Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 113

113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.

Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.

Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.

Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.

Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt

og horfir djúpt á himni og á jörðu.

Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum

og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.

Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.

Fyrsta bók Móse 24:28-42

28 Stúlkan skundaði heim og sagði í húsi móður sinnar frá því, sem við hafði borið.

29 Rebekka átti bróður, sem Laban hét, og Laban hljóp til mannsins út að lindinni.

30 Og er hann sá hringinn og armböndin á höndum systur sinnar og heyrði orð Rebekku systur sinnar, sem sagði: "Svona talaði maðurinn við mig," þá fór hann til mannsins. Og sjá, hann stóð hjá úlföldunum við lindina.

31 Og hann sagði: "Kom þú inn, blessaður af Drottni. Hví stendur þú hér úti? Ég hefi rýmt til í húsinu, og staður er fyrir úlfalda þína."

32 Þá gekk maðurinn inn í húsið, og Laban spretti af úlföldunum og gaf þeim hálm og fóður, en færði honum vatn til að þvo fætur sína og fætur þeirra manna, sem voru með honum.

33 Og matur var fram borinn fyrir hann, en hann sagði: "Eigi vil ég matar neyta fyrr en ég hefi borið upp erindi mitt." Og menn svöruðu: "Tala þú!"

34 Hann mælti: "Ég er þjónn Abrahams.

35 Drottinn hefir ríkulega blessað húsbónda minn, svo að hann er orðinn auðmaður. Hann hefir gefið honum sauði og naut, silfur og gull, þræla og ambáttir, úlfalda og asna.

36 Og Sara, kona húsbónda míns, hefir alið húsbónda mínum son í elli sinni, og honum hefir hann gefið allt, sem hann á.

37 Og húsbóndi minn tók af mér eið og sagði: ,Þú mátt eigi konu taka syni mínum af dætrum Kanaaníta, er ég bý hjá,

38 heldur skalt þú fara í hús föður míns og til ættingja minna og taka syni mínum konu.`

39 Og ég sagði við húsbónda minn: ,Vera má, að konan vilji ekki fara með mér.`

40 Og hann svaraði mér: ,Drottinn, fyrir hvers augsýn ég hefi gengið, mun senda engil sinn með þér og láta ferð þína heppnast, svo að þú megir fá konu til handa syni mínum af ætt minni og úr húsi föður míns.

41 Þá skaltu vera laus við þann eið, sem þú vinnur mér, ef þú fer til ættingja minna, og vilji þeir ekki gefa þér hana, þá ertu laus við eiðinn, sem ég tek af þér.`

42 Og er ég í dag kom að lindinni, sagði ég: ,Drottinn, Guð Abrahams húsbónda míns. Ætlir þú að láta þá för lánast, sem ég nú er að fara,

Lúkasarguðspjall 4:16-30

16 Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa.

17 Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er:

18 Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa

19 og kunngjöra náðarár Drottins.

20 Síðan lukti hann aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum.

21 Hann tók þá að tala til þeirra: "Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar."

22 Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans, og sögðu: "Er hann ekki sonur Jósefs?"

23 En hann sagði við þá: "Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: ,Læknir, lækna sjálfan þig!` Vér höfum heyrt um allt, sem gjörst hefur í Kapernaum. Gjör nú hið sama hér í ættborg þinni."

24 Enn sagði hann: "Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu.

25 En satt segi ég yður, að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía, þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði, og mikið hungur í öllu landinu,

26 og þó var Elía til engrar þeirra sendur, heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi.

27 Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns, og enginn þeirra var hreinsaður, heldur aðeins Naaman Sýrlendingur."

28 Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði, er þeir heyrðu þetta,

29 spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan.

30 En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society