Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
7 Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.
2 Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,
3 svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.
4 Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,
5 hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,
6 þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]
7 Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.
8 Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.
9 Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.
10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!
11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.
12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.
13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,
14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.
15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.
16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.
17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.
18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.
6 Ég hefi látið yður halda hreinum tönnum í öllum borgum yðar og látið mat skorta í öllum bústöðum yðar. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.
7 Ég synjaði yður um regn, þá er þrír mánuðir voru til uppskeru, og ég lét rigna í einni borg, en ekki í annarri. Ein akurspildan vökvaðist af regni, en önnur akurspilda, sem regnið vökvaði ekki, hún skrælnaði.
8 Menn ráfuðu úr tveimur, þremur borgum til einnar borgar til að fá sér vatn að drekka, en fengu þó eigi slökkt þorstann. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.
9 Ég refsaði yður með korndrepi og gulnan. Ég eyddi aldingarða yðar og víngarða, engisprettur upp átu fíkjutré yðar og olíutré. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.
10 Ég sendi yður drepsótt eins og á Egyptalandi, ég deyddi æskumenn yðar með sverði, auk þess voru hestar yðar fluttir burt hernumdir, og ég lét hrævadauninn úr herbúðum yðar leggja fyrir vit yðar. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.
11 Ég olli umturnun meðal yðar, eins og þegar Guð umturnaði Sódómu og Gómorru, og þér voruð eins og brandur úr báli dreginn. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.
12 Fyrir því vil ég svo með þig fara, Ísrael. Af því að ég ætla að fara svo með þig, þá ver viðbúinn að mæta Guði þínum, Ísrael!
13 Sjá, hann er sá, sem myndað hefir fjöllin og skapað vindinn, sá sem boðar mönnunum það, er hann hefir í hyggju, sá er gjörir myrkur að morgunroða og gengur eftir hæðum jarðarinnar. Drottinn, Guð allsherjar er nafn hans.
11 Því að þetta er sá boðskapur, sem þér hafið heyrt frá upphafi: Vér eigum að elska hver annan.
12 Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn. Og af hverju myrti hann hann? Af því að verk hans voru vond, en verk bróður hans réttlát.
13 Undrist ekki, bræður, þótt heimurinn hati yður.
14 Vér vitum, að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins, af því að vér elskum bræður vora. Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum.
15 Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér.
16 Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna.
17 Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum?
by Icelandic Bible Society