Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
44 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga.
3 Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá.
4 Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.
5 Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.
6 Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.
7 Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur,
8 heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar.
9 Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]
10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum.
11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang.
12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna.
13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann.
14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.
16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt,
17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.
18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn.
19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum,
20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu.
21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða,
22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans?
23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé.
24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!
25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun?
26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.
27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.
11 Einnig þér, Júda, hefir hann búið uppskeru. Þegar ég sný við högum þjóðar minnar,
7 jafnskjótt og ég ætla að lækna Ísrael, koma misgjörðir Efraíms í ljós og illverk Samaríu, því að þeir fremja svik og þjófar brjótast inn í húsin og ræningjasveitir ræna úti fyrir.
2 Og þeir hugsa ekki um það, að ég man eftir allri illsku þeirra. Nú umkringja gjörðir þeirra þá, eru komnar fyrir auglit mitt.
3 Þeir gamna konunginum með illsku sinni og höfðingjunum með lygum sínum.
4 Þeir eru allir hórkarlar, þeir eru eins og glóandi ofn, sem bakarinn aðeins hættir að kynda frá því hann hefir hnoðað deigið, uns það er gagnsýrt.
5 Á hátíðardegi konungs vors drekka höfðingjarnir sig sjúka í víni, menn leggja lag sitt við gárunga.
6 Því að innan eru þeir eins og ofn, hjarta þeirra brennur í þeim. Alla nóttina sefur reiði þeirra, á morgnana brennur hún eins og logandi eldur.
7 Allir eru þeir glóandi eins og ofn, svo að þeir fyrirkoma yfirmönnum sínum. Allir konungar þeirra eru fallnir, enginn ákallar mig á meðal þeirra.
8 Efraím hefir blandað sér saman við þjóðirnar, Efraím er orðinn eins og kaka, sem ekki hefir verið snúið.
9 Útlendir menn hafa eytt krafti hans, án þess að hann viti af því, já, hærur eru sprottnar í höfði honum, án þess að hann hafi veitt því eftirtekt.
10 Þrátt fyrir það, þótt vegsemd Ísraels hafi vitnað í gegn þeim, þá hafa þeir ekki snúið sér til Drottins, Guðs síns, og hafa ekki leitað hans, þrátt fyrir allt þetta.
11 En Efraím er orðinn eins og einföld, óskynsöm dúfa: Þeir kalla á Egypta, fara á fund Assýringa.
12 Þegar þeir fara þangað, breiði ég net mitt yfir þá, steypi þeim niður eins og fugli í loftinu, tyfta þá, eins og söfnuði þeirra hefir boðað verið.
13 Vei þeim, að þeir reika langt í burt frá mér! Eyðing yfir þá, að þeir hafa brugðið trúnaði við mig! Ég hefi leyst þá, og þeir hafa talað lygar gegn mér,
14 og hrópuðu ekki til mín af hjarta, heldur kveinuðu í rekkjum sínum. Vegna korns og vínberjalagar ristu þeir á sig skinnsprettur, mér fráhverfir.
15 Og þó er það ég, sem hefi frætt þá, sem hefi gjört armleggi þeirra styrka. En gagnvart mér hafa þeir illt í hyggju.
16 Þeir snúa sér, en ekki í hæðirnar. Þeir eru eins og svikull bogi. Höfðingjar þeirra munu falla fyrir sverði vegna ósvífni tungu sinnar. Fyrir það munu menn hæða þá á Egyptalandi.
43 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.`
44 En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður,
45 svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.
46 Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama?
47 Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama?
48 Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.
by Icelandic Bible Society