Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Amos 7:7-17

Hann lét þessa sýn bera fyrir mig: Sjá, Drottinn stóð uppi á lóðréttum múrvegg og hélt á lóði.

Og Drottinn sagði við mig: "Hvað sér þú, Amos?" Ég svaraði: "Lóð." Þá sagði Drottinn: "Sjá, ég mun lóð nota mitt á meðal lýðs míns Ísraels, ég vil eigi lengur umbera hann.

Hæðir Ísaks skulu í eyði lagðar verða og helgidómar Ísraels eyddir verða, og ég vil rísa gegn Jeróbóams ætt með reiddu sverði."

10 Amasía prestur í Betel sendi boð til Jeróbóams Ísraelskonungs og lét segja: "Amos kveikir uppreisn gegn þér mitt í Ísraelsríki. Landið fær eigi þolað öll orð hans.

11 Því að svo hefir Amos sagt: ,Jeróbóam mun fyrir sverði falla og Ísrael mun herleiddur verða burt úr landi sínu."`

12 Síðan sagði Amasía við Amos: "Haf þig á burt, vitranamaður, flý til Júdalands! Afla þér þar viðurværis og spá þú þar!

13 En í Betel mátt þú eigi framar koma fram sem spámaður, því að hér er konunglegur helgidómur og ríkismusteri."

14 Þá svaraði Amos og sagði við Amasía: "Ég er enginn spámaður, og ég er ekki af spámannaflokki, heldur er ég hjarðmaður og rækta mórber.

15 En Drottinn tók mig frá hjarðmennskunni og sagði við mig: ,Far þú og spá þú hjá lýð mínum Ísrael.`

16 Og heyr því orð Drottins: Þú segir: ,Þú mátt eigi spá gegn Ísrael né láta orð þín streyma yfir Ísaks niðja.`

17 Fyrir því segir Drottinn svo: ,Konan þín skal verða skækja hér í borginni, og synir þínir og dætur skulu fyrir sverði falla. Jörð þinni skal sundur skipt verða með mælivað, og þú sjálfur skalt deyja í óhreinu landi. Og Ísraelsmenn skulu fara herleiddir af landi sínu."`

Sálmarnir 82

82 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna:

"Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]

Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,

bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra."

Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.

Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta,

en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum."

Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.

Bréf Páls til Kólossumann 1:1-14

Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú og Tímóteus, bróðir vor, heilsa

hinum heilögu og trúuðu bræðrum í Kólossu, sem eru í Kristi. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum.

Vér þökkum Guði, föður Drottins vors Jesú Krists, ávallt er vér biðjum fyrir yður.

Því að vér höfum heyrt um trú yðar á Krist Jesú og um kærleikann, sem þér berið til allra heilagra,

vegna vonar þeirrar, sem yður er geymd í himnunum. Um þá von hafið þér áður heyrt í orði sannleikans, fagnaðarerindinu,

sem til yðar er komið, eins og það einnig ber ávöxt og vex í öllum heiminum. Það hefur það líka gjört hjá yður frá þeim degi, er þér heyrðuð það og lærðuð að þekkja náð Guðs í sannleika.

Hið sama hafið þér og numið af Epafrasi, vorum elskaða samþjóni, sem er trúr þjónn Krists í vorn stað.

Hann hefur og sagt oss frá kærleika yðar, sem andinn hefur vakið með yður.

Frá þeim degi, er vér heyrðum þetta, höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans,

10 svo að þér hegðið yður eins og Drottni er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að þekkingu á Guði.

11 Mætti hann styrkja yður á allan hátt með dýrðarmætti sínum, svo að þér fyllist þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði

12 þakkað föðurnum, sem hefur gjört yður hæfa til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu.

13 Hann hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar.

14 Í honum eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu synda vorra.

Lúkasarguðspjall 10:25-37

25 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: "Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"

26 Jesús sagði við hann: "Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?"

27 Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig."

28 Jesús sagði við hann: "Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa."

29 En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: "Hver er þá náungi minn?"

30 Því svaraði Jesús svo: "Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona.

31 Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá.

32 Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá.

33 En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann,

34 gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann.

35 Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.`

36 Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?"

37 Hann mælti: "Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum." Jesús sagði þá við hann: "Far þú og gjör hið sama."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society