Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
2 Hanna gjörði bæn sína og mælti: Hjarta mitt fagnar í Drottni, horn mitt er hátt upp hafið fyrir fulltingi Guðs míns. Munnur minn er upp lokinn gegn óvinum mínum, því að ég gleðst yfir þinni hjálp.
2 Enginn er heilagur sem Drottinn, því að enginn er til nema þú, ekkert bjarg er til sem vor Guð.
3 Mælið eigi án afláts drambyrði, ósvífni komi eigi út af munni yðar. Því að Drottinn er Guð, sem allt veit, og af honum eru verkin vegin.
4 Bogi kappanna er sundur brotinn, en máttfarnir menn gyrðast styrkleika.
5 Mettir leigja sig fyrir brauð, en hungraðir njóta hvíldar. Óbyrjan fæðir jafnvel sjö, en margra barna móðirin mornar og þornar.
6 Drottinn deyðir og lífgar, færir til Heljar niður og leiðir upp þaðan.
7 Drottinn gjörir fátækan og ríkan, niðurlægir og upphefur.
8 Hann reisir hinn lítilmótlega úr duftinu, lyftir hinum snauða upp úr skarninu, leiðir þá til sætis hjá þjóðhöfðingjum og setur þá á tignarstól. Því að Drottni heyra stólpar jarðarinnar, á þá setti hann jarðríkið.
9 Fætur sinna guðhræddu varðveitir hann, en hinir guðlausu farast í myrkri, því að fyrir eigin mátt sigrar enginn.
10 Þeir sem berjast móti Drottni, verða sundur molaðir, hann lætur þrumur af himni koma yfir þá. Drottinn dæmir endimörk jarðarinnar. Hann veitir kraft konungi sínum og lyftir upp horni síns smurða.
3 Sveinninn Samúel gegndi þjónustu Drottins hjá Elí. Orð frá Drottni var sjaldgæft á þeim dögum, vitranir voru þá fátíðar.
2 Þá bar svo til einn dag, að Elí svaf á sínum vanalega stað. En augu hans voru tekin að daprast, svo að hann var hættur að sjá,
3 og enn var ekki slokknað á Guðs lampa, en Samúel svaf í musteri Drottins, þar sem Guðs örk var.
4 Þá kallaði Drottinn á Samúel. Hann svaraði: "Hér er ég."
5 Og hann hljóp til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." En Elí sagði: "Ég hefi ekki kallað. Far þú aftur að sofa." Fór hann þá og lagðist til svefns.
6 En Drottinn kallaði enn að nýju: "Samúel!" Og Samúel reis upp og fór til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." En hann sagði: "Ég hefi ekki kallað, sonur minn. Leggst þú aftur til svefns."
7 En Samúel þekkti ekki enn Drottin, og honum hafði ekki enn birst orð frá Drottni.
8 Þá kallaði Drottinn enn á Samúel, í þriðja skiptið. Og hann reis upp og fór til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." Þá skildi Elí, að það var Drottinn, sem var að kalla á sveininn.
9 Fyrir því sagði Elí við Samúel: "Far þú og leggstu til svefns, og verði nú á þig kallað, þá svara þú: ,Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir."` Fór Samúel þá og lagðist til svefns á sínum stað.
10 Þá kom Drottinn og gekk fram og kallaði sem hin fyrri skiptin: "Samúel! Samúel!" Og Samúel svaraði: "Tala þú, því að þjónn þinn heyrir."
11 Drottinn mælti þá við Samúel: "Þá hluti mun ég gjöra í Ísrael, að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra.
12 Á þeim degi mun ég láta fram koma á Elí allt það, er ég hefi talað um hús hans _ frá upphafi til enda.
13 Því að ég hefi kunngjört honum, að ég muni dæma hús hans að eilífu vegna misgjörðar þeirrar, er honum var kunn, að synir hans leiddu bölvun yfir sig, og þó hafði hann ekki taum á þeim.
14 Og fyrir því hefi ég svarið húsi Elí: Sannlega skal eigi verða friðþægt fyrir misgjörð Elí húss með sláturfórn eða matfórn að eilífu."
15 Lá Samúel nú kyrr allt til morguns. Og um morguninn reis hann árla og lauk upp dyrunum á húsi Drottins. En Samúel þorði ekki að segja Elí frá sýninni.
16 Elí kallaði á Samúel og sagði: "Samúel, sonur minn!" Hann svaraði: "Hér er ég."
17 Elí sagði: "Hvað var það, sem hann talaði við þig? Leyndu mig því ekki. Guð láti þig gjalda þess nú og síðar, ef þú leynir mig nokkru af því, sem hann talaði við þig."
18 Þá sagði Samúel honum allt saman og leyndi hann engu. En Elí sagði: "Hann er Drottinn. Gjöri hann það, sem honum þóknast!"
12 Og hann tók að tala til þeirra í dæmisögum: "Maður plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.
2 Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna að fá hjá þeim hlut af ávexti víngarðsins.
3 En þeir tóku hann og börðu og sendu burt tómhentan.
4 Aftur sendi hann til þeirra annan þjón. Hann lömdu þeir í höfuðið og svívirtu.
5 Enn sendi hann annan, og hann drápu þeir, og marga fleiri ýmist börðu þeir eða drápu.
6 Einn átti hann eftir enn, elskaðan son. Hann sendi hann síðastan til þeirra og sagði: ,Þeir munu virða son minn.`
7 En vínyrkjar þessir sögðu sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, þá fáum vér arfinn.`
8 Og þeir tóku hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn.
9 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra? Hann mun koma, tortíma vínyrkjunum og fá öðrum víngarðinn.
10 Hafið þér eigi lesið þessa ritningu: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn.
11 Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum."
12 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögunni. Og þeir yfirgáfu hann og gengu burt.
by Icelandic Bible Society