Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
7 Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.
2 Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,
3 svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.
4 Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,
5 hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,
6 þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]
7 Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.
8 Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.
9 Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.
10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!
11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.
12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.
13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,
14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.
15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.
16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.
17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.
18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.
9 Kallið út yfir hallirnar í Asdód og hallirnar í Egyptalandi og segið: Safnist saman upp á Samaríufjöll og lítið á hina miklu ókyrrð í borginni og ofbeldisverkin inni í henni.
10 Þeir kunna ekki rétt að gjöra _ segir Drottinn _, þeir sem hrúga upp ofríki og kúgun í höllum sínum.
11 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Fjandmenn munu umkringja landið á alla vegu og rífa niður virki þín, og hallir þínar munu rændar verða.
12 Svo segir Drottinn: Eins og hirðirinn bjargar tveimur fótum eða snepli af eyra úr gini ljónsins, svo skulu Ísraelsmenn bjargast, þeir er sitja í Samaríu í legubekkjarhorni og á hvílbeðjarhægindum.
13 Heyrið og verið vottar að þessu gegn Jakobs húsi, segir Drottinn alvaldur, Guð allsherjar:
14 Þann dag, er ég hegni Ísraelsmönnum fyrir glæpi þeirra, vil ég láta hegninguna koma niður á ölturunum í Betel, til þess að altarishornin verði afhöggin og falli til jarðar.
15 Þá vil ég brjóta niður vetrarhallirnar ásamt sumarhöllunum, og fílabeinshallirnar skulu farast og mörg hús eyðileggjast, _ segir Drottinn.
4 Heyrið þetta orð, þér Basans kvígur á Samaríufjalli, sem kúgið hina snauðu, misþyrmið hinum fátæku, sem segið við menn yðar: "Dragið að, svo að vér megum drekka!"
2 Drottinn Guð hefir svarið við heilagleik sinn: Sjá, þeir dagar munu yfir yður koma, að þér skuluð verða burt færðar með önglum og hinar síðustu af yður með goggum.
3 Þá munuð þér fara út um veggskörðin, hver beint sem horfir, og yður mun verða varpað til Hermon, _ segir Drottinn.
4 Farið til Betel og syndgið, til Gilgal og syndgið enn þá meir! Berið fram sláturfórnir yðar að morgni dags, á þriðja degi tíundir yðar!
5 Brennið sýrð brauð í þakkarfórn, boðið til sjálfviljafórna, gjörið þær heyrinkunnar! Því að það er yðar yndi, Ísraelsmanna, _ segir Drottinn Guð.
2 Bræður mínir, farið ekki í manngreinarálit, þér sem trúið á dýrðardrottin vorn Jesú Krist.
2 Nú kemur maður inn í samkundu yðar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum, og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum,
3 ef öll athygli yðar beinist að þeim, sem skartklæðin ber, og þér segið: "Settu þig hérna í gott sæti!" en segið við fátæka manninn: "Stattu þarna, eða settu þig á gólfið við fótskör mína!"
4 hafið þér þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með vondum hugsunum?
5 Heyrið, bræður mínir elskaðir! Hefur Guð ekki útvalið þá, sem fátækir eru í augum heimsins, til þess að þeir verði auðugir í trú og erfingjar þess ríkis, er hann hefur heitið þeim, sem elska hann?
6 En þér hafið óvirt hinn fátæka. Eru það þó ekki hinir ríku, sem undiroka yður og draga yður fyrir dómstóla?
7 Eru það ekki þeir, sem lastmæla hinu góða nafni, sem nefnt var yfir yður?
by Icelandic Bible Society