Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Rutarbók 3:1-5

Naomí, tengdamóðir Rutar, sagði við hana: "Dóttir mín, á ég ekki að útvega þér athvarf, til þess að þér vegni vel?

Þú hefir verið með stúlkunum hans Bóasar, en hann er frændi okkar. Sjá, hann varpar í nótt bygginu í láfa sínum.

Þvo þér nú og smyr þig og far í önnur föt og gakk ofan í láfann, en láttu ekki manninn verða varan við þig fyrr en hann hefir etið og drukkið.

En þegar hann leggst til hvíldar, þá taktu eftir, hvar hann leggst niður, og gakk þú þangað og flettu upp ábreiðunni til fóta honum og leggst þar niður. Hann mun þá segja þér, hvað þú átt að gjöra."

Og hún svaraði henni: "Ég vil gjöra allt, sem þú segir."

Rutarbók 4:13-17

13 Síðan gekk Bóas að eiga Rut, og hún varð kona hans. Og hann gekk inn til hennar, og Drottinn veitti henni getnað, og ól hún son.

14 Þá sögðu konurnar við Naomí: "Lofaður sé Drottinn, sem eigi hefir látið þig bresta lausnarmann í dag, svo að nafn hans mun nefnt verða í Ísrael.

15 Hann mun verða huggun þín og ellistoð, því að tengdadóttir þín, sem elskar þig, hefir alið hann, hún, sem er þér betri en sjö synir."

16 Naomí tók barnið og lagði það á skaut sér og varð fóstra þess.

17 Og grannkonurnar gáfu honum nafn og sögðu: "Naomí er fæddur sonur!" og nefndu hann Óbeð. Hann var faðir Ísaí, föður Davíðs.

Sálmarnir 127

127 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis.

Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!

Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.

Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.

Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.

Bréfið til Hebrea 9:24-28

24 Því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.

25 Og ekki gjörði hann það til þess að frambera sjálfan sig margsinnis, eins og æðsti presturinn gengur inn í hið heilaga á ári hverju með annarra blóð.

26 Þá hefði hann oft þurft að líða frá grundvöllun heims. En nú hefur hann birst í eitt skipti fyrir öll við endi aldanna til að afmá syndina með fórn sinni.

27 Og eins og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja og eftir það að fá sinn dóm,

28 þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og í annað sinn mun hann birtast, ekki sem syndafórn, heldur til hjálpræðis þeim, er hans bíða.

Markúsarguðspjall 12:38-44

38 Í kenningu sinni sagði hann: "Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum,

39 vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.

40 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm."

41 Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið.

42 Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði.

43 Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: "Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna.

44 Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society