Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Hósea 1:2-10

Þá er Drottinn hóf að tala við Hósea, sagði hann við Hósea: "Far og tak þér hórkonu og eignast hórbörn, því að landið drýgir hór og hefir snúist frá Drottni."

Þá fór hann og gekk að eiga Gómer Diblaímsdóttur. Hún varð þunguð og fæddi honum son.

Og Drottinn sagði við hann: "Lát hann heita Jesreel, því að innan skamms vitja ég blóðskuldar Jesreels á ætt Jehú og gjöri enda á konungdómi Ísraels húss.

Á þeim degi sundurbrýt ég boga Ísraels á Jesreel-völlum."

Og hún varð aftur þunguð og ól dóttur. Þá sagði Drottinn við Hósea: "Lát þú hana heita Náðvana, því að ég mun eigi framar auðsýna náð Ísraels húsi, svo að ég fyrirgefi þeim.

En ég mun auðsýna náð Júda húsi og hjálpa þeim fyrir Drottin, Guð þeirra, en ég mun eigi hjálpa þeim með boga, sverði, bardögum, stríðshestum né riddurum."

Og er hún hafði vanið Náðvana af brjósti, varð hún enn þunguð og ól son.

Þá sagði Drottinn: "Lát hann heita Ekki-minn-lýður, því að þér eruð ekki minn lýður, og ég er ekki yðar Guð."

10 Tala Ísraelsmanna skal verða sem sandur á sjávarströnd, sem ekki verður mældur og ekki talinn. Og í stað þess, að sagt var við þá: "Þér eruð ekki minn lýður!" skal við þá sagt verða: "Synir hins lifanda Guðs!"

Sálmarnir 85

85 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.

Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,

þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]

Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.

Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.

Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?

Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?

Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!

Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.

10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.

11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.

12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.

13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.

14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.

Bréf Páls til Kólossumann 2:6-15

Þér hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum.

Verið rótfestir í honum og byggðir á honum, staðfastir í trúnni, eins og yður hefur verið kennt, og auðugir að þakklátsemi.

Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.

Því að í honum býr öll fylling guðdómsins líkamlega.

10 Og í honum, sem er höfuð hvers konar tignar og valds, hafið þér öðlast hlutdeild í þessari fyllingu.

11 Í honum eruð þér einnig umskornir þeirri umskurn, sem ekki er með höndum gjörð, heldur með umskurn Krists, við að afklæðast hinum synduga líkama,

12 þegar þér voruð greftraðir með Kristi í skírninni. Í skírninni voruð þér einnig með honum uppvaktir fyrir trúna á mátt Guðs, er vakti hann upp frá dauðum.

13 Þér voruð dauðir sökum afbrota yðar og umskurnarleysis. En Guð lífgaði yður ásamt honum, þegar hann fyrirgaf oss öll afbrotin.

14 Hann afmáði skuldabréfið, sem þjakaði oss með ákvæðum sínum. Hann tók það burt með því að negla það á krossinn.

15 Hann fletti vopnum tignirnar og völdin, leiddi þau opinberlega fram til háðungar og hrósaði sigri yfir þeim í Kristi.

Bréf Páls til Kólossumann 2:16-19

16 Enginn skyldi því dæma yður fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga.

17 Þetta er aðeins skuggi þess, sem koma átti, en líkaminn er Krists.

18 Látið þá ekki taka af yður hnossið, sem þykjast af auðmýkt sinni og engladýrkun og státa af sýnum sínum. Þeir hrokast upp af engu í hyggju holds síns

19 og halda sér ekki við hann, sem er höfuðið og styrkir allan líkamann og samantengir taugum og böndum, svo að hann þróast guðlegum þroska.

Lúkasarguðspjall 11:1-13

11 Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann, þá er hann lauk bæn sinni: "Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum."

En hann sagði við þá: "Þegar þér biðjist fyrir, þá segið: Faðir, helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,

gef oss hvern dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni."

Og hann sagði við þá: "Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ,Vinur, lánaðu mér þrjú brauð,

því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.`

Mundi hinn þá svara inni: ,Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð`?

Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.

Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

10 Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

11 Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn,

12 eða sporðdreka, ef hann biður um egg?

13 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society