Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
43 En nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig, Jakobsætt, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.
2 Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig. Gangir þú gegnum eld, skalt þú eigi brenna þig, og loginn skal eigi granda þér.
3 Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, Hinn heilagi í Ísrael frelsari þinn. Ég gef Egyptaland í lausnargjald fyrir þig, læt Bláland og Seba í stað þín.
4 Sökum þess að þú ert dýrmætur í mínum augum og mikils metinn, og af því að ég elska þig, þá legg ég menn í sölurnar fyrir þig og þjóðir fyrir líf þitt.
5 Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Ég kem með niðja þína úr austri og safna þér saman úr vestri.
6 Ég segi við norðrið: "Lát fram!" og við suðrið: "Haltu þeim eigi! Flyt þú sonu mína úr fjarlægð og dætur mínar frá endimörkum jarðarinnar:
7 sérhvern þann, sem við nafn mitt er kenndur og ég hefi skapað mér til dýrðar, sérhvern þann, er ég hefi myndað og gjört!"
29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.
2 Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.
3 Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.
4 Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.
5 Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.
6 Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.
7 Raust Drottins klýfur eldsloga.
8 Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.
9 Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!
10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.
11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.
14 Þegar postularnir í Jerúsalem heyrðu, að Samaría hefði tekið við orði Guðs, sendu þeir til þeirra þá Pétur og Jóhannes.
15 Þeir fóru norður þangað og báðu fyrir þeim, að þeir mættu öðlast heilagan anda,
16 því að enn var hann ekki kominn yfir neinn þeirra. Þeir voru aðeins skírðir til nafns Drottins Jesú.
17 Nú lögðu þeir hendur yfir þá, og fengu þeir heilagan anda.
15 Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.
16 En Jóhannes svaraði öllum og sagði: "Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.
17 Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gjörhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."
21 Er allur lýðurinn lét skírast, var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gjörði bæn sína, að himinninn opnaðist,
22 og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."
by Icelandic Bible Society