Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.
21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna geldur hann mér,
22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.
23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum, og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér.
24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.
25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.
26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,
27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.
28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir hrokafulla niðurlúta.
29 Já, þú lætur lampa minn skína, Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu.
30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.
3 Naomí, tengdamóðir Rutar, sagði við hana: "Dóttir mín, á ég ekki að útvega þér athvarf, til þess að þér vegni vel?
2 Þú hefir verið með stúlkunum hans Bóasar, en hann er frændi okkar. Sjá, hann varpar í nótt bygginu í láfa sínum.
3 Þvo þér nú og smyr þig og far í önnur föt og gakk ofan í láfann, en láttu ekki manninn verða varan við þig fyrr en hann hefir etið og drukkið.
4 En þegar hann leggst til hvíldar, þá taktu eftir, hvar hann leggst niður, og gakk þú þangað og flettu upp ábreiðunni til fóta honum og leggst þar niður. Hann mun þá segja þér, hvað þú átt að gjöra."
5 Og hún svaraði henni: "Ég vil gjöra allt, sem þú segir."
6 Síðan gekk hún ofan í láfann og gjörði allt svo sem tengdamóðir hennar hafði fyrir hana lagt.
7 Er Bóas hafði etið og drukkið og var í góðu skapi, þá fór hann og lagðist til hvíldar við endann á kornbingnum. Þá kom hún hljóðlega, fletti upp ábreiðunni til fóta honum og lagðist niður.
17 Nú tók að nálgast sá tími, er rætast skyldi fyrirheitið, sem Guð hafði gefið Abraham. Fólkið hafði vaxið og margfaldast í Egyptalandi.
18 ,Þá hófst til ríkis þar annar konungur, er eigi vissi skyn á Jósef.`
19 Hann beitti kyn vort slægð og lék feður vora illa. Hann lét þá bera út ungbörn sín, til þess að þjóðin skyldi eigi lífi halda.
20 Um þessar mundir fæddist Móse og var forkunnar fríður. Þrjá mánuði var hann fóstraður í húsi föður síns.
21 En er hann var út borinn, tók dóttir Faraós hann og fóstraði sem sinn son.
22 Móse var fræddur í allri speki Egypta, og hann var máttugur í orðum sínum og verkum.
23 Þegar hann var fertugur að aldri, kom honum í hug að vitja bræðra sinna, Ísraelsmanna.
24 Hann sá einn þeirra verða fyrir ójöfnuði, og rétti hann hlut hans, hefndi þess, sem meingjörðina þoldi, og drap Egyptann.
25 Hann hugði, að bræður hans mundu skilja, að Guð ætlaði að nota hann til að bjarga þeim, en þeir skildu það ekki.
26 Næsta dag kom hann að tveim þeirra, sem slógust. Hann reyndi að stilla til friðar með þeim og sagði: ,Góðir menn, þið eruð bræður, hví eigist þið illt við?`
27 En sá sem beitti náunga sinn órétti, hratt honum frá sér og sagði: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur?
28 Þú munt þó ekki vilja drepa mig, eins og þú drapst Egyptann í gær?`
29 Við þessi orð flýði Móse og settist að sem útlendingur í Midíanslandi. Þar gat hann tvo sonu.
by Icelandic Bible Society