Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.
18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.
19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.
20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.
21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.
22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.
23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.
24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.
25 Sál mín loðir við duftið, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig, kenn mér lög þín.
27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar.
28 Sál mín tárast af trega, reis mig upp eftir orði þínu.
29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.
30 Ég hefi útvalið veg sannleikans, sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.
31 Ég held fast við reglur þínar, Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.
32 Ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.
5 Drottinn, Guð allsherjar, hann sem snertir jörðina, svo að hún riðar, og allir þeir, sem á henni búa, verða sorgbitnir, svo að hún hefst upp alls staðar eins og Níl-fljótið og lækkar eins og fljótið á Egyptalandi,
6 hann sem reist hefir á himnum sali sína og grundvallað hvelfing sína á jörðinni, hann sem kallaði á vötn sjávarins og jós þeim yfir jörðina _ Drottinn er nafn hans.
7 Eruð þér, Ísraelsmenn, mér mætari en Blálendingar? _ segir Drottinn. Hefi ég eigi flutt Ísrael af Egyptalandi og Filista frá Kaftór og Sýrlendinga frá Kír?
8 Sjá, auga Drottins Guðs hvílir á þessu glæpafulla konungsríki. Ég skal afmá það af jörðinni, _ og þó vil ég ekki með öllu afmá Jakobs niðja _ segir Drottinn.
9 Nei, ég skal svo um bjóða, að Ísraels hús verði hrist út á meðal allra þjóða, eins og korn er hrist í sáldi, án þess að nokkur steinvala falli til jarðar.
10 Allir syndarar þjóðar minnar skulu falla fyrir sverði, þeir sem segja: "Ógæfan mun eigi ná oss né yfir oss koma!"
11 Á þeim degi mun ég endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun hlaða upp í veggskörðin og reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur, eins og hún var fyrr meir,
12 til þess að þeir nái undir sig leifum Edóms og öllum þeim þjóðum, sem nafn mitt hefir verið nefnt yfir _ segir Drottinn, sá er þessu mun til vegar koma.
13 Sjá, þeir dagar munu koma, _ segir Drottinn _ að erjandinn skal ná kornskurðarmanninum og víntroðslumaðurinn sáðmanninum. Þá munu fjöllin löðra í vínberjalegi og hálsarnir verða í einu flóði.
14 Þá mun ég snúa við högum lýðs míns Ísraels. Þeir munu byggja upp hinar eyddu borgir og búa í þeim, planta víngarða og drekka vín úr þeim, búa til aldingarða og eta ávöxtu þeirra.
41 Nú kom upp kurr meðal Gyðinga út af því, að hann sagði: "Ég er brauðið, sem niður steig af himni,"
42 og þeir sögðu: "Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Vér þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt, að hann sé stiginn niður af himni?"
43 Jesús svaraði þeim: "Verið ekki með kurr yðar á meðal.
44 Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann, og ég mun reisa hann upp á efsta degi.
45 Hjá spámönnunum er skrifað: ,Þeir munu allir verða af Guði fræddir.` Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum, kemur til mín.
46 Ekki er það svo, að nokkur hafi séð föðurinn. Sá einn, sem er frá Guði, hefur séð föðurinn.
47 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir, hefur eilíft líf.
48 Ég er brauð lífsins.
49 Feður yðar átu manna í eyðimörkinni, en þeir dóu.
50 Þetta er brauðið, sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því, deyr ekki.
51 Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs."
by Icelandic Bible Society