Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
6 Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.
2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.
4 Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?
5 Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.
6 Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?
7 Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.
8 Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.
9 Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.
10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.
11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.
19 En Elísa mælti til hans: "Far þú í friði." En er Naaman var kominn spölkorn frá honum,
20 þá sagði Gehasí, sveinn Elísa, guðsmannsins, við sjálfan sig: "Sjá, herra minn hefir hlíft Naaman þessum sýrlenska og ekki þegið af honum það, sem hann kom með. Svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal ég hlaupa á eftir honum og þiggja eitthvað af honum."
21 Hélt Gehasí nú á eftir Naaman. En er Naaman sá mann koma hlaupandi á eftir sér, stökk hann af vagninum, gekk í móti honum og mælti: "Er nokkuð að?"
22 Gehasí svaraði: "Nei, en herra minn sendir mig og lætur segja þér: ,Rétt í þessu komu til mín frá Efraímfjöllum tveir sveinar af spámannasveinunum. Gef mér handa þeim talentu silfurs og tvo alklæðnaði."`
23 Naaman svaraði: "Gjör þú mér þann greiða að taka við tveimur talentum!" Og hann lagði að honum og batt tvær talentur silfurs í tvo sjóðu, svo og tvo alklæðnaði og fékk tveimur sveinum sínum, og báru þeir það fyrir honum.
24 En er þeir komu á hæðina, þá tók Gehasí við því af þeim, geymdi það í húsinu og lét mennina fara burt, og fóru þeir leiðar sinnar.
25 Síðan fór hann inn og gekk fyrir herra sinn. En Elísa sagði við hann: "Hvaðan kemur þú, Gehasí?" Hann svaraði: "Þjónn þinn hefir alls ekkert farið."
26 Og Elísa sagði við hann: "Ég fylgdi þér í anda, þegar maðurinn sneri frá vagni sínum í móti þér. Nú hefir þú fengið silfur og munt fá klæði, olíutré, víngarða, sauði og naut, þræla og ambáttir.
27 En líkþrá Naamans mun ávallt loða við þig og niðja þína." Gekk hann þá burt frá honum hvítur sem snjór af líkþrá.
28 Er þeir heyrðu þetta, urðu þeir afar reiðir og æptu: "Mikil er Artemis Efesusmanna!"
29 Og öll borgin komst í uppnám, menn þustu hver um annan til leikvangsins og þrifu með sér þá Gajus og Aristarkus, förunauta Páls úr Makedóníu.
30 En er Páll vildi ganga inn í mannþröngina, leyfðu lærisveinarnir honum það ekki.
31 Nokkrir höfðingjar skattlandsins, sem voru vinir hans, sendu einnig til hans og báðu hann að hætta sér ekki inn á leikvanginn.
32 Menn hrópuðu nú sitt hver, því að mannsöfnuðurinn var í uppnámi, og vissu fæstir, hvers vegna þeir voru saman komnir.
33 Nokkrir í mannþrönginni töldu það vera vegna Alexanders, því að Gyðingar ýttu honum fram, en Alexander benti til hljóðs með hendinni og vildi verja mál sitt fyrir fólkinu.
34 Þegar menn urðu þess vísir, að hann var Gyðingur, lustu allir upp einu ópi og hrópuðu í nærfellt tvær stundir: "Mikil er Artemis Efesusmanna!"
35 En borgarritarinn gat sefað fólkið og mælti: "Efesusmenn, hver er sá maður, að hann viti ekki, að borg Efesusmanna geymir musteri hinnar miklu Artemisar og steininn helga af himni?
36 Þar sem enginn má gegn því mæla, ber yður að vera stilltir og hrapa ekki að neinu.
37 Þér hafið dregið þessa menn hingað, þótt þeir hafi hvorki framið helgispjöll né lastmælt gyðju vorri.
38 Eigi nú Demetríus og smiðirnir, sem honum fylgja, sök við nokkurn, þá eru þingdagar haldnir, og til eru landstjórar. Eigist þeir lög við.
39 En ef þér hafið annars að krefja, má gjöra út um það á löglegu þingi.
40 Vér eigum á hættu að verða sakaðir um uppreisn fyrir þetta í dag og getum ekki bent á neitt tilefni, sem gæti afsakað slík ólæti." Að svo mæltu lét hann mannsöfnuðinn fara.
by Icelandic Bible Society