bundnum, og þjónum í nýjung anda, en ekki í fyrnsku bókstafs.
by Icelandic Bible Society