Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 44

44 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga.

Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá.

Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.

Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.

Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.

Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur,

heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar.

Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]

10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum.

11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang.

12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna.

13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann.

14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.

16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt,

17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.

18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn.

19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum,

20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu.

21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða,

22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans?

23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé.

24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!

25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun?

26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.

27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.

Hósea 2:14-3:5

14 Ég vil lokka hana og leiða hana út í eyðimörk og hughreysta hana,

15 og ég gef henni þar víngarða sína og gjöri Mæðudal að Vonarhliði, og þá mun hún verða eftirlát eins og á æskudögum sínum og eins og þá er hún fór burt af Egyptalandi.

16 Á þeim degi, _ segir Drottinn _ munt þú ávarpa mig "Maðurinn minn," en ekki framar kalla til mín "Baal minn."

17 Og ég vil venja hana af að hafa nöfn Baalanna á vörum sér, svo að þeirra skal eigi verða framar getið með nafni.

18 Og á þeim degi gjöri ég fyrir þá sáttmála við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðkvikindi jarðarinnar, og eyði bogum, sverðum og bardögum úr landinu og læt þá búa örugga.

19 Og ég mun festa þig mér eilíflega, ég mun festa þig mér í réttlæti og réttvísi, í kærleika og miskunnsemi,

20 ég mun festa þig mér í trúfesti, og þú skalt þekkja Drottin.

21 Og á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn. Ég mun bænheyra himininn, og hann mun bænheyra jörðina,

22 og jörðin mun bænheyra kornið, vínberjalöginn og olíuna, og þau munu bænheyra Jesreel.

23 Og ég vil gróðursetja lýð minn í landinu og auðsýna Náðvana náð og segja við Ekki-minn-lýð: "Þú ert minn lýður!" og hann mun segja: "Guð minn!"

Drottinn sagði við mig: "Far enn og elska konu, sem elskar annan mann og haft hefir fram hjá, eins og Drottinn elskar Ísraelsmenn, þótt þeir hneigist að öðrum guðum og þyki rúsínukökur góðar."

Þá keypti ég mér hana fyrir fimmtán sikla silfurs og hálfan annan kómer byggs

og sagði við hana: "Langan tíma skalt þú sitja ein án þess að drýgja hór og án þess að heyra nokkrum manni til. Svo skal ég og vera gagnvart þér."

Þannig munu Ísraelsmenn langan tíma sitja einir án konungs og án höfðingja, án fórnar og án merkissteins, án hökuls og húsguða.

Eftir það munu Ísraelsmenn snúa sér og leita Drottins, Guðs síns, og Davíðs, konungs síns, og þeir munu á hinum síðustu dögum flýja til Drottins og til hans blessunar.

Bréf Páls til Kólossumann 2:16-3:1

16 Enginn skyldi því dæma yður fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga.

17 Þetta er aðeins skuggi þess, sem koma átti, en líkaminn er Krists.

18 Látið þá ekki taka af yður hnossið, sem þykjast af auðmýkt sinni og engladýrkun og státa af sýnum sínum. Þeir hrokast upp af engu í hyggju holds síns

19 og halda sér ekki við hann, sem er höfuðið og styrkir allan líkamann og samantengir taugum og böndum, svo að hann þróast guðlegum þroska.

20 Ef þér eruð dánir með Kristi undan valdi heimsvættanna, hvers vegna hagið þér yður þá eins og þér lifðuð í heiminum og látið leggja fyrir yður boð eins og þessi:

21 "Snertu ekki, bragðaðu ekki, taktu ekki á"? _

22 Allt þetta er þó ætlað til að eyðast við notkunina! _ mannaboðorð og mannalærdómar!

23 Þetta hefur að sönnu orð á sér um speki, slík sjálfvalin dýrkun og auðmýking og harðneskja við líkamann, en hefur ekkert gildi, heldur er til þess eins að fullnægja holdinu.

Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society