Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
14 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun láta rætast fyrirheit það, er ég hefi gefið um Ísraels hús og Júda hús.
15 Á þeim dögum og á þeim tíma mun ég Davíð láta upp vaxa réttan kvist, og hann skal iðka rétt og réttlæti í landinu.
16 Á þeim dögum mun Júda hólpinn verða og Jerúsalem búa óhult, og þetta mun verða nafnið, er menn nefna hana: "Drottinn er vort réttlæti."
25 Davíðssálmur.
2 Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.
3 Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.
4 Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.
5 Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.
6 Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.
7 Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.
8 Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.
9 Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.
10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.
9 Hvernig getum vér nógsamlega þakkað Guði fyrir alla þá gleði, er vér höfum af yður frammi fyrir Guði vorum?
10 Og vér biðjum nótt og dag, heitt og af hjarta, að fá að sjá yður og bæta úr því, sem trú yðar er áfátt.
11 Sjálfur Guð og faðir vor og Drottinn vor Jesús greiði veg vorn til yðar.
12 En Drottinn efli yður og auðgi að kærleika hvern til annars og til allra, eins og vér berum kærleika til yðar.
13 Þannig styrkir hann hjörtu yðar, svo að þér verðið óaðfinnanlegir og heilagir frammi fyrir Guði, föður vorum, við komu Drottins vors Jesú ásamt öllum hans heilögu.
25 Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný.
26 Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast.
27 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð.
28 En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd."
29 Hann sagði þeim og líkingu: "Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám.
30 Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður, að sumarið er í nánd.
31 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.
32 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram.
33 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.
34 Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður
35 eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð.
36 Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum."
by Icelandic Bible Society